95,3% sjúklinga á Vogi greindust í miklum vanda árið 2012

95,3% allra sjúklinga á Vogi árið 2012 greindust í miklum fíknivanda og með sex eða fleiri af ellefu mögulegum einkennum sem stuðst er við þegar fíknsjúkdómur er greindur, samkvæmt greiningarviðmiðum bandarísku geðlæknasamtakanna.

Við sjúkdómsgreininguna er stuðst við DSM-5, (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, 5th) flokkunar- og greiningarhandbók bandarísku geðlæknasamtakanna American Psychiatric Association. Kannað er hvort sjúklingur sé eða hafi undanfarna tólf mánuði verið haldinn alls ellefu mögulegum einkennum. Sjúklingar sem greinast með 2-3 einkenni teljast hafa vægan vanda, hjá þeim sem hafa 4-5 einkenni telst vandinn í meðallagi. Ef sjúklingur greinist með sex einkenni eða fleiri af þessum ellefu telst hann eiga við mikinn vanda að stríða.

Árið 2012 voru alls 1727 einstaklingar lagðir inn á sjúkrahúsið Vog.  95,3% þeirra greindust með mikinn fíknivanda,  eða sex eða fleiri af þeim ellefu einkennum sem miðað er við skv. DSM-5. 93,3% höfðu sjö eða fleiri af einkennunum ellefu.

Athugið að tölurnar endurspegla greiningu allra þeirra 1.727 sjúklinga sem lögðust inn á Vog árið 2012. Prósenturnar endurspegla því ekki niðurstöður úr könnun á úrtaki úr hópnum heldur eru þetta rauntölur um allan sjúklingahópinn á árinu 2012 og sýna glögglega að nánast allir sjúklingar sem leggjast inn á Vog greinast með alvarlegan fíknivanda.

Hægt er að lesa nánar um greiningarskilyrðin og niðurstöðurnar á glærunum hér að neðan.

Einnig er hægt að lesa meira um fíknlækningar á saa.is, t.d. hér og hér.

pg

https://saa.is/wp-content/uploads/2015/05/dsm-5-20122.pdf