Ályktun stjórnar SÁÁ: Áfengi ekki venjuleg neysluvara

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi aðalstjórnar SÁÁ sem haldinn var í gær.

„Síðustu vikurnar höfum við hjá SÁÁ fylgst með umræðum þingmanna og almennings um nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak.

Áfengi er ekki venjuleg neysluvara þótt löglegt sé, heldur vímuefni rétt eins og amfetamín, kókaín, kannabis, morfín og fleiri lögleg og ólögleg vímuefni sem fáum myndi detta í hug að auglýsa til sölu í matvöruverslunum.

Áfengi getur valdið líkamlegum, andlegum og félagslegum skaða vegna vímu og fíknar og eituráhrifa á líkamann. Þá veldur áfengisneysla stórkostlegu samfélagslegu tjóni vegna slysa, veikindadaga, tapaðra vinnustunda og minni framleiðni og lakari afkomu fyrirtækja og stofnana.

Samtök okkar óska þess að þingmenn og almenningur taki alvarlega ábendingar og athugasemdir sérfræðinga úr félags- og heilbrigðisvísindum og að hagsmunir heildarinnar og lýðheilsusjónarmið skipi ríkan sess við alla umræðu og ákvarðanatöku um þetta mikilvæga mál.“