Allt að helmingur innlagna á lyflækningadeild vegna áfengis

„Þeir tímar hafa komið að ástæðu innlagnar allt að helmings sjúklinga á deildinni sem ég starfa á megi rekja til áfengisneyslu. Sjúklingarnir eru kannski lagðir inn vegna mjaðmabrots, en sé málið krufið betur er ástæðan hugsanlega sú að viðkomandi var drukkinn þegar hann datt og brotnaði.“

Þetta segir Arna Guðmundsdóttir, sérfræðilæknir við lyflækningasvið Landspítalans í Fossvogi, í samtali við Morgunblaðið í dag þar sem hún fjallar um það dulda álag sem áfengisneysla eldra fólks hefur í för með sér fyrir almenna heilbrigðisþjónustu í landinu og almennar sjúkradeildir á sjúkrahúsunum.

Þau sjónarmið sem Arna setur fram í Morgunblaðinu eru enn ein vísbendingin um þann gríðarlega kostnað sem ómeðhöndluð áfengissýki veldur íslensku þjóðfélagi.

„Áfengi og lyf eru slæmur kokteill,“ segir Arna. Veikinda og hrörnunar vegna þarf eldra fólk oft að taka til dæmis hjarta-, blóðþrýstings-, sykursýki- og svefnlyf, svo einhver dæmi séu nefnd, og svo virkni þessara lyfja sé eins og til stóð þarf allt að vera fínstillt. Jafnvægi þarf að vera til staðar, sem raskast þegar áfengið og víma þess bætist við.“

„Ég er mjög andvíg því að frelsi í áfengisverslun verði aukið. Íslendingar hafa haft þokkalega stjórn á þessum málum með verðlagningu áfengis og afgreiðslutíma vínbúðanna – og við eigum ekki að víkja frá því,“ segir Arna Guðmundsdóttir.

Hún segir að í Noregi og Svíþjóð sé áfengissala með svipuðum hætti og gerist hér á landi en í Bretlandi séu reglur um söluna svipaðar í í því frumvarpi sem Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að leggja fyrir Alþingi í haust og talið er að amk 30 þingmenn muni styðja.

„Bretar standa andspænis vaxandi vanda vegna áfengissjúkdóma og horfa því til Norðurlandanna og þess fyrirkomulags sem hér er á áfengissölu. Mér finnst við alveg mega hafa það í huga þegar svona róttækar hugmyndir eru settar fram, segir Arna Guðmundsdóttir, sérfræðilæknir á lyfjasviði Landspítalans í Fossvogi.