15 hlauparar safna áheitum fyrir SÁÁ

Samtals hafa nú safnast 184.500 krónur í áheitum til styrktar SÁÁ á hlaupastyrkur.is þar sem þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, sem fram fer 19. ágúst næstkomandi, láta gott af sér leiða.

15 hlauparar safna þar áheitum fyrir SÁÁ.

Hörður Ágústsson hefur safnað mestu allra, hvorki meira né minna en 120.500 krónum. Hann segir á hlaupastyrkur.is:

Árið 2013 fór ég í áfengismeðferð á Vogi. Það breytti lífi mínu á fleiri vegu en hægt er að ímynda sér. Ég var heppinn því það var pláss fyrir mig á Vogi og ég komst strax inn. Það vantar alltaf peninga í SÁÁ og því bið ég ykkur vini mína og kunningja að styðja mig í þessu 10km hlaupi til styrktar SÁÁ. Takk!

Rakel hefur safnað 30.000 krónum. Hún segir á hlaupastyrkur.is:

Þann 01.ágúst mun ég fagna 15 árum án áfengis og vímuefna. Að því tilefni ætla ég að hlaupa fyrir SÁÁ, þar fékk ég alla þá hjálp og upplýsingar sem ég þurfti. SÁÁ bjargaði mér og mínum.

SÁÁ bjargaði lífinu mínu á síðasta ári og ég stend ævinlega í þakkarskuld við þessa frábæru stofnun.