Búið að ná til flestra sem smitaðir eru af lifrarbólgu C

Þórarinn Tyrfingsson flytur aðalfundi 2015 skýrslu

Það gerir ekki lítið úr þætti annarra í framúrskarandi árangri íslenska lifrarbólguverkefnisins að segja upphátt að Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir SÁÁ, hafi með sínu frumkvæði lagt grunninn að lækningu þeirra íslensku sjúklinga sem nú hafa fengið lausn frá veikindum sínum.

Góður árangur íslenska lifrarbólguverkefnisins hefur vakið mikla alþjóðlega athygli. Á þingi norrænna veiru- og smitsjúkdómalækna í Reykjavík, sem fram fer núna 19.-22. ágúst, var skýrt frá því að hér á landi hefur tekist að ná til um 90% þeirra lifrarbólgu C - smituðu sjúklinga sem vitað er um, alls um 700 einstaklinga.

Lifrarbólguverkefnið er í raun alþjóðlegt verkefni sem WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, fylgist með. Vandi verkefnisins erlendis er fyrst og fremst sá að stór hluti smitaðra hefur ekki fengið skimun og greiningu og engin skipulögð skráning er til staðar á einum stað um þá sem hafa fengið greiningu. Þannig næst ekki til sjúklinganna þótt lækningin sé til staðar.

Á sjúkrahúsinu Vogi hefur SÁÁ skimað fyrir veirusmiti allra sjúklinga með sögu um sprautunotkun frá árinu 1995 og haldið nákvæma skráningu um verkefnið í 23 ár. Um 900 sjúklingar voru á þessari skrá þegar lifrarbólguverkefnið hófst hér á landi í janúar 2016. Það gerir ekki lítið úr þætti annarra í framúrskarandi árangri íslenska lifrarbólguverkefnisins að segja upphátt að Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir SÁÁ, hafi með sínu frumkvæði, þekkingu og dugnaði á löngum tíma lagt grunninn að lækningu þeirra íslensku sjúklinga sem nú hafa fengið lausn frá veikindum sínum.

Það er einmitt táknrænt að á þingi hina norrænu smitsjúkdómalækna vildu gestirnir helst koma í heimsókn til SÁÁ og skoða þjónustuna og aðbúnaðinn þar.