Miðgildi aldurs 26 ár; 35% dánarhlutfall næstu fimm ár

„Um 1% innlagna á gjörgæsludeildir Landspítala er vegna fylgikvilla af neyslu fíkniefna í æð. Þetta er ungur sjúklingahópur sem oftast leggst inn vegna alvarlegra eitrana eða sýkinga og er með mjög skertar lífslíkur miðað við sama aldurshóp, en 35% hans voru látin innan 5 ára. Niðurstöður réttarefnafræðilegra rannsókna leiða í ljós 4,1 andlát/105/ár vegna neyslu vímuefna í æð sem gefur til kynna að umfang vandans sé sambærilegt og á öðrum Norðurlöndum. Áhyggjuefni er hve algengt er að nota uppleyst lyfseðilsskyld lyf sem vímuefni til inngjafar í æð.“

Þetta er sú ályktun sem dregin er í niðurlagi greinar sem Kristinn Sigvaldason læknir, Þóroddur Ingvarsson læknir, Svava Þórðardóttir lyfja- og eiturefnafræðingur, Jakob Kristinsson prófessor emeritus og Sigurbergur Kárason læknir skrifuðu um rannsókn sem þau gerðu og birt var í 10. tbl. 100. árgangs Læknablaðsins, 2014.

Í rannsókn þeirra voru kannaðar allar innlagnir á gjörgæsludeild Landspítala sem tengdust notkun vímuefna í æð á tímabilinu 2003-2007 og metin 5 ára lifun.Einnig var farið yfir réttarefnafræðilegar skýrslur vegna dauðsfalla einstaklinga með sögu um notkun vímuefna í æð á sama tímabili.  „Alls reyndust 57 einstaklingar hafa sögu um notkun vímuefna í æð við innlögn á gjörgæsludeild á tímabilinu, sem er um 1% af heildarfjölda innlagna. Innlagnir voru oftast vegna eitrunar (52%) eða lífshættulegrar sýkingar (39%). Miðgildi aldurs var 26 ár og 66% voru karlar. Eitranir voru algengastar, oftast vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum. Dánartíðni á sjúkrahúsi var 16% og 5 ára dánartíðni 35%. Meðaltími frá útskrift að andláti var 916 ± 858 dagar. Alls fundust 38 krufningarskýrslur einstaklinga með sögu um notkun vímuefna í æð á tímabilinu, eða 4,1/105/ár fyrir aldurshópinn 15-59 ára. Algengasta dánarorsök var eitrun (53%) sem oftast var vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum (90%) og oft voru mörg efni tekin samtímis, segir í ágripi.“

Í ágripi greinarinnar segir einnig: „Lífslíkur einstaklinga sem nota vímuefni í æð og hafa þurft gjörgæsluinnlögn eru verulega skertar. Áhyggjuefni er hve algengt er að nota lyfseðilsskyld lyf við slíka neyslu. Umfang vandans virðist svipað og á öðrum Norðurlöndum.“

Þau lyf sem komu við sögu í lyfjamælingum voru flokkuð með þessum hætti:

Flokkur I: Kókaín, fentanýl, heróín/morfín, metadon, kódein og tramadól.
Flokkur II: Amfetamín, metamfetamín, MDMA (ecstasy), metýlfenídat og tetrahýdrókannabínól.
Flokkur III: Benzódíazepín, karísópródól/mepróbamat og zolpídem.
Flokkur IV: Öll önnur lyf og eiturefni, þar með talið etanól.

Í niðurstöðukafla greinarinnar segir: “

Lyf af flokki I voru meginorsök andláts 17 einstaklinga, þar af var morfín algengast, sem er sambærilegt við niðurstöður rannsóknar frá Norðurlöndum árið 2007. Heróín er ekki algengt á íslenska fíkniefnamarkaðnum, lögreglan leggur hald á í mesta lagi örfá grömm árlega. Kókaíneitrun olli dauða í tveimur tilfellum en í öllum hinum var um að ræða lyfseðilsskyld lyf. Sú venja að leysa upp ávana- og fíknilyf í töfluformi eða plástrum virðist vera útbreidd meðal fíkniefnaneytenda hér á landi. Misnotkun á fentanýl verkjaplástrum er áhyggjuefni vegna gjörgæsluinnlagna og jafnvel dauða í rannsóknarhópnum. Þetta er líka þekkt í nágrannalöndum og lögð áhersla á hættuna sem fylgir notkun slíkra efna. Notkun lyfseðilsskyldra lyfja virðist einnig vera vaxandi hjá yngri fíkniefnanotendum í Bandaríkjunum. Spurning er hvort slíkir neytendur geri sér grein fyrir hættunni af því að nota lyfsseðilskyld lyf á þennan hátt og hvort mögulegt sé að auka fræðslu hvað það varðar meðal almennings.

Réttarefnafræðileg rannsókn á blóðsýnum sýndi að notkun margra lyfja samtímis var algeng, að meðaltali fjögur lyf í hverju tilfelli. Samtímis notkun á örvandi efnum, kókaíni, tetrahýdró-kannabínóli og lyfseðilskyldum lyfjum var algeng, bæði hjá einstaklingum sem lagðir voru inn á gjörgæsludeild og hjá þeim sem létust utan sjúkrahúsa. Algengast var að finna amfetamín í blóði þeirra sem létust í tengslum við notkun vímuefna í æð, enda virðist það vera algengasta efnið á fíkniefnamarkaðnum hér á landi. Metýlfenídat olli dauða í tveimur tilfellum, en það er lyfseðilsskylt lyf af amfetamínflokki og virðist notkun þess fara vaxandi meðal fíkniefnaneytenda. Samkvæmt opinberum tölum fór sala þessa lyfs vaxandi á Íslandi á rannsóknartímabilinu, fjöldi seldra skammta (DDD) á hverja 1000 íbúa jókst úr 5,27 árið 2003 í 10,6 árið 2007.

Notkun lyfja af flokki III, aðallega benzódíazepínsambanda, virðist vera algeng meðal fíkniefnaneytenda hérlendis, en notkun þeirra getur aukið hættu á milliverkunum og þar með eituráhrifum sterkra verkjalyfja. Lyf af flokki IV eru aðallega geðlyf og greining þeirra í blóðsýnum gefur til kynna að sumir einstaklinganna voru á meðferð vegna geðsjúkdóma.

Helstu veikleikar þessarar rannsóknar eru að hún er afturskyggn og ef til vill hafa ekki allir einstaklingar með sögu um notkun vímuefna í æð greinst samkvæmt skilyrðum um inntöku í rannsóknina. Örlögum fremur fárra einstaklinga er lýst, sem er eðlilegt hjá fámennri þjóð. Styrkleikar rannsóknarinnar eru þeir að hún nær til flestra sem fengu lífshættulega fylgikvilla í tengslum við notkun vímuefna í æð og þörfnuðust gjörgæsluinnlagnar en erfitt er að fela slíka neyslu við þær aðstæður og eftirfylgni þeirra var nákvæm. Einnig náði hún til allra niðurstaðna réttarefnafræðilegra rannsókna á dauðsföllum fólks sem vitað er um með tengsl við notkun vímuefna í æð á rannsóknartímabilinu.“

Síðan er kynnt eftirfarandi ályktun greinarinnar: „Um 1% innlagna á gjörgæsludeildir Landspítala er vegna fylgikvilla af neyslu fíkniefna í æð. Þetta er ungur sjúklingahópur sem oftast leggst inn vegna alvarlegra eitrana eða sýkinga og er með mjög skertar lífslíkur miðað við sama aldurshóp, en 35% hans voru látin innan 5 ára. Niðurstöður réttarefnafræðilegra rannsókna leiða í ljós 4,1 andlát/10/ár vegna neyslu vímuefna í æð sem gefur til kynna að umfang vandans sé sambærilegt og á öðrum Norðurlöndum. Áhyggjuefni er hve algengt er að nota uppleyst lyfseðilsskyld lyf sem vímuefni til inngjafar í æð.“

Greinina í heild er hægt að lesa á vef Læknablaðsins með því að smella hér.

Myndin að ofan er fengin úr myndasafni á vef Landspítala.

Höfundur greinar