Borgin veltir snjómokstri yfir á SÁÁ

SÁÁ greiddi rúmar 800.000 krónur í snjómokstur heim að lóðinni á sjúkrahúsinu Vogi á síðasta ári og rúmar 300.000 krónur á fyrri hluta þessa árs. Ekki liggja fyrir tölur um kostnað samtakanna frá því vetrarveður skall á fyrir fáum vikum.

Tilraunir samtakanna til að fá Reykjavíkurborg til þess að axla ábyrgð sína á umhirðu vegarins heim að lóð sjúkrahússins hafa engan árangur borið.  Frá því Vogur tók til starfa árið 1983 hefur sá hluti vegarins sem tengir Vog við Stórhöfða aldrei verið malbikaður eða mokaður af starfsmönnum borgarinnar.

Utan lóðamarka

Þó er ágreiningslaust að vegurinn er utan lóðamarka, hluti af almennu gatnakerfi borgarinnar og því á hennar ábyrgð en ekki samtakanna.  Það sést á staðfestan hátt á myndinni hér að ofan þar sem lóð sjúkrahússins er afmörkuð með rauðu en ómalbikaður vegurinn sem samtökin hafa neyðst til að kosta tugum milljóna til að moka síðustu þrjátíu ár liggur utan lóðarinnar og tengir hana við Stórhöfða.

Á Sjúkrahúsinu Vogi er vakt allan sólarhringinn og þangað mæta dag hvern um 30 starfsmenn til vinnu.

Á hverjum tíma eru um 60 sjúklingar á Vogi og bætast að meðaltali átta nýir sjúklingar við á hverjum degi og jafnframt útskrifast átta sjúklingar á degi hverjum.

Því mætti ætla að snjóruðningur að Vogi væri á forgangslista hjá borginni, líkt og þegar um aðrar sjúkrastofnanir er að ræða.

Mikil umferð

Að öðru leyti má áætla að lágmarksumferð að sjúkrahúsinu sé um það bil svona:

  • Um 100 sjúklingar mæta í hverri viku í viðhaldsmeðferð vegna ópíumfíknar á Vog, til þess að sækja þar S-merkt lyf, sem samtökin láta þeim í té, og til þess að fara í læknaviðtöl.
  • Að jafnaði eru um fjórir sjúklingar fluttir milli Landspítalans og Vogs með sjúkrabílum í hverri viku. Um 16 ferðir leigubíla með sjúklinga eru farnar á vegum sjúkrahússins í viku hverri að jafnaði. Lögreglubílar koma að jafnaði fjórum sinnum í viku á sjúkrahúsið með sjúklinga.
  • Dag hvern eiga 3-4 flutningabílar erindi á sjúkrahúsið með vörur og matvæli.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, lagði nýlega fram fyrirspurn í borgarstjórn Reykjavíkur um hvers vegna borgin sinnti ekki ábyrgð sinni gagnvart umhirðu vegarins að Vogi. Svör hafa enn ekki borist.

vogur kort

Kortið sýnir lóðina við Vog afmarkaða með rauðu. Vegurinn að sjúkrahúsinu er utan lóðar.