37% aðspurðra keypt lyfseðilsskyld lyf á svörtum markaði

Allt frá ársbyrjun 2000 hefur SÁÁ gert mánaðarlegar kannanir á verðlagi á ólöglegum vímuefnum „á götunni.“ Allir innritaðir sjúklingar á sjúkrahúsinu Vogi, sem hafa heilsu til, taka þátt í könnun þar sem spurt er hve margir þeirra hafa keypt slík efni og hvað þeir greiddu fyrir efnin. Meðaltalsverð er síðan reiknað.

Niðurstöður frá upphafi er hægt að lesa í pdf-skjali hér og að neðan. Skjalið hefur verið uppfært miðað við nýjustu upplýsingar í júnílok 2019.

Alls svöruðu samtals 154 einstaklingar verðkönnun á fjögurra mánaða tímabili, frá mars-júní 2019. Í ljós kom að 62% aðspurðra höfðu keypt ólögleg vímuefni/lyf, eða 95 einstaklingar. Meðalaldur þeirra var rúm 32 ár en meðalaldur hinna sem ekki höfðu keypt slík efni var 43,5 ár.

Tæp 53% höfðu keypt örvandi vímuefni, eða 81 einstaklingur. Flestir keyptu kókaín (42%) og/eða amfetamín (40%). Rúm 41% keypti kannabisefni (64), langflestir gras (39%). Alls sögðust 57 einstaklingar, eða 37% aðspurðra, hafa keypt lyfseðilsskyld lyf á svörtum markaði. Ellefu einstaklingar keyptu ofskynjunarlyfið LSD og 8 keyptu ketamín. Önnur lyf ganga kaupum og sölum, eins og Lyrica og Gabapentin. Um 28% aðspurðra, eða 43 einstaklingar, höfðu notað kannabisefni í rafrettur.

Á þessu fjögurra mánaða tímabili höfðu 16% aðspurðra sprautað vímuefnum í æð. Þessir einstaklingar höfðu flestir fengið nálar og sprautur í apótekum. Aðrir möguleikar voru Frú Ragnheiður, Konukot, frá vinum og annars staðar. Flestir nefndu fleiri en einn stað.

Verdkonnun SAA Juni 2019