Aldrei fleiri Álfar seldir

alfasolufolkMet var slegið í álfasölu SÁÁ þetta árið. 34.000 Álfar seldust, fleiri en nokkru sinni fyrr.

Álfasalan stóð yfir frá 7. – 11. maí.  Kjörorð álfasölunnar að þessu sinni var Álfurinn – Fyrir unga fólkið og var markmiðið að afla fjár til að efla enn frekar þjónustu SÁÁ við unga fólkið og láta söluhagnað renna til slíkra verkefna.

Hitann og þungann af álfasölunni báru Þorkell Ragnarsson, sölustjóri, Anna Rósa Kristinsdóttir, Hilmar Kristensson og Jóhann Bjarnason, ásamt Guðrúnu Lilju Guðmundsdóttur og Höllu Völu Höskuldsdóttur.  Alls störfuðu um 1.300 sölumenn við álfasöluna um allt land. Sölufólk var við verslanir og aðra fjölfarna staði og víða var einnig gengið í hús.

Mikið var um að hópar á vegum íþróttafélaga og ýmissa samtaka tækju sig saman um að selja Álfinn í einstökum hverfum eða sveitarfélögum og nýta margir þeirra sölunaunin til að kosta eigið félagsstarf eða ferðakostnað.

Sem dæmi um íþróttafélög sem tóku þátt í álfasölunni að þessu sinni má nefna Hauka, FH, Breiðablik, Fram, Gróttu, KR, Ármann, Aftureldingu, Stjörnuna, Leikni og Fjölni.

Álfurinn – Fyrir unga fólkið

SÁÁ hefur rekið sérstaka unglingadeild á Vogi frá árinu 2000 og hefur meðferð þar skilað miklum árangri.

Næsta skref í uppbyggingu þeirrar meðferðar er að styðja enn betur við bakið á ungmennunum þegar meðferð lýkur og styrkja þau félagslega.

Einnig býður fjölskyldudeild SÁÁ upp á mikilvæga sálfræðiþjónustu fyrir börn sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- eða vímuefnavanda og standa tekjur af álfasölunni meðal annars undir þeirri þjónustu.

Árleg fjáröflun frá 1990

Álfasalasala á vegum SÁÁ hefur farið fram árlega frá 1990 og gegnir mikilvægu hlutverki í fjáröflun samtakanna.  Tekjur af álfasölunni hafa til dæmis kostað uppbyggingu unglingadeildar við sjúkrahúsið Vog, starfsemi fjölskyldumeðferðar og einnig hafa tekjur af Álfinum gert SÁÁ kleift að þróa úrræði fyrir börn alkóhólista, unga fíkla og fjölskyldur.

Sölumenn fundu vel fyrir þeim hlýhug sem fjöldi fólks í samfélaginu ber til SÁÁ.  Margir keyptu fleiri en einn Álf, sumir einn fyrir hvern fjölskyldumeðlim.

Keypti 200 Álfa

Enginn keypti þó fleiri álfa en forstjóri ónefnds fyrirtækis í borginni sem ákvað að kaupa 200 álfa af sölumanni sem kom á vinnustaðinn.

„Þið hafið hjálpað mörgum í fjölskyldunni og eigið allt gott skilið,“ sagði forstjórinn sem taldi óþarft að nefna fyrirtækið eða auglýsa það sérstaklega af þessu tilefni.

SÁÁ færir öllum þeim sem störfuðu við álfasöluna eða studdu hana með því að kaupa Álfinn 2014 bestu þakkir.

Á myndinni eru:  Guðrún Lilja Guðmundsdóttir, Anna Rósa Kristinsdóttir, Halla Vala Höskuldsdóttir, Jóhann Bjarnason, Þorkell Ragnarsson, sölustjóri, og Hilmar Kristensson en þau báru hitann og þungann af álfasölu SÁÁ 2014.