880 börn hafa nýtt sálfræðiþjónustu SÁÁ

SÁÁ hefur boðið sálfræðiþjónustu fyrir börn áfengis- og vímuefnasjúklinga frá 1. apríl 2008. 880 börn hafa nú nýtt þjónustuna, 465 stúlkur og 415 drengir. 773 þessara barna eru búsett á höfuðborgarsvæðinu en 107 á landsbyggðinni.

Þjónustan hefur mælst vel fyrir og eftirspurn hefur verið mikil. Geta samtakanna til þess að veita þjónustuna hefur sveiflast með efnahagsástandi í þjóðfélaginu en þjónustan er að mestu kostuð af sjálfsaflafé SÁÁ. Í upphafi ársins 2015 voru tæplega 70 börn á biðlista og var allt að árs bið eftir viðtali hjá þeim eina sálfræðingi sem starfaði við þjónustuna á þeim tíma en frá 1. mars 2015 hafa tveir sálfræðingar sinnt sálfræðiþjónustu barna í fullu starfi hjá SÁÁ. Í dag eru um 30 börn á biðlista og biðtíminn styttist hröðum skrefum. Þau börn sem eru að koma til viðtals í fyrsta skipti í dag hafa verið á biðlista frá því í ágúst.