Aðalfundur SÁÁ 21. júní 2021

Fjölmennur aðalfundur SÁÁ var haldinn þann 21. júní s.l. á Hilton Reykjavík Nordica.  Dagskrá fundarins var með hefðbundu sniði. Skýrslu stjórnar flutti Einar Hermannsson formaður og Valgerður Rúnarsdóttir forstjóri sjúkrahússins Vogs fór yfir helstu tölur úr starfsemi meðferðarsviðs samtakanna.

Ásgerður Th. Björnsdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs lagði fram reikninga samtakanna en fjárhagsstaða er góð þrátt fyrir samdrátt á tímum heimsfaraldurs sem m.a hafði mikil áhrif á fjáraflanir og félagsstarf samtakanna.

Einnig var gert grein fyrir því að Eftirlitsdeild Sjúkratrygginga Íslands hafi haft til skoðunar þjónustuþætti sem samningur er um að veita í göngudeild og í ungmennameðferð SÁÁ. Snýr þetta eftirlit m.a að þeirri mikilvægu fjarþjónustu sem SÁÁ veitti skjólstæðingum sínum sem að öllu jöfnu sækja hópameðferð í göngudeild um tíma þegar ekki var mögulegt að taka á móti hópum vegna samkomutakmarkana. Aðrir þættir eftirlitsins byggja að mati SÁÁ á misskilningi, annars vegar hvað varðar skipulag ungmennameðferðar fyrir ungmenni á aldrinum 18-25 ára á Vogi og hins vegar að göngudeild SÁÁ hafi verið lokuð þegar staðþjónustu í hópameðferð var breytt tímabundið í fjarþjónustu.

Unnið er að svarbréfi SÁÁ til Eftirlitsdeildar og ber stjórn samtakanna fullt traust til SÍ um að unnið verði að farsælli lausn og sameiginlegum skilningi á þeirri þjónustu sem veitt var viðkvæmum skjólstæðingahópi SÁÁ á tímum heimsfaraldurs.

Einar Hermannsson var endurkjörinn með öllum greiddum atkvæðum. Lagður var fram 16 manna listi í kjöri til aðalstjórnar samþykktur var á fundinum án mótframboðs.  Er þeim óskað innilega til hamingju með kjörið og farsældar á komandi starfsári.