Þeir byggðu Vog og réðu Þórarin

Góðir gestir komu í heimsókn á Vog í síðustu viku. Björgólfur Guðmundsson og Hendrik Berndsen (Binni), báðir fyrrverandi formenn SÁÁ, voru í forystu fyrir SÁÁ á upphafsárum samtakanna og tóku ákvarðanir sem lögðu grundvöll að farsælu starfi þeirra alla tíð síðan. Þeir skoðuðu sjúkrahúsið í fylgd Þórarins Tyrfingssonar og virtust harla ánægðir með hvernig hefur ræst úr starfi samtakanna sem þeir áttu mikinn þátt í að koma á laggirnar á sínum tíma.

Björgólfur og Binni voru saman í framkvæmdastjórn SÁÁ frá 1978 í formannstíð Hilmars heitins Helgasonar, fyrsta formanns SÁÁ. Björgólfur fyllti síðan skarð Hilmars og þá varð Binni varaformaður. Saman höfðu þeir forystu um að byggja sjúkrahúsið Vog.

Hér fyrir neðan er mynd sem var að tekin einhvern tímann í kringum mánaðamótin júlí ágúst 1982 þegar Björgólfur handsalar sem formaður SÁÁ samninga við forsvarsmenn Verktakafyrirtækisins Vörðufells um byggingu sjúkrahússins. Binni, varaformaður SÁÁ á þeim tíma, fylgist með álengdar.  Síðan gengu hlutirnir hratt fyrir sig og Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, tók fyrstu skóflustunguna að Vogi þann 14. ágúst 1982. Myndin af húsinu er tekin þegar byggingarframkvæmdir voru að komast á lokastig  árið 1983 en sjúkrahúsið var tekið í notkun 28. desember 1983. Eins og kunnugt er hefur Vogur frá þeim degi verið þungamiðjan í starfi SÁÁ og í allri meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga hér á landi.

Björgólfur og Binni bera líka ábyrgð á því að hafa falið Þórarni Tyrfingssyni ábyrgð á meðferðarstarfi SÁÁ og þarf ekki að fjölyrða um þýðingu þeirrar ákvörðunar fyrir það hvernig starfsemi SÁÁ hefur þróast allar götur síðan. Þórarinn var nýkominn úr meðferð þegar Björgólfur og Binni réðu hann til starfa um áramótin 1978-1979.

Í heimsókninni á Vog í síðustu viku rifjuðu þeir þremenningarnir það upp að drög voru lögð að ráðningunni í blómaversluninni sem Binni rak á þeim tíma og er kenndur við enn í dag. Þangað kom Þórarinn og stjórnarmönnunum leist vel á þennan rúmlega þrítuga lækni. Þeim fannst það góðs viti að hann virtist svolítið beygður, nýkominn úr meðferðinni og atvinnulaus. Þeir veðjuðu á að þetta væri rétti maðurinn fyrir samtökin. Þórarinn hóf í framhaldinu störf á Silungapolli, þar sem myndin af honum hér að ofan var tekin, og starfaði jafnframt á Sogni. Eftir að Vogur kom til sögunnar varð hann yfirlæknir þar og síðan jafnframt formaður SÁÁ um árabil.

Þórarinn tók á móti Björgólfi og Binna í heimsókninni á Vog í síðustu viku og sýndi þeim meðal annars nýju álmuna sem var tekin í notkun í fyrrasumar en þar eru ellefu rúm fyrir veikustu sjúklingana á Vogi, auk þess sem aðstaða fyrir hjúkrunarvakt og lyfjageymslu er nú komin í nútímalegt horf. Nýja álman er þriðja viðbyggingin sem gerð er við Vog frá því sjúkrahúsið var fyrst tekið í notkun árið 1983. Áður hafði verið byggð álma fyrir læknastofur og skrifstofur og svo unglingadeildin, sem var tekin í notkun árið 2000.