40. afmælisárið hafið: Samfelld uppbyggingarsaga

Fertugasta afmælisár SÁÁ er hafið en samtökin voru stofnuð á fjölmennum borgarafundi í Háskólabíó þann 1. október 1977 og í framhaldi af honum var fyrsta aðalstjórn samtakanna kosin á framhaldsstofnfundi á Hótel Sögu þann 9. október þar sem Hilmar Helgason var kosinn formaður. Á afmælisárinu ber hæst að samtökin standa nú fyrir byggingu nýrrar og fullkominnar meðferðarstöðvar á landi sínu á Vík á kjalarnesi.

Saga samtakanna í bráðum 40 ár er hins vegar saga samfelldrar uppbyggingar á eignum og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm. Hér að neðan er tímalína þar sem stiklað er á stóru varðandi þetta uppbyggingarstarf SÁÁ í þágu íslensks samfélags.

 • 1977 SÁÁ stofnuð eftir fjölmennan borgarafund í Háskólabíó 1. október.
 • 1977 Reykjadalur, leigt af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, afeitrunarstöð tekur til starfa 7. desember 1977.
 • 1978 Lágmúli 9, leigt undir fræðslu- og leiðbeiningastöð, sem tekur til starfa 28. nóvember 1977. Upphaf göngudeildarþjónustu SÁÁ.
 • 1978 Sogn í Ölfusi, leigt af Náttúrulækningafélagi Íslands..
 • 1979 Silungapollur, leigt af Reykjavíkurborg
 • 1980 Staðarfell í Dölum, samningur um afnot við ríkið, þar er opnuð meðferðarstöð fyrir eftirmeðferð að lokinni dvöl á Sjúkrahúsinu Vogi.
 • 1980 Síðumúli 3-5, efri hæð keypt á byggingarstigi
 • 1983 Sjúkrahúsið Vogur byggt og vígt 28. desember
 • 1991 Meðferðarstöðin Vík byggð á eignarlandi á Kjalarnesi fyrir eftirmeðferð að lokinni dvöl á Sjúkrahúsinu Vogi.
 • 1996 Húsnæði meðferðarstöðvarinnar á Staðarfelli endurbyggt
 • 1996 Lóð keypt við Efstaleiti í Reykjavík
 • 1996 Skrifstofur fluttar og innréttaðar í Ármúla 18
 • 1997 Hafinn undirbúningur að viðbyggingum við Vog
 • 1997 Keypt íbúðarhúsnæði fyrir starfsemi SÁÁ á Akureyri
 • 1998 Byggingarframkvæmdir hafnar við stækkun Sjúkrahússins Vogs
 • 2000 Unglingadeild við Vog opnuð í ársbyrjun.
 • 2000 Göngudeild við Vog tekur til starfa í nýbyggðri álmu. Þar fá þjónustu sjúklingar í byrjandi meðferð og að lokinni dvöl á sjúkrahúsinu Vogi.
 • 2005 Hús fyrir göngudeild og skrifstofur byggt á lóð við Efstaleiti 7 í Reykjavík.
 • 2007 Hæð í Hofsbót 4, Akureyri, keypt fyrir göngudeildina á Akureyri.
 • 2008 Vin tekur til starfa í Reykjavík; búsetuúrræði, tengt langtímameðferð fyrir 24 karlmenn sem ekki hafa náð bata með öðrum leiðum.
 • 2013 Ný álma við Sjúkrahúsið Vog byggð með ellefu sjúkrarúmum og nýrri hjúkrunarvakt.
 • 2016 Hafnar framkvæmdir við byggingu á meðferðarstöð á Vík
 • 2017 Ný og sérhönnuð meðferðarstöð fyrir alla eftirmeðferð á vegum samtakanna tekin í notkun á 40 ára afmæli samtakanna í október. Um leið er meðferð hætt á Staðarfelli.

Þessari samantekt fylgja annars vegar skjáskot frá dagblöðum sem segja frá stofnun samtakanna í október 1977 og hins vegar myndir sem Spessi tók á byggingastaðnum á Vík nú í gær.  Myndirnar sjást stærri ef smellt er á þær.

Samantekt PG

Höfundur greinar