Vín handa unglingum?

shutterstock_547615957

Umhugsunarefni fyrir foreldra

Í einkasamtölum og alls konar fundum og fræðslukvöldum er þeirri spurningu stundum beint til okkar sem vinnum við forvarnir hvort skynsamlegt sé af foreldrum að kaupa áfengi fyrir börn sín á unglingsaldri. Flestu fólki þykir þetta reyndar með öllu fráleitt. Staðreyndin er þó sú að margir foreldrar gera þetta. Sumir í góðri trú en aðrir láta undan fortölum og þrýstingi unglinganna ("Já, en mamma hennar Siggu ætlar að kaupa bjór handa henni!").

Full ástæða er til að gaumgæfa þær hugmyndir sem liggja á bak við þá afstöðu að rétt sé að kaupa áfengi fyrir unglinga og viðhafa annað "frjálslyndi" þegar vín og unglingar eru annars vegar. Jafnvel þótt okkur komi ekki til hugar að kaupa áfengi fyrir unglingana okkar þurfum við að ígrunda þá skoðun vel. Við þurfum að skoða málið frá sem flestum hliðum og móta okkur bjargfasta skoðun.

Getum við stjórnað einhverju?

Þegar fólk kaupir áfengi fyrir unglingana sína telur það sér stundum trú um að með því sé hægt að hafa einhver áhrif til góðs. Hugleiðið og ræðið eftirfarandi fullyrðingar:

 • Ef ég kaupi áfengi fyrir unglinginn veit ég hvað hann drekkur mikið.
 • Ef ég kaupi áfengi fyrir unglinginn veit ég að hann er ekki að drekka neina ólyfjan á meðan (t.d. landa).
 • Ef ég leyfi unglingnum að drekka heima undir eftirliti lærir hann að fara með áfengi.
 • Við gerðum þetta fyrir eldri börnin og þau hafa ekki lent í neinum vandræðum.

Er ljótt að banna börnunum sínum?

Sumir foreldrar vilja ekki vera strangir og leiðinlegir. Almennt talað þykir það dyggð nú á tímum að vera frjálslyndur og fordómlaus. Spurningin er hvort það sé þröngsýni og kúgun að vera á móti eða banna börnunum sínum eitthvað.

Veltið fyrir ykkur eftirfarandi fullyrðingum

 • Unglingar sækja frekar í það sem þeim er bannað því það er meira spennandi.
 • Að banna unglingi að drekka er óraunhæft og veldur því einu að hann fer á bak við okkur.
 • Unglingar þurfa að fá að prófa sig áfram-líka með áfengi.

Hvaða skilaboð sendir þú?

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá felast hættuleg skilaboð í því að kaupa áfengi fyrir ungling eða láta hann drekka óáreittan. Þó við segjum og hugsum annað þá felast ákveðin skilaboð í þeirri gjörð að kaupa og afhenda unglingi áfengi til drykkju; við erum í rauninni að segja eftirfarandi:

 • Það er sjálfsagt, eðlilegt og æskilegt að drekka áfengi.
 • Við sem stjórnum þessu heimili getum leyft okkur að setja önnur lög en þau sem gilda í samfélaginu.
 • Þú mátt drekka.
 • Þú átt að geta farið viturlega með áfengi. Þess vegna treysti ég þér fyrir því.
 • Ef þú ferð illa með áfengi þegar við erum svona frjálslynd og skilningsrík ertu að bregðast trausti okkar.

Ef við erum ekki að segja þetta við unglinginn þegar við réttum honum bjórana sem við keyptum fyrir hann í ríkinu-hvað erum við þá að segja? Hvernig skilur unglingurinn hegðun okkar og merkingu hennar?

Hvað ef vandamál knýja dyra?

Er líklegt eftir þessi skilaboð að foreldrar séu vel í stakk búnir til að mæta vandamálum ef þau koma upp? Við ætlum vonandi ekki að stuðla að því að unglingurinn okkar lendi í vandræðum. Á hinn bóginn vitum við ekki hvaða áhrif það hefur á hann ef hann drekkur áfengi. Það veit enginn fyrirfram. Komi upp vandræði eða okkur fer ekki að lítast á blikuna-hvaða áhrif hefur það á stöðu okkar frammi fyrir vandanum ef við höfum hjálpað unglingum okkar að komast yfir áfengi?