Áramótaannáll 2019

Árið 2019 var viðburðarríkt ár í sögu SÁÁ!

Á árinu var gefið út viðamikið upplýsingarit í tveimur heftum um heilbrigðisþjónustu samtakanna frá 1977-2018. Þórarinn Tyrfingsson er höfundur ritsins en í því er að finna greinargóða umfjöllun og tölulegar upplýsingar á töflum, línuritum og öðrum grafískum myndum.

Á Alþingi var samþykkt að veita 150 milljóna króna viðbótarframlagi til samtakanna fyrir árið 2019. Í kjölfarið hófust svo viðræður við Sjúkratryggingar Íslands sem stóðu fram í miðjan apríl en þá var samið um göngudeildarþjónustu SÁÁ til áramóta. Þeim samningi hefur nú verið framlengt um 3 mánuði, eða til 1. Apríl 2020.

Í upphafi árs starfaði SÁÁ samkvæmt áætlun um fækkun innlagna á sjúkrahúsið Vog. Í áætluninni var einnig gert ráð fyrir lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri og að ungmennadeild á Vogi hætti að taka á móti ólögráða einstaklingum. Heilbrigðisráðherra hafði þá opinberlega lýst því yfir að úrræði fyrir ólögráða börn myndi opna á LSH 1. júlí 2019. Það var dagsetningin sem miðað var við.

Í apríl gladdi það okkur mjög að geta opnað aftur göngudeild SÁÁ á Akureyri. Og í júlí ákvað heilbrigðisráðherra að áfram verði meðferðarúrræði fyrir börn 18 ára og yngri á Vogi.

Á árinu nutu nutu samtökin stuðnings og velvildar almennings. Góðar gjafir bárust frá Oddfellow stúkunni Bjarna Riddara, Bifhjólasamtökunum Sober Riders MC og Guðrún Bergmann færði samtökunum bókagjöf. Nemendur MA á Akureyri lögðu sitt af mörkum til að efla göngudeildina þar og nemendur Álftanesskóla færðu ungmennadeildinni 30 þús kr peningagjöf. Þá kom Elko kom færandi hendi með 3 fartölvur.

Álfasalan hófst með pompi og pragt á þrítugsafmæli álfsins í maí. Forsetinn keypti fyrsta álfinn og Efling keypti ofurálf. Gríðarleg stemmning var í afmælinu og að sjálfsögðu mættu allir álfar SÁÁ og fögnuðu með afmælisbarninu.

Forysta SÁÁ var endurkjörin á aðalfundi í júní.

Hið árlega Reykjavíkurmaraþon var haldið í ágúst og eins og áður hlupu fjölmargir fyrir samtökin. Við þökkum kærlega fyrir það.

Í september var bíllyklum stolið frá Bílabúð Benna. Sá kostur var gefinn að fundarlaunin rynnu til góðgerðamála. Lyklarnir komu í leitirnar og SÁÁ fékk milljón!

Rúmlega 130 einstaklingar voru í meðferð hjá SÁÁ yfir hátíðarnar. Eins og áður var boðið upp á hátíðarmat og allir sjúklingar fengu bók í jólapakka á aðfangadagskvöld.

Árinu lauk með frábærri þátttöka og miklu fjöri á jólaskemmtun SÁÁ sem haldin var 28. desember. Sigga Beinteins og Grétar Örvars héldu uppi stuðinu og fjallhressir jólasveinar kíktu í heimsókn.

Við sem störfum fyrir SÁÁ horfum bjartsýn til áramótanna og hlökkum til ársins 2020.

Við færum landsmönnum öllum bestu óskir um farsælt komandi ár og þökkum öflugan stuðning á árinu sem er að líða!