Aðeins hægt að skipuleggja rekstur fáa mánuði í senn

Aðalstjórn SÁÁ lýsir þungum áhyggjum af erfiðum samskiptum samtakanna við ríkisvaldið og ekki síst þeim trúnaðarbresti sem orðið hefur í samskiptum SÁÁ við Sjúkratryggingar Íslands.

Aðalstjórn SÁÁ telur óþolandi að ríkisvaldið geti ekki staðið að samskiptum við samtökin þannig að þau geti skipulagt rekstur sinn lengur en til nokkurra mánaða í senn. Þjónustusamningar um rekstur Sjúkrahússins Vogs, og um viðhaldsmeðferð fyrir sjúklinga sem glíma við ópíóðafíkn, eru einungis gerðir til eins árs í senn og samningar um dagdeildir á Staðarfelli og Vík, sem gerðir voru 2008, eru framlengdir um einn mánuð í senn á meðan báðir aðilar samþykkja.

Engir samningar hafa verið í gildi um rekstur göngudeilda SÁÁ um tæplega tveggja ára skeið. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki greitt reikninga samtakanna vegna þeirrar þjónustu en bjóðast þess í stað til að greiða fjárhæð sem er í engu samræmi við tilkostnað og forsendur starfseminnar. Engu að síður hafa samtökin boðið óskerta göngudeildarþjónustu, sem hefur verið kostuð með sjálfsaflafé samtakanna. Það hefur verið gert í trausti þess að fá mætti ráðherra til að skerast í leikinn, tryggja rekstrargrundvöll til framtíðar og standa vörð um lögbundinn rétt sjúklinga samtakanna til heilbrigðisþjónustu.

Aðalstjórn SÁÁ fordæmir sérstaklega þá framgöngu forstjóra Sjúkratrygginga Íslands að miðla villandi og röngum upplýsingum til heilbrigðisráðherra um málefni og fjárhag samtakanna þar sem embættismaðurinn lætur að því liggja að reikningar samtakanna, sem endurskoðaðir eru af Ríkisendurskoðun, gefi ekki rétta mynd af rekstri SÁÁ.

Í skriflegum samskiptum við ráðherrann og ráðuneytið – þar sem ráðherra vanrækti að leita eftir sjónarmiðum og skýringum SÁÁ – hefur forstjóri Sjúkratrygginga Íslands fullyrt að hagnaður sé af sjúkrarekstri SÁÁ, þótt hann hljóti að vita betur.
Aðalstjórn SÁÁ lýsir fullri ábyrgð á hendur heilbrigðisráðherra og Alþingi að bregðast við þessari stöðu og grípa til aðgerða sem duga til þess að tryggja rekstrargrundvöll þeirrar heilbrigðisþjónustu sem SÁÁ hafa byggt upp og rekið í þágu íslenskra áfengis- og vímuefnasjúklinga í tæp 40 ár.


Þessi ályktun var samþykkt á fundi 48 manna aðalstjórnar SÁÁ á fimmtudag í síðustu viku.