31 hlaupari hefur skráð áheit til SÁÁ á hlaupastyrkur.is

SÁÁ er meðal þeirra 164 félaga og samtaka sem taka þátt í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2014.

Frá því skráning hófst hefur þrjátíu og einn einstaklingur, 18 konur og 13 karlar, skráð sig til söfnunar áheita í þágu SÁÁ á vefsíðunnihlaupastyrkur.is.

Hér er hægt að skoða nánari upplýsingar um þann glæsilega hóp sem ætlar að hlaupa í þágu SÁÁ á laugardaginn í næstu viku.

Sumir hlaupararnir lýsa því hvers vegna þau ætla að láta áheit renna til SÁÁ.

Elín Úlfarsdóttir, ætlar að hlaupa hálfmaraþon, og hún segir:

Ég ætla að hlaupa til syrktar SÁÁ í minningu móður minnar Sólveigar Friðfinnsdóttur sem lést fyrir aldur fram aðeins 54 ára. Hún hafði glímt við alkóhólisma í 24 ár og þessi sjúkdómur varð hennar banamein. Alkóhólismi gerir ekki mannamun og veldur hann einstaklingum og fjölskyldum þeirra miklum erfiðleikum og vanlíðan. SÁÁ hefur hjálpað mörgum fjölskyldum til betra lífs.

Ragna Þórisdóttir, hleypur 10 kílómetra, og ætlar að styðja SÁÁ og útskýrir það á þennan hátt:

Þar sem við fjölskyldan höfum notið góðs af því góða starfi sem unnið er á sjúkrahúsi jafnt sem göngudeildum SÁÁ, og þekkjum því af eigin reynslu þörfina fyrir þá þjónustu sem þeir veita, þá langar mig að láta gott af mér leiða fyrir góðan málstað. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að styrkja mig, munum að margt smátt gerir eitt stórt. Takk fyrir:)

Helga Birkisdóttir hleypur líka 10 kílómetra. Hún segir:

SÁÁ hefur lyft grettistaki í baráttunni við sjúkdóminn alkóhólisma. Ungum sem öldnum alkóhólistum býðst fjölbreytt meðferð. En samtökin bjóða líka ýmis úrræði fyrir fjölskyldur alkóhólista, bæði börn og fullorðna. Það er mjög mikilvægt starf sem þarf að hlúa að. Þess vegna hleyp ég til styrktar SÁÁ. Hjartans þakkir fyrir stuðninginn.

Þorsteinn Már Jónsson, er enn einn 10 kílómetrahlauparinn sem heitir á SÁÁ. Hann segir þetta:

Ég ætla að hlaupa fyrir SÁÁ, vegna þess að ég vill gefa til baka fyrir þá hjálp sem ég fékk þegar ég sem mest þurfti og vonast til að aðrir geti orðið þeirri gæfu aðnjótandi að fá rétta hjálparhönd þegar mest á reynir.

Á tenglinum hér er hægt að heita á hlauparana og greiða áheit með greiðslukorti, sms-skeyti eða millifærslu.

Við sendurum hlaupurunum bestu þakkir og baráttukveðjur og hvetjum þá velunnara SÁÁ sem eru aflögufærir til að leggja málinu lið.