Gagnagrunnur Vogs sýnir minnkandi nýgengi fíknsjúkdómsins á Íslandi

Þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir fylgja þrettán myndir með nýjum upplýsingum úr gagnagrunni Vogs á töflum og línuritum. Með því að smella á myndirnar er hægt að sjá þessar upplýsingar í læsilegri stærð.

Nýgengi (incidence) er mikilvægt hugtak í faraldsfræði sem segir til um hve mikil hætta er á því fyrir einstaklinga að fá ákveðinn sjúkdóm og spáir fyrir um byrði þjóðfélagsins af sjúkdómnum í framtíðinni.  Nýgengi er skilgreint sem tilurð nýrra sjúkdómstilfella af einhverjum ákveðnum sjúkdómi á tilteknum tíma deilt með fjölda þeirra einstaklinga sem eru í hættu að fá sjúkdóminn. Venjulega er það gefið upp sem fjöldi nýrra tilfella á hverja 1000 einstaklinga á einu ári. Ef nýgengistölur liggja fyrir yfir langan tíma má sundurgreina þær og álykta hvort ástandið fer batnandi eða versnandi. Einnig má reikna út hverjar líkurnar fyrir einstaklinga í þjóðfélaginu á að fá viðkomandi sjúkdóm á mismunandi æviskeiðum. Nýgengishlutfall (Incidence rate) er sá fjöldi sjúkdómstilfella eða meiðsla sem koma fyrir í þýði á tilteknu landsvæði á ákveðnu tímabili.

Til að komast nærri sannleikanum um nýgengi og nýgengishlutfall áfengis- og vímuefnasjúkdómsins eru ekki betri leiðir tiltækar en sú að halda langtíma skrá um sjúkdómstilfelli og telja ný tilfelli sem koma inn í skráninguna á hverju ári. Nær ómögulegt er að nálgast jafnáreiðanlegar upplýsingar með því að gera úrtakskannanir meðal almennings um hve margir eru haldnir áfengis- og vímuefnafíkn á hverjum tíma. Svarhlutfall í slíkum könnunum er jafnan lágt og vitað er að með þeirri aðferð næst ekki til þeirra veikustu sem verst eru haldnir vegna vímuefnaneyslu.

Einstakar upplýsingar um faraldsfræði áfengis- og vímuefnasjúkdómsins á Íslandi er að finna í gagnagrunninum á Vogi. Nákvæmar vímuefnagreiningar og yfir 300 staðlaðar upplýsingar eru færðar í gagnagrunninn um hverja komu sem er hluti af sjúkraskýrslugerð hvers sjúklings. Upplýsingar úr þessum gagnagrunni hafa í vaxandi mæli nýst samtökunum til að skipuleggja og gæðastýra meðferðinni, einkum síðustu 25 árin.

Upplýsingarnar eru einstakar því þær ná nú orðið utan um stærstan hluta þeirra sem glíma við alvarlegasta áfengis- og vímuefnavandann hjá heilli þjóð. Aðrar þjóðir þurfa að áætla nýgengi og byrði af sjúkdómnum út frá félagsvísindalegum úrtakskönnunum sem háðar eru fyrrgreindum annmörkum. Vegna þess hafa fár þjóðir jafn góða yfirsýn yfir sinn áfengis- og vímuefnavanda og Íslendingar.

Staðan er Íslandi er einstök vegna Sjúkrahússins Vogs þar sem til er þessi gagnagrunnur um allar innritanir og alla einstaklinga sem lagst hafa inn til meðferðar hjá SÁÁ allt frá 1977 og nákvæmar vímuefnagreiningar á hverjum sjúklingi eftir 1984, þ.e.a.s læknisfræðilegar greiningar á grundvelli viðurkenndra greiningartækja geðlæknisfræðinnar (DSM-5) fyrir sjúkdóm áfengis- og vímuefnafíknar. Rauntölur úr gagnagrunninum sýna fram á að nýgengi áfengis- og vímuefnasjúkdómsins hefur farið lækkandi hér á landi síðustu ár. Það á við í öllum hópum, nema hjá konum sem eru 55 ára og eldri.

Sjúkrahúsið Vogur er þungamiðjan í meðferðarstarfi SÁÁ. Þar byrja flestir vímuefnasjúklingarnir meðferðina. Eftir því sem árin hafa liðið hefur þýðing Sjúkrahússins Vogs fyrir viðbúnað íslenskra heilbrigðisyfirvalda vegna sjúkdóms áfengis- og vímuefnafíknar farið vaxandi. Það má sjá því á töflu sem fylgir þessari umfjöllun og ber með sér að sjúkrarúmum sem ætluð eru áfengis- og vímuefnasjúklingum á öllum heilbrigðisstofnunum hefur smám saman verið fækkað og þýðing starfseminnar á Vogi hefur jafnframt aukist fyrir meðhöndlun þessara sjúklinga hér á landi.

Í gagnagrunni Vogs eru til 71.253 skráðar innritanir. Hver skráning er tengd kennitölu og hafa skráningar verið samkeyrðar við þjóðskrá og opinberar skrár yfir látna. Þarna er bæði að finna allar innritanir á Sjúkrahúsið Vog og innritanir í þær afeitrunarstöðvar sem SÁÁ rak í Reykjadal og á Silungapolli áður en Vogur kom til sögunnar. Í gagnagrunni Vogs eru því upplýsingar um alla einstaklinga sem komið hafa á sjúkrastofnanir SÁÁ frá árinu 1977 til dagsins í dag.

Í árslok 2014 voru það 23.580 einstaklingar sem höfðu innritast eða komið til afeitrunar (6.918 konur og 16,662 karlar). Þetta eru 10,6 % núlifandi karla 15 ára og eldri og 4,5% núlifandi kvenna sem eru 15 ára og eldri. 11.684 einstaklingar hafa einungis innritast einu sinni eða 49,5 %. 16.045 hafa verið 2 sinnum eða sjaldnar eða 68,0 %. 18.357 hafa verið 3 sinnum eða sjaldnar í meðferð eða 78 %. Aðeins 699 núlifandi Íslendingar 501 karlar og 198 konur hafa verið oftar en 10 sinnum í meðferð hjá SÁÁ eða 3,0 % sjúklinganna. Þar af komu 199 árið 2012.

Nákvæmar læknisfræðilegar vímuefnagreiningar eru til staðar fyrir hverja innritun frá 1984. Frá fyrsta starfsári Vogs 1984, hefur þar verið stunduð nákvæm skráning og sjúkdómsgreining á vímuefnavanda þeirra einstaklinga sem þangað koma ár hvert.

Í ársbyrjun 1984 var komið á sérstakri skráningu og greiningu á ólöglegri vímuefnafíkna á Vogi og sjá læknar um skráninguna. Í viðtali sannreyna þeir og meta þær upplýsingar sem sjúklingarnir gefa og greina þá samkvæmt því. Sjúklingar á Vogi eru þannig greindir fíknir í ólöglegra vímuefna ef þeir uppfylla viss skilyrði samkvæmt DSM-5 (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, Fifth Edition). Skilyrðin hafa verið hin sömu frá 1984. Til þess að gæta samræmis í skráningunni hefur einn og sami maðurinn lesið yfir sjúkraskýrslur í lok hvers árs og gert viðeigandi breytingar á greiningum. Með því að telja og skoða fjölda greindra tilfella á hverju ári,hefur orðið til stór gagnagrunnur og árlega skráning á nýgreindum tilfellum af áfengis- og vímuefnafíkn.

Rauntölur, ekki kannanir

Rétt að ítreka að hér er ekki um kannanir eða áætlanir byggðar á úrtaki að ræða heldur upplýsingar um alla sjúklinga eftir að borið hefur verið saman við þjóðskrá og leiðrétt fyrir þeim sem eru látnir. Það er á grundvelli slíkra gagna og þeirrar úrvinnslu sem hægt er að staðhæfa að 10,6% núlifandi karla og 4,5% núlifandi kvenna 15 ára og eldri hafa innritast til afeitrunar og meðferðar hjá SÁÁ.

Þegar nýgengishlutfall í hinum ýmsu aldurshópum karla og kvenna er skoðað sést að það hefur stöðugt lækkað hjá körlum sem eru 25 ára og eldri frá árinu 1990. Vandinn fór stöðugt vaxandi hjá fólki yngra en 25 ára fram til ársins 2002 en hefur lagast verulega síðustu 12 árin bæði hjá konum og körlum í þessum aldurshópi. Dregið hefur úr áfengis- og vímuefnavanda kvenna á aldrinum 25-54 ára frá árinu 1990 en vandinn er enn vaxandi meðal kvenna sem eru 55 ára eða eldri.

Þegar á heildina er litið hefur ástandið lagast mikið síðustu 12 árin. Þó þarf að hafa í huga að ástandið getur verið breytilegt eftir vímuefnum og getur versnað hvað varðar ákveðin vímuefni þó að það sé að lagast þegar á heildina er litið eins og hér er gert.

Sjúklingar sem leita meðferðar í fyrsta skipti og hafa aldrei verið á Sjúkrahúsinu Vogi áður hafa átt auðvelt með að komast í meðferð. Þeir hafa alla tíð haft forgang og bið þeirra eftir plássi hefur aldrei orðið lengri en nokkrir dagar. Nýgengistölur eru því að nokkru óháðar því hversu margir hafa innritast á Vog á ári hverju.

Með tilkomu sjúkrastöðva SÁÁ árið 1978, varð stór breyting á því hversu margir leituðu sér meðferðar í fyrsta sinn vegna áfengissýki eða annarrar vímuefnamisnotkunar á Íslandi. Fjöldi þeirra rauk strax upp fyrir 600 manns sem var mun meiri fjöldi en áður hafði þekkst. Í fyrstu var ekki óeðlilegt að álykta, að með stórauknu framboði og greiðari aðgangi að meðferð væri þetta tímabundin sveifla sem draga myndi úr. Reyndin varð önnur. Þrátt fyrir svipað framboð meðferðar hafa tölur um nýgengi verið stöðugar og þess vegna ábyggilegar.

576 komu í fyrsta skipti á Vog 2014

Á tímabilinu 1977 til 2014 komu 23.580 einstaklingar til meðferðar hjá SÁÁ. Árið 2014 leituðu 576 einstaklingar sér áfengis- og vímuefnameðferðar í fyrsta sinn á sjúkrahúsið Vog. Þessir einstaklingar höfðu aldrei komið svo mikið sem einn dag á stofnanir SÁÁ.

Út frá tölum um mannfjölda á Íslandi og tölum um nýliða í meðferð og aldur þeirra, má reikna líkur á því að fólk komi einhvern tíma á ævinni í meðferð vegna áfengissýki eða annars vímuefnavanda. Þannig má útbúa reiknimódel sem segir fyrir um hvert stefnir. Það hefur verið gert hjá SÁÁ frá árinu 1992. Þeir útreikningar sýna að líkur fyrir því að koma á Sjúkrahúsið Vog voru stöðugt að aukast fram til ársins 2002. Það ár voru líkurnar fyrir því að koma á Vog fyrir karla 23,4% og fyrir konu 11,7% og höfðu aldrei verið hærri. Mikil aukning hafði verið á neyslu allra vímuefna fimm árin þar á undan, bæði áfengis, lyfja og ólöglegra vímuefna. Síðan hafa líkurnar minnkað.

Ef nýgengistölur frá Vogi fyrir árin 2006 til 2009 eru lagðar til grundvallar og tölur um mannfjölda á Íslandi þann í desember 2007, verður niðurstaðan að líkurnar séu um 15,6%. Líkurnar eru mismunandi eftir aldri og kyni.

Samkvæmt þessum útreikningum eru 18,6% líkur á því að íslenskur karlmaður, sem nú er 15 ára gamall, muni leita sér meðferðar vegna áfengissýki eða annarrar vímuefnaneyslu einhvern tíma á ævinni. Þegar konur eiga í hlut eru líkurnar aftur á móti 9,6%.

Um 10,8% líkur eru á því að íslenskur karlmaður komi til meðferðar í fyrsta sinn meðan hann eru á aldrinum 20 til 50 ára. Eftir fimmtugt dregur úr líkunum sem verða þá um 4,2%. Þrjátíu af hverjum þúsund karlmönnum á aldrinum 16 til 19 ára munu koma á Vog á því aldursskeiði. Líkur til þess að konur á aldrinum 20 til 50 ára komi á Vog eru 5,0%. Samkvæmt þessum útreikningum munu 19 konur af hverjum þúsund koma á Vog fyrir tvítugt.

Fleiri myndir um nýgengi úr gagnagrunni Vogs miðað við árslok 2014 má sjá hér.