50 nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar heimsækja Vog

IMG_4188
IMG_4185

Í síðustu viku komu tæplega 50 nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar, sem starfa á hinum ýmsu deildum Landspítalans, í heimsókn á Vog til að kynna sér starfsemina og skoða húsakynni. Ásdís Finnbogadóttir og Berglind Þöll Heimisdóttir, hjúkrunarfræðingar á Vogi, sýndu þeim húsnæðið og sögðu frá sinni reynslu af hjúkrun fólks með fíknsjúkdóm. Þóra Björnsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hélt fyrirlestur fyrir hópinn og kynnti starfsemi SÁÁ.

Líflegar umræður sköpuðust og rætt var um mikilvægi þess að fólk með fíknsjúkdóm fengi viðeigandi þjónustu á öllum deildum Landspítalans. Sérstakur áhugi var hjá hjúkrunarfræðingum á bráðadeildinni sem telja að hægt sé að þjónusta þennan sjúklingahóp enn frekar en gert er og hafa áhuga á að tengja þá við göngudeild SÁÁ.

„Mér fannst einnig frábært að heyra hve Vogur og hjúkrunarforstjórinn þar, Þóra Björnsdóttir, leggja mikla áherslu á minnkun fordóma í garð fíknisjúkdóma og hve mikil áhersla er þar lögð á stuðning frekar en nokkuð annað við skjólstæðinga.“

Bryndís Snæfríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á þvagfæragöngudeild

„Mér og fleiri hjúkrunarfræðingum sem komu að sjá Vog fannst ánægjulegt að sjá hversu stór og flott húsakynnin voru,“ sagði Bryndís Snæfríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á þvagfæragöngudeild eftir kynninguna. „Það kom eiginlega skemmtilega á óvart, því ofan frá götunni séð lítur húsið ekki út fyrir að vera svona stórt. Rýmið innanhúss var mjög rúmgott, hátt til lofts og bjart. Einnig var sjáanlega heimilisleg og notaleg stemming meðal skjólstæðinganna, sem var gott að sjá þar sem vellíðan skjólstæðinga á stofnun sem þessari er mjög mikilvæg. Mér fannst einnig frábært að heyra hve Vogur og hjúkrunarforstjórinn þar, Þóra Björnsdóttir, leggja mikla áherslu á minnkun fordóma í garð fíknisjúkdóma og hve mikil áhersla er þar lögð á stuðning frekar en nokkuð annað við skjólstæðinga. Mjög lærdómsrík og skemmtileg heimsókn.“