62% unglinga sem koma á Vog í dagneyslu á kannabis

Kannabisneysla er aðalvandi hjá 59% af þeim 130 unglingum, 19 ára og yngri, sem komu til meðferðar á Sjúkrahúsinu Vogi á árinu 2015. 13% unglinganna voru fyrst og fremst í áfengisvanda en amfetamín er aðalefni 25% hópsins.

Niðurstöður nýrra rannsókna á áhrifum vímuefnisins og tölulegar upplýsingar um neysluna undirstrika hversu hættulegt kannabisefni er unglingum og ungu fólki. Ef litið er til þess að 62% unglinganna sem koma á Vog verða daglegir neytendur kannabisefna meðan einungis 5% verða daglegir neytendur áfengis má segja að unglingarnir séu miklu fíknari í hass en áfengi (sjá meðfylgjandi töflu).

Rannsóknir í lyfjafræði segja okkur líka að kannabisefni valda vímu með því að hafa áhrif á sömu heilastöðvar og taugabrautir og öll önnur vímuefni. Það er því fásinna að halda því fram að kannabisefni hafi ekki í för með sér líkamlega vanabindingu eða fíkn og sé hættuminna unglingum en áfengi.

Kannabis er fyrsta ólöglega vímuefnið sem notað er og neytandinn lærir lögmál vímuefnamarkaðarins þegar hann kaupir sér efnið og kynnist þannig sölumönnum sem seinna selja honum önnur vímuefni. Líffræðilegar rannsóknir á dýrum og mönnum sýna svo ekki verður um villst að dópamínkerfi heilans breytist við kannabisneyslu og það eykur líka áhættuna á að ánetjast amfetamíni. Kannabis ryður því brautina félagslega, sálfræðilega og líffræðilega fyrir amfetamínfíkn.

Þegar svo er komið er getur sjúklingurinn ekki notaða nein önnur vímuefni án þess að missa stjórn á neyslunni. Vegna þessa getur öll stjórnlaus vímuefnaneysla verið gluggi inn í aðra stjórnlausa vímuefnaneyslu.

Pistillinn að ofan er byggður á upplýsingum úr ársriti meðferðarsviðs SÁÁ 2016. Ársritið í heild er hægt að lesa með því að smella hér.