Breytt aldursdreifing og færri innlagnarbeiðnir það sem af er „Covid-ári“ 2020

Breytt aldursdreifing:

Þegar aldur þeirra sem leggjast inn á sjúkrahúsið Vog er skoðaður má sjá breytingu þetta árið. Innlagnartölur allra einstaklinga janúar-ágúst 2020 voru bornar saman við meðaltalstölur frá 2017-2019 fyrir sama tímabil.

Þá má sjá að færri koma til innlagnar sem eru yngri en 40 ára, og því eru hlutfallslega fleiri eldri en 40 ára. Þeim eldri fjölgar ekki tölulega, en fækkar ekki heldur eins og gerist hjá þeim yngri þetta árið. (Myndir 1 og 2)

Þetta má einnig sjá ennþá skýrar, þegar skoðaður er fjöldi þeirra sem koma í fyrsta sinn til innlagnar á Vog árið 2020 í samanburði við meðaltal síðustu þriggja ára (2017-2019). (Myndir 3 og 4).

Niðurskurður og samdráttur í starfsseminni hefur hvorki áhrif á innlagnir nýkomufólks né þeirra sem eru yngstir, þessir hópar fara ekki á biðlista og því aðgengi þeirra að meðferðinni er hið sama og áður. Það hefur lengi fækkað í hópnum yngri en 25 ára allt frá árinu 2000, en þetta árið verður fækkunin ennþá meira áberandi.

Færri innlagnarbeiðnir:

Það sem af er árinu 2020 er minni eftirspurn eftir innlögn á sjúkrahúsið Vog. Færri innlagnarbeiðnir hafa borist miðað við árin fimm á undan, og stefnir í fækkun um 500 beiðna fyrir árið. (Mynd 5)

 

Hvað veldur minni eftirspurn og fækkun í yngri aldurshópum ?

Er þetta svipað því sem aðrar heilbrigðisstofnanir sjá?

Er almennt minni aðsókn í heilbrigðisþjónustu það sem af er ári?

Eru aðhaldsaðgerðir stjórnvalda, með færri skemmtunum og mannamótum, að draga úr neyslu almennt og neyslutengdum vandamálum hinna yngri?

Er vandinn falinn heima og einstaklingar ekki að sækja aðstoð þar sem samfélagið er allt í nokkurs konar bið?

Eru einstaklingar sem veigra sér við að leita aðstoðar núna?

Er minni neysla hjá ungu fólki í ár og því minni þörf á meðferð? Eða er minni áhugi á að sækja sér meðferð í dag?

 

Við heyrum í fréttum af meiri vandamálum inni á heimilum og einnig þrengir að þeim sem eru í viðkvæmri stöðu. Það mun líklega vera viðvarandi við þessar kringumstæður sem nú ríkja. Þegar fíknsjúkdómur á í hlut má búast við að hann versni við þær aðstæður. Þetta er e.t.v. það sem við erum að sjá endurspeglast í tölunum okkar héðan frá sjúkrahúsinu Vogi, þar sem ekki dregur úr fjölda þeirra sem eru eldri en 40 ára.

Bæði gott og vont

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu næstu mánuði.

 

Með bestu kveðju

Valgerður Rúnarsdóttir