Eftirminnilegt og ánægjulegt ár

2014 verður eftirminnilegt og ánægjulegt ár í sögu SÁÁ. Þar er af ýmsu að taka en hæst ber að í byrjun sumars var tekin í notkun viðbygging við Sjúkrahúsið Vog með sex sjúkrastofum fyrir ellefu sjúklinga.  Þessi nýja álma er einkum ætluð veikustu sjúklingunum sem leggjast inn á Vog, endurkomufólki sem þarf mikla umönnun og læknisþjónustu og hefur háð langa og erfiða baráttu við hinn skæða sjúkdóm áfengis- og vímuefnafíknar. Með nýju álmunni batnar einnig öll aðstaða hjúkrunarvaktarinnar á Vogi frá því sem áður var og öryggi lyfjageymslu sjúkrahússins er nú í samræmi við það sem best þekkist.

Á þeim 30 árum sem liðin eru frá því Vogur tók til starfa hafa kröfur að mörgu leyti breyst bæði hvað varðar öryggismál, húsakost, aðbúnað starfsfólk og fleira.  Nýja álman ber vitni um að áherslu samtakanna á að þróa starfsemina í samræmi við nýjar kröfur.

Öflugt bakland

Framkvæmdir við nýbygginguna voru að öllu leyti fjármagnaðar með söfnunarfé samtakanna. Þannig hefur verið unnið að öllum byggingaframkvæmdum á vegum SÁÁ frá upphafi. Þær eru ríkinu og opinberum aðilum að kostnaðarlausu.

Við treystum á stuðning okkar öfluga baklands til að hrinda í framkvæmd nýjum hugmyndum sem hafa það eitt að markmiði að efla og bæta þá þjónustu og meðferð sem samtökin veita íslenskum áfengis- og vímuefnasjúklingum. Starf SÁÁ frá árinu 1977 á ekki minnstan þátt í því að í þessum efnum er Ísland í fremstu röð meðal þjóða heims.

Stundum hefur heyrst að alltaf sé sama fólkið á Vogi. Það er ekki rétt. SÁÁ var stofnað í október 1977 og eru því 37 ára gömul samtök. Vogur tók til starfa 1983. Frá þeim tíma hafa um 25 þúsund einstaklingar komið í meðferð til SÁÁ. Sá stóri hópur er settur saman úr alls konar fólki, venjulegum, dæmigerðum Íslendingum. Einungis um 20% af þessum hópi hefur þurft fleiri en þrjár innlagnir á Sjúkrahúsið Vog og aðeins rúm 3% sjúklinga hafa þurft að leggjast þar inn oftar en tíu sinnum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að nýbyggingin, sem við tókum í notkun 2014, mun einmitt gagnast best þessum hópi veikustu áfengis- og vímuefnasjúklinga landsins. Það má segja að sá hópur eigi forgang að ellefu af þeim 65 sjúkrarúmum sem Vogur hefur yfir að ráða. Tilkoma nýju álmunnar er mikilvæg og tímabær úrbót í þjónustu við þessa sjúklinga.

Samtökin standa á traustum grunni

Eins og jafnan eru næg verkefni framundan í starfi SÁÁ á nýju ári. Samtökin voru stofnuð til að útrýma vanþekkingu og fordómum og hafa áhrif á almenningsálitið með fræðslu um eðli sjúkdómsins alkóhólisma – og að starfrækja afvötnunarspítala og endurhæfingarstöðvar fyrir alkóhólista og aðra vímuefnasjúklinga. Þótt við fögnum því að margt hafi áunnist verður því ekki neitað að betur má ef duga skal.  Við nálgumst verkefnin framundan minnug þess að við erum ekki bindindisfélag og forðumst hverskonar boð og bönn og sleggjudóma.  Við leitum ekki ódýrra patentlausna og þykjumst ekki geta leyst hvers manns vanda en leitum sífellt nýrra leiða til þess að sinna hlutverki okkar enn betur í framtíðinni. .  Á löngum tíma hefur okkur tekist hjálpa mörgum — en við höfum líka misst marga. Sjálfsagt er enginn sjúkdómur hér á landi sem tekur jafnmörg ungmenni frá okkur eins og okkar sjúkdómur. Við erum stöðugt minnt á að vandinn sem við er að eiga er raunverulegur og áþreifanlegur.

Við sem störfum fyrir SÁÁ horfum bjartsýn til áramótanna og hlökkum til ársins 2015. Við erum þakklát fyrir að samtökin standa á traustum grunni.  SÁÁ er sameign þjóðarinnar og árangurinn af starfinu er mikill og góður á hvaða mælikvarða sem er.  Við njótum enn góðs af aðdáunarverðri framsýni og krafti frumherjanna sem stofnuðu samtökin árið 1977.  Alkóhólistar á Íslandi og aðstandendur þeirra eiga þess vegna sitt eigið sjúkrahús — sem þeir hafa byggt sjálfir – og samtök okkar hafa í þjónustu sinni úrvalslið lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, ráðgjafa og ritara; heilbrigðisstarfsfólks í fremstu röð á sínu sviði. Sjúkrarekstur samtakanna gengur vel þótt auðvitað megi alltaf gera getur. Samtökin njóta víðtæks stuðnings frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum og hið opinbera sýnir skilning á mikilvægi starfseminnar og stendur við bakið á sjúkrarekstri samtaknna.

Ég færi lesendum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár og þakka landsmönnum öflugan stuðning við starfsemi SÁÁ á árinu sem er að líða.

Arnþór Jónsson er formaður SÁÁ. Greinin birtist fyrst í SÁÁ blaðinu 3. tbl. 2014, sem var dreift í hús á höfuðborgarsvæðinu 29. desember 2014. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni á vefnum með því að smella hér.

Höfundur greinar