Álfasalan nærri því að slá met

landsvirkjunÁlfasalan 2016 gekk að vonum og salan var nærri því að slá metið sem sett var árið 2014. Söluhæstur, líkt og í fyrra, varð Kristján Valsson, sem sjálfur náði enn betri árangri í sölunni en í fyrra. Kannski var það bleiki kamburinn sem Kristján setti í hárið sem gerði útslagið hvað það varðar.

Eins og jafnan bauð SÁÁ til sölu risastóra útgáfu af Álfinum fyrir stórfyrirtæki og velunnara SÁÁ, sem keyptu risaálf með veglegu framlagi til samtakanna í tengslum við Álfasölu ársins.

Einn risaálfurinn var seldur Landsvirkjun og var myndin til hliðar tekin þegar Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, tók við honum úr höndum Ásgerðar Th. Björnsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs SÁÁ, og sálfræðinganna Ásu M. Sigurjónsdóttur og Sigurrósar Friðriksdóttur, sem hafa umsjón með sálfræðiþjónustu barna hjá SÁÁ.

SÁÁ sendir landsmönnum öllum bestu kveðjur og þakkar kærlega fyrir þann stuðning sem samtökunum hefur verið veittur í tengslum við þessa 27. Álfasölu SÁÁ.