Dr. Ingunn Hansdóttir ráðin í nýtt starf yfirsálfræðings SÁÁ

ingunnDr. Ingunn Hansdóttir, lektor við sálfræðideild Háskóla Íslands, hefur tekið til starfa sem yfirsálfræðingur hjá SÁÁ.

Verkefni hennar verður að hafa umsjón með sálfræðilegri meðferð og vinna við að móta og þróa allt meðferðarstarf hjá SÁÁ en Ingunn hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð. Hún mun einnig hafa umsjón með kennslu og fræðslustarfi innan SÁÁ í samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir. Þá mun hún sinna og hafa umsjón með vísindarannsóknum á vegum samtakanna.

„Þetta er nýtt starf hjá SÁÁ og það er ennþá í mótun en þetta er mjög spennandi tækifæri til að þróa og móta það mikilvæga starf sem SÁÁ vinnur. Ég hlakka til að takast á við þá áskorun,“ segir Ingunn í samtali við saa.is.

Dr. Ingunn Hansdóttir heldur áfram starfi við sálfræðideild Háskóla Íslands meðfram starfi sínu hjá SÁÁ. Hún þekkir vel til starfsemi SÁÁ en hún starfaði áður hjá samtökunum á árunum 2005 til 2011, sem sálfræðingur og stjórnandi klínískra rannsókna. Þá vann hún meðal annars að viðamikilli rannsókn á fjölskyldulægni fíknsjúkdóma sem SÁÁ gerði í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu og einnig að umfangsmikilli alþjóðlegri rannsókn á lyfjameðferð við amfetamínfíkn.

Ingunn lauk BA-prófi í sálfræði við Háskóla Íslands 1990, MA prófi í klínískri sálfræði frá San Diego State University árið 1993 og doktorsgráðu  í klínískri sálfræði frá San Diego State University og University of California, San Diego árið 2003. Hún hefur víðtæka reynslu sem klínískur sálfræðingur og rannsakandi og hefur rekið eigin stofu um árabil og starfaði einnig sem sálfræðingur á geðdeild Landspítalans frá 2003-2005.