Allir velkomnir á Edrúhátíð!

Það eru margar ástæður fyrir því að SÁÁ heldur Edrúhátíð um verslunarmannahelgina.

Ein af þeim er að börn vilja ekki vera innan um drukkið fólk. Þeim líður ekki vel með það. Og foreldrar sem vilja vera með börnin sín á vímulausri útihátíð þessa helgi hafa ekki um margt að velja. Þessvegna er Edrúhátíð SÁÁ hátíð barnanna, fjölskyldunnar.

Við bjóðum upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börnin. Leikhópurinn Lotta mætir aftur til okkar og nú með glænýtt leikrit, Hróa Hött. Ég sá það sjálfur um daginn með mínum börnum og það er frábært. Sniglabandið heldur hressilegt barnaball, íþróttaálfurinn kemur í heimsókn, við höldum fótboltamót, fjölkyldubrennó, íþróttamót, aflraunakeppni og söngkeppni barna. Börnin eru velkomin á alla viðburði á hátíðinni.

En Edrúhátíð er líka hátíð allra sem vilja stemmningu og stuð. Hljómsveitin Dimma spilar, KK og Maggi Eiríks mæta, líka Mammút og Sísý Ey systurnar mæta. Og fleiri og fleiri. T.d. fullt af trúbadorum: Benni Hemm Hemm, Helgi Valur, Markús Bjarnason, Kristján Hrannar og Nína Salvarar. Og grínistinn Þorsteinn Guðmundsson stjórnar fjölskyldubingói, það verður eitthvað! Sniglabandið spilar, við kveikjum varðeld og við syngjum og dönsum. Já, það er nefnilega dansað saman á Laugalandi. Zúmba, indjánadans og 5 rytmadans. Þið verðið að prófa það!

Og svo ræktum við líkama og sál. Við förum í jóga, hugleiðslu, látum spá fyrir okkur, förum í nudd og stundum 12 sporafundi. Og við borðum líka alveg helling af góðum mat. Gauti kokkur ætlar að vera með dýrindis morgunmat, hádegismat og kvöldmat á góðu verði alla helgina. Og veitingatjaldið verður opið alla daga líka.

Edrúhátíðin er ekki bara fyrir alkóhólista og aðstandendur þeirra. Hún er fyrir alla sem vilja vera edrú þessa helgi. Og það eru margir. Þú þarft ekki að hafa farið í meðferð eða eiga við áfengis og vímuefnavandamál að stríða til að geta skemmt þér á Edrúhátíðinni. Kannski stundarðu áfengislausan lífstíl, kannski viltu bara skemmta þér edrú þessa helgi. Komdu þá endilega fagnandi! 😀

SÁÁ stendur fyrir Edrúhátíðinni að Laugalandi, en að henni koma líka fjölmargir sjálfboðaliðar. Fyrir hönd samtakanna vil ég þakka þeim kærlega fyrir, því án þeirra væri þetta ekki hægt.

Velkomin á Edrúhátíð SÁÁ að Laugalandi um verslunarmannahelgina!


Birtist einnig í SÁÁ blaðinu, 2. tbl. 2014. . Þar er að finna nánari upplýsingar um Edrúhátiðina. Hægt er að lesa blaðið hér að neðan.

https://saa.is/wp-content/uploads/2015/03/Blad-2-2014.pdf

Höfundur greinar