Hvað er meðvirkni?

Meðvirkni er flókinn sjúkdómur sem erfitt er að skilja. Upphaf hans má rekja til þess að eðlilegur einstaklingur lendir í sambýli við fíkil sem getur verið mislangt genginn í fíkn sinni. Af stað fer þróun án þess að nokkur geri sér grein fyrir hvað í vændum er. Fíkn fíkilsins versnar alla jafnan og álagið á aðstandandann fer vaxandi og oftast verður það til þess að aðstandandinn veikist. Veikindin meðvirka einstaklingsins verða mis mikil og nokkuð mismunandi.

Mikilvægt að skilja hugtakið

Fólkið sem stundaði áfengis og vímuefnalækningar í Bandaríkjunum áttaði sig smám saman á þessum sjúkdómi aðstandandans og bjó sér til hugmyndir um hann og fór að skilgreina ný hugtök og nota ný orð um hann og einkenni hans. Það bjó sér til tungumál til að lýsa meðvirkni sjúkdóminum og ræða um lausn á honum eða meðferð.

Grundvöllur faglegarar eða vitrænnar umræðu um meðvirkni er að nota hugtök sem eru vel skilgreind og kunn þeim sem um málið fjalla. Mikilvægast er þó að gera sér vel grein fyrir eðli meðvirkninnar og koma sér saman um hvað hugtakið meðvirkni þýðir eða á að merkja.

Gengisfall hugtaka

Meðvirkum einstaklingum sem náð hafa bata og öllum þeim sem vinna við áfengis- og vímuefnalækningar þykir mjög vænt um hugtakið meðvirkni. Þeir vilja líka að hugtakið sé varðveitt og ekki eyðilagt eins og oft gerist í hraða opins samfélags auglýsinga og slagorða. Dæmi um hugtök sem þannig hafa verið eyðilögð með því að þenja þau út og láta merkja nær allt eru hugtökin þunglyndi og áfall.

Það er því full ástæða til að gefa sér dálítinn tíma til að kynna sér sögu hugtaksins og merkingu þess áður en menn demba sér af fítonskrafti í að ná bata í gegnum meðferð eða 12 spora samtök. Þau sem síðan ætla í 12. spors vinnu, eða meðhöndla aðstandendur, þurfa líka að standa klár á hugtakinu áður en þau greina allt og alla með meðvirkni.

Co-alkóhólistar og Para-alkóhólistar

Hugtakið er notað um þá sem búa náið með einhvers konar fíkli og fá álagsveikindi. Það er að segja löng návist við fíkil veldur álagi sem smám saman gerir einstaklinginn óvirkan, óhamingjusaman eða veikan.

Á árunum 1950-1970 gerði meðferðarsamfélagið, sem fékkst fyrst og fremst við áfengissjúklinga, sér grein fyrir því að fjölskyldu áfengissjúklingsins leið illa og að ekki var um sjálskaparvíti að ræða. Mest áhersla var lögð á makann í fyrstu með það að markmiði að gera inngrip í vandann auðveldari. Seinna gerðu menn sér grein fyrir því að makanum leið oft ekkert betur en áfengissjúklingnum og hann þurfti sér meðferð.

Í upphafi töluðu menn um Co-alkóhólista (Co-Alcoholic) og áttu þá einungis við maka áfengissjúklings og til urðu samtök þeirra, Alanon. Síðan varð mönnum ljóst að aðrir úr fjölskyldunni gátu líka verið veikir svo sem eins og foreldrar og systkini. Seinna beindist athyglin að börnunum í fjölskyldunni farið var að taka um fullorðin börn fíkla sem enn voru meðvirk og þau stofnuðu sín eigin 12 spora samtök. Þetta fólk var um tíma kallað para-alkóhólistar (Para-Alcoholic).

Varðveitum hugtakið meðvirkni

Eina meðferðin sem þetta fólk fékk í fyrstu var að fylgjast með AA fundum og tala um málin við fólk sem var á slíkum fundum. AA fundir voru þá oft haldnir á heimilum eða að heimilin urðu að framahaldsfundum.

Skipulögð meðferð fyrir áfengis vímuefnasjúklinga hófst á meðferðarstofnunum í Minnesota sem gerðu engan mun á vímuefnafíknum og töluðu um „chemical dependency”. Orðið Co-alkóhólisti, „codependency", merkti í raun meðfíkill.

Hér á Íslandi höfum við þýtt orðið sem meðvirkni. Það hugtak getur verið villandi ef óvarlega er farið. Þannig hafa margir þanið hugtakið út og sjá meðvirkni í öllum hornum; í fyrirtækjum, í aðstandendum allra sjúklinga og jafnvel öllum sínum aðstandendum. Þetta ber að varast og betra er að varðveita hugtakið sem okkur er svo kært og láta það ná einungis um ástvini fíkla sem veikjast alvarlega.

Meðferð við meðvirkni

Hvaða meðferð þarf meðvirkur einstaklingur? Hvernig nær maður bata? Einstaklingur sem er mikið veikur þarf meðferð, minna veikir geta hugsanlega snúið sér beint til tólf spora samtaka.

Þegar búið er að greina meðvirkni og ganga úr skugga um að vandamál hins meðvirka einstaklings stafar ekki af neinu öðru er hægt að snúa sér að því að leysa málið. Flestir þeir sem eru meðvirkir þurfa að fá sérstaka meðferð. Sumir sem eru minna veikir geta þó snúið sér beint til 12 spora samtaka og náð góðum bata.

Meðferðin þarf að vera víðtæk og taka á öllum þáttum einstaklingsins. Hún byrjar þó alltaf á því að hinn meðvirkni fær það mikla innsýn í vandann að hann sér hversu mikilvægt það er fyrir hann að gera breytingar á sínu lífi.

Hætta að stjórna neyslu fíkils

Það eru viðtöl, fyrirlestrar og hópfundir sem færa hinum meðvirka innsýn í að ástvinur hans er fíkill og hvers eðlis fíkn hann er. Næsta stig er að sjá hvernig fíkn ástvinar hefur haft áhrif á alla fjölskylduna og hinn meðvirka sérstaklega. Þarna er fræðsla mikilvæg en hópfundirnir hafa eflaust mesta lækningamáttinn á þessu stigi. Þar fá hinir meðvirku vaxandi innsýn í sína eigin hegðun, tilfinningar, hugsunarhátt og viðhorf.

Næsta og nauðsynlegasta skref í átt að bata er að stöðva alla hegðun sem miðar að því að stjórna neyslu eða forða fíklinum frá falli. Ekkert er hægt að gera og bataþróun hefst ekki almennilega fyrr en sú hegðun er stöðvuð. Um leið og þetta er gert þarf hinn meðvirki einstaklingur að ná jafnvægi og góðri líðan. Læra að fást við streitu, leiða og slæmar tilfinningar á eðlilegan hátt.

Langtíma verkefni

Þriðja og síðasta stigið í batanum er að snúa sér að því að greina ósveigjanleg og óraunhæf viðhorf, hugsunarhátt og hegðun sem veldur stöðugri sálarþröng og vanlíðan og breyta þeim. Þetta er langtíma verkefni sem tekur mörg ár. Fyrir þá sem fá sjúkdóminn á fullorðinsárum dugar hugræn atferlismeðferð vel ásamt fræðslu. Fyrir þá sem fá sjúkdóminn á barnsaldri dugar hugræn atferlismeðferð ekki nema að hluta. Þar þarf að vinna á annan hátt með tilfinningamálin og áfallastreituna.

Einkenni meðvirkra einstaklinga

Þegar lýsa á breytingum á meðvirkum einstaklingi sem lifir með virkum fíkli er venjan að gera það á tvo vegu. Í fyrsta lagi út frá þeim fastmótuðu hlutverkum sem einstaklingurinn tekur að sér í fjölskyldunni. Í öðru lagi út frá persónulegu þróunarferli sem tekur til líkamlegrar og andlegrar heilsu og félagslegrar virkni.

Ef við lítum fyrst til þróunar á andlegri heilsu má segja að góðir eiginleikar einstaklingsins og umhyggja hans fyrir fíklinum þróist yfir í sjúklega áráttu sem jafnvel fer að virka öfugt og hjálpa fíklinum að halda neyslunni áfram (Enabling). Hinn meðvirki sýnir af sér sívaxandi stjórnsemi sem ekki er alltaf augljós („laumustjórnandi öðrum háður“) um leið og hann fyllist örvæntingu og finnst að hann hafi algjörlega brugðist sem ástvinur. Sjálfsímynd hans verður neikvæð og stundum óljós og sjálfsvirðing lág. Hann lifir við stöðuga streitu og lága sjálfsvirðingu sem getur af sér sívaxandi kvíða þunglyndi og sektarkennd. Hann getur í raun farið að uppfylla ýmis skilyrði geðgreininga þó hann sé í reynd ekki með neinn geðsjúkdóm. Hvaða verður uppi á teningnum í þessu efni fer eftir persónuleika hans og aldri. Þannig geta aðstandendur fengið alvarlegar kvíðaraskanir, þunglyndi og persónuleikaraskanir.

Líkamleg og andleg einkenni

Líkamlega býr hinn meðvirki við stöðga streitu og fær þess vegna streitusjúkdóma eins og maga- og ristilvandamál, vöðvabólgur og síþreytu. Félagslega einangrast hann og verður óvirkari vegna hegðunarvanda og slæmrar geðheilsu.

Í batanum þarf því að leggja mikla áherslu á að byggja upp sjálfsvirðinguna um leið og lögð er áhersla á almenna heilsueflingu og að vinna gegn streitu og losa um hana.

Ef litið er til persónugerðanna sem algengt er að finna í fjölskyldum fíklanna verður að hafa í huga að einstaklingarnir þar hafa lengi lifað við mikið álag og sjúklegar samskiptareglur. Þeir hafa smám saman tekið á sig fast svipmót einhverrar persónugerðarinnar og mála hana svo sterkum litm að þeir eru augljóslega illa haldnir og veikir. Auðvita má sjá svipmót þessara persónugerða í eðlilegum fjölskyldum en þá eru persónugerðirnar ekki eins ósveigjanlegar, svipmótið ekki eins sterkt og viðkomandi ekki illa haldinn.

Hjálparhellan, hetjan, þóknarinn

Þeim fullorðnu í fjölskyldunni hefur verið lýst með því að skipta þeim í sjö persónuleikagerðir sem bera nöfn sem lýsa þeim ágætlega: Hjálparhellan, stuðningsmaðurinn, meinhornið bandamaðurinn, hetjan, línudansarinn og þóknarinn. Ef litið er til barnanna er sama uppi á teningnum og talað er um fjórar persónugerðir: Fjölskylduhetjan, svarti sauðurinn, trúðurinn og týnda barnið.

Margir meðvirkir einstaklingar sjá sig ekki einungis í einni dæmigerðri persónuleikagerð heldur finnst að þeir séu í mismunandi hlutverkum eftir aðstæðum.

Í batanum hefur það mikla þýðingu fyrir hinn meðvirka að finna sína persónugerð. Það auðveldar honum að sjá sjálfan sig og eignast aukna innsýn. Í framhaldinu verður betra fyrir hann að sjá hvaða hugsunarháttur, hegðun og viðhorf eru honum til trafala og hverju hann þarf að breyta.

Að greina meðvirkni

Í dag fer mikið af fólki beint til 12 spora samtaka vegna ýmiskonar álags og slæmrar líðanar og fær góða bót. Ekki er ætlunin að trufla þetta fólk eða mæla gegn slíku með þessari umfjöllun. Þeir sem ætla að setja upp sérstaka þjónustu eða meðferð fyrir meðvirkt fólk verða þó að vinna markvisst og skipulega, annars fer allt úr böndunum. Fyrsta skrefið í því er að skilgreina vel sjúkdóminn sem er verið að meðhöndla og skilja eðli hans.

Til að verða meðvirkur verður einstaklingur að hafa búið náið með virkum fíkli í langan tíma. Nábýli við aðra sjúklinga og fólk með hegðunarvanda ýmis konar getur líka haft mikil og slæm áhrif á það fólk og valdið þeim veikindum. Það fólk er þó ekki meðvirkt í skilningi SÁÁ og ekki viðfang samtakanna. Með því er á engan hátt gert lítið úr vanda þess eða því haldið fram að það megi ekki fara í 12 sporasamtök eða þurfi ekki meðferð. Það er bara ekki meðvirkt samkvæmt hugmyndum SÁÁ.

Eðli veikindanna

Ekki verða allir veikir sem búa með fíklum en sumum fer að líða illa eða fá hegðunarvanda og njóta sín engan veginn. Þeir smám saman veikjast og þó að þeir komist frá fíklinum halda þeir áfram að vera veikir og njóta sín ekki. Sjúkdómurinn hefur eignast sitt eigið líf og býr í hinum meðvirka einstaklingi.

Hvert er eðli veikindanna og hvað er þessum einstaklingum sameiginlegt? Vegna álagsins í fjölskyldunni og samskiptareglna sem þar gilda hafa þeir fengið fastmótuð viðhorf, hugsunarhátt og hegðun sem er eðli veikindanna og viðheldur þeim. Viðhorfin sem einstaklingarnir fá gagnvart sjálfum sér, þeim áfengissjúka, öðru fólki og veröldinni eru áþekk en ekki alltaf eins eða þau sömu. Hugsunarhátturinn og hegðunin mótast líka með svipuðum hætti en hugsunarvillurnar og viðhorfsbrenglunin er mismunandi eftir einstaklingum.

Það sem sameinar fólk

Dæmigerð viðhorf sem fólk fær eru þau að enginn megi verða reiður eða að það megi sjálft alls ekki gera mistök. Ef slíkt hendir er það agalegt, skelfilegt eða óásættanlegt. Önnur fastmótuð viðhorf eru viðhorf til sjálfs sín og alkóhólistans. Dæmigerður hugsunarháttur sem fólk fær er að allt er málað sterkum litum og alhæfingarnar eru alsráðandi. Hugsunin um sjálfan sig verður óvirðuleg og neikvæð. Sjálfsásökun vegna hegðunar fíkilsins og ábyrgð á henni og fíkn hans verður yfirþyrmandi. Hegðunin verður fastmótað og fas hins reiða manns, uppurðarlitla manns eða hins óörugga manns einkennir þann meðvirka. Í kjölfar alls þessa kemur stöðug streita og ýmis konar vanlíðan og lágt sjálfsmat.

Það sem þessu fólki er sameiginlegt er svipuð lífsreynsla sem hefur myndað vaxandi álag og veikindi. Þegar fólkið fer að tala saman þekkir það tilfinningar, viðhorf og hugsunarhátt hvers annars. Hið innra er sjúkdómurinn eins en hið ytra meikar hann ekki sens og einstaklingarnir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Einstaklingarnir eiga eitthvað sameiginlegt sem aðrir eiga erfitt með að skilja.

Sjúkleg ábyrgð

Aðaleinkenni þessa fólks er að því finnst það bera sjúklega ábyrgð á hegðun hugsunarhætti og tilfinningum fullorðinnar manneskju. Það er óumflýjanlegt að illa fari. Í kjölfar þess koma fullt af einkennum þar sem fólk er að reyna að stjórna tilfinningum, hegðun og hugsunarhætti fullorðins einstaklings sem auðvitað er ekki hægt. Afleiðingin eru vanræksla á sjálfum sér, vaxandi tilfinningaþröng, reiði, kvíði, sektarkennd og örvænting. Nauðsynlegt er að greina hvort um er að ræða meðvirkni sem byrjar á barnsaldri eða seinna á ævinni. Eðlismunur er á þessu tvennu og meðferð nokkuð mismunandi.

Þróun meðvirku fjölskyldunnar

Þegar einn úr fjölskyldunni veikist er það markað í erfðum okkar hvað við gerum. Við göngum fram fyrir skjöldu, tökum byrgðar af hinum veika og vinnum vinnuna hans. Í flestum tilvikum er þetta rétt og gagnast vel. Þegar einhver veikist af fíkn í fjölskyldu okkar bregðumst við eins við og setjum af stað þróun sem ekki sér fyrir endann á.

Við getum skipt þessarri þróun í fjögur stig og kallað afneitun, stjórnun, einangrun og upplausn. Auðvitað er hægt að notað miklu fleiri stig til að lýsa þróuninni. Aðalatriðið hér er að gera sér grein fyrir að verið er að lýsa mjög flókinni þróun og þá dugar ekki að verða bókstafstrúar.

Líður ekki vel en heldur ekki illa

Fyrsta stigið einkennist af því að allir í fjölskyldunni trúa því ekki upp á ástvin sinn að hann sé að veikjast af þessum skammarlega sjúkdómi sem almennilegt fólk fær ekki. Þeir réttlæta gjörðir fíkilsins í huga sér og hylma yfir með honum og fela. Hjálpa honum til að halda andlitinu um leið og þeir reyna með vaxandi ákafa að stjórna hegðun hans og líðan. Hér líður öllum nokkuð vel og telja sig ráða við aðstæður.

Næsta stig köllum við stjórnunarstig. Það einkennist af því að vandinn er viðurkenndur að hluta en ekki utan fjölskyldunnar og reynt er að fela hann fyrir öðrum. Hver og einn einstaklingur er upptekinn við að reyna á sinn hátt að lækna fíkilinn með því að hafa áhrif á hegðun hans og líðan. Einstaklingarnir tala ekki saman um vandann og hafa enga heilstæða áætlun um lausn hans og leita sér ekki aðstoðar. Fíkillinn elur með framkomu sinni og orðum á ósamheldni og rifrildi meðal ástvina sinna. Allt er í hnút og allir vissir um að þeir hafi rétt fyrir sér og halda enn sínu sjálfstrausti. Þeim líður ekki vel en heldur ekki illa. Oft fer fíkillinn í meðferð á þessu stigi og ástvinirnir gera sér óraunhæfar væntingar um batann.

Einangrun og upplausn

Þriðja stigið er einangrun og það versta því að allar stjórnunaraðgerðir og tilraunir hafa brugðist og fíkillinn heldur áfram að vera virkur. Einstaklingunum í fjölskyldunni finnst að þeir hafi brugðist og séu þess vegna misheppnaðir. Vaxandi félagsleg einangrun kemur til sögunnar, tengsl maka við vini rofna og börnin bjóða fáum heim. Sameiginleg áhugamál eru vanrækt og samverustundum fækkar. Tilfinningaleg einangrun heldur innreið sína í fjölskylduna þar sem einstaklingarnir draga sig í hlé og gefa ekki öðrum hlutdeild í lífi sínu og tilfinningum. Ástæðan er augljós; ef tilfinningarnar brjótast fram hefur það alvarlegar afleiðingar í för með sér og oftast að fíkillin fer í neyslu. Á þessu stigi býr fólk við vaxandi vanlíðan og óhamingju.

Fjórða og síðasta stig þróunarinnar er upplausn í fjölskyldunni og hún hættir í raun að vera til sem slík. Náttúran sér um að fólk komist úr óþolandi einangrunarstigi. Smám saman hætta einstaklingar fjölskyldunnar að einblína á fíkilinn og finna sér annan farveg í lífinu. Makinn snýr sér að verkefnum utan fjölskyldunnar og börnin koma sér burt og mynda sína eigin fjölskyldu. Einstaklingarnir aftengjast fíklinum svo mikið tilfinningalega að furðu sætir.

Ekki tala um ,,vandamálið”

Líta má á þróun í fölskyldum fíkla á annan hátt. Sjá að smám saman myndast samskiptareglur sem einstaklingarnir fara eftir. Reglurnar verða sífellt meira áberandi og einstaklingarnir fara sífellt nákvæmar eftir þeim. Claudia Black var með þeim fyrstu að benda á þetta og talaði um reglurnar þrjá. Ekki tala, ekki treysta og ekki finna til. Robert Subby og aðrir töluðu um fleiri reglur eins og þær sem hér koma á eftir:

  1. Það á ekki að tala um vandamál og alls ekki „vandamálið“.
  2. Það á ekki að bera tilfinninga sínar á torg.
  3. Samskipti eru óbein, helst í gegnum þriðja aðila
  4. Vertu sterkur, góður, fullkominn og hafðu rétt fyrir þér.
  5. Gerðu okkur stolt af þér.
  6. Vertu ekki sjálfselskur eða eigingjarn.
  7. Gerðu eins og ég segi en ekki eins og ég geri.
  8. Það er ekki æskilegt að bregða á leik og vera of ærslafullur.
  9. Við skulum ekki ýfa öldurnar

Í batanum er mjög mikilvægt fyrir fjölskylduna að brjóta upp þessar reglur og koma á sameiginlegum fundi þar sem leyfilegt er að tala um hegðun fíkilsins og önnur viðkvæm mál.

-ÞT

Höfundur greinar