Bati er besta jólagjöfin

Jólin eru annasamur tími hjá SÁÁ en rúmlega 130 einstaklingar verða í meðferð hjá samtökunum yfir hátíðarnar. Á starfsstöðvum SÁÁ er jólaundirbúningurinn í fullum gangi og leggur starfsfólk sig fram við að skapa hlýlega og notalega jólastemningu. Eins og áður verður boðið upp á hátíðarmat og allir sjúklingar fá bók í jólapakka á aðfangadagskvöld.

„Fólk kemst í þrot vegna áfengis- og vímuefnafíknar í desember eins og á öðrum tíma ársins. Það aftrar ekki fólki í að taka alvarlega á sínum málum og koma til meðferðar við fíknsjúkdómnum, jafnvel þótt hátíðirnar séu framundan,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs. „Meðan flestir keppast við að skreyta og kaupa jólagjafir eru sjúklingar SÁÁ að hlúa að heilsunni. Í meðferð um jólin eru pabbar og mömmur, afar og ömmur, bræður og systur, synir og dætur. Jólin eru hátíð fjölskyldunnar og dýrmæt jólagjöf er að stefna að bata frá fíkninni. Það er það sem aðstandendur óska sér og líka einstaklingurinn sem er með fíknsjúkdóm.“

SÁÁ óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og þakkar fyrir góðan stuðning á árinu sem er að líða. Við hlökkum til að þróa þjónustuna enn frekar á nýju ári og þá sérstaklega með tilkomu nýrrar og glæsilegrar meðferðarstöðvar á Vík á Kjalarnesi.

Gleðileg jól!