6,6% landsmanna segjast hafa notað kannabis 2012

Morgunblaðið hefur nú upplýst í frétt á mbl.is að sú umræða, sem átti sér stað í fjölmiðlum í síðustu viku, um að hér á landi væri að finna hlutfallslega fleiri kannabisneytendur en hjá öllum öðrum þjóðum var á misskilningi byggð.

Svo virðist sem mistök hafi orðið við meðferð upplýsinga um kannabisnotkun á Íslandi í nýrri skýrslu UNODC (Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna), World Drug Report 2014.

Þær upplýsingar, sem byggt er á í skýrslunni, eru fengnar úr skoðanakönnun sem gerð var á vegum landlæknisembættisins á árinu 2012 og hægt er að lesa á vef Landlæknisembættisins.

Þar kom fram að 35,9% svarenda hefðu einhvern tímann á ævinni prófað kannabisefni en 64,1% sögðust aldrei hafa prófað kannabis.

Þeir einir, sem tilheyrðu 35,9% hópnum, voru spurðir nánar út í neyslu sína á síðustu 12 mánuðum.

Þá sögðust 18,3% af þessum 35,9% hópi, eða um 6,6% af heildinni, hafa notað kannabisefni síðasta árið.

Í 29. sæti en ekki í efsta sæti

Við meðferð þessara talna í World Drug Report 2014 virðist hins vegar eitthvað hafa skolast til því að þar er á því byggt að 18,3% þjóðarinnar hafi notað kannabis á síðasta ári; hlutfallslega fleiri en hjá nokkurri annarri þjóð.

Að réttu lagi hefði hins vegar átt að koma fram að 18,3% neytenda jafngildi 6,6% þjóðarinnar. Miðað við þær tölur eru Íslendingar í 29. sæti yfir þjóðir heims hvað varðar hlutfallslegan fjölda kannabisneytenda á árinu 2012.

Vegna þessa misskilnings voru fluttar frettir af því í íslenskum og erlendum fjölmiðlum að kannabisneytendur væru hvergi hlutfallslega jafnmargir og á Íslandi.

Við lestur á skýrslunni um könnunina á vef Landlæknsiembættisins sést að þvert á móti hefur hlutfall þeirra sem notað hafa kannabisefni mælst svipað árið 2012 og í mælingum síðustu árin þar á undan.

Þegar horft er til lengri tíma sést hins vegar að neyslan hefur aukist. Á árinu 2003 sögðust 25% svarenda einhvern tímann hafa prófað kannabisefni. Nú er þetta hlutfall 35,9% og er aukningin frá 2003-2012 því um 11 prósentustig.

Fíknisjúkdómur unga fólksins

Mikill munur er neyslunni milli aldurshópa. Kannabisneysla er langútbreiddust meðal yngra fólks. Um 20% í hópi þeirra 35,9% svarenda sem prófað hafa kannabis og eru yngri en 35 ára aldri segist hafa neytt kannabisefna síðustu 12 mánuði en 3,1-5,6% úr eldri aldurshópum.

11,5% þeirra sem neyttu kannabis síðustu 12 mánuði höfðu notað efnið einu sinni eða tvisvar. 3,1% af þessum hópi, (eða um 1 % af heildinni) sögðust hafa notað kannabis 40 sinnum eða oftar síðustu 12 mánuði.

Einnig vekur athygli við lestur skýrslunnar að af þeim hópi, sem hefur prófað kannabisefni, segjast 82,5% fyrst hafa prófað efnið fyrir 22 ára aldur. 32,5% sögðust fyrst hafa prófað efnið fyrir 18 ára aldur en 29,2% á aldrinum 18-19 ára.

Vegna umræðu um lögleiðingu kannabisefna er rétt að hafa í huga að ef miðað er við að kannabisneysla yrði lögleidd hér á landi og að löglegur neyslualdur yrði hinn sami og á áfengi, þ.e.a.s. 20 ár, mundi það engu breyta um það að öll neysla fólks undir tvítugu yrði ólögleg á sama hátt hátt og þegar um áfengisneyslu er að ræða.

Einnig er rétt að hafa í huga að sjúkdómur kannabisfíknar hefur verið langútbreiddastur meðal ungs fólks eins og rakið er í pistli Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi, sem hægt er að lesa hér.

Þar kemur fram að 2-3,7% fólks sem fætt er á árinum 1982-1992 leitaði sér meðferðar á Vogi vegna kannabisfíknar áður en tuttugu ára aldri var náð.