Ég var komin í þrot

Þann 2. janúar 2015 verða sextán ár síðan Sigrún Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri, kom fjölskyldu sinni á óvart með því að leita að­stoðar hjá SÁÁ og fara í áfengismeðferð. Hún var komin í þrot.

„Ég fékk nóg af sjálfri mér, fannst ég vera komin í þrot og leitaði aðstoðar,“ segir Sigrún Halldórsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, um aðdraganda þess að hún fór í meðferð. 2. janúar voru sextán ár frá því hún fór inn á Vog en þá hafði kvennameðferð verið í boði á Vogi frá fjögur ár. „Mér leið illa og fannst ég ekki ráða við þetta og vera öll í hnút,“ segir Sigrún. „Ég var farin að skammast mín og fannst drykkjan klæða mjög illa, þótt oft hafi verið fjör. Ég var í góðri vinnu, hef unnið sem skurð- hjúkrunarfræðingur í 40 ár og var deildarstjóri á þeim tíma og þótt ég hafi djúsað þegar ég var ekki að vinna stóð ég mína plikt og var mikil hetja að eigin áliti.“

Fólkið mitt var undrandi

„Fólkið mitt var undrandi á mér; sumum fannst ég eiga að fara aðra leið en ég tók þessa ákvörðun og hún var ekki auðveld. Ég fór þessa týpísku leið; var á Vogi í 10-11 daga og fór svo í kvennameðferð á Vík. Ég sé ekki eftir því og finnst að það hafi algjörlega bjargað mér.

Fyrst leið mér oft illa og svaf illa en hékk í þessu og gerði það sem mér var sagt. Ég er hlýðin stúlka. Þetta er talsverður pakki að fara í gegnum. Það var oft gaman hjá okkur stelpunum.

Mér fannst við eiga flestallar samleið, vorum með börn og skömmina yfir því að þurfa að viðurkenna að við vorum ekki alveg heilar og svo margt annað. Við vorum þrjár sem fylgdumst að og tvær okkar hittast enn.

Þannig að ég er bæði ánægð og þakklát fyrir kvennameðferðina á Vík og er ekki par hrifin af þessari umræðu sem hefur verið í þjóðfélagnu um þörf á kvennameðferð. Er ekki kvennameðferð? Ég veit ekki betur; ég var í kvennagrúppu strax á Vogi og og áfram á Vík. Auðvitað er kannski eitthvað sem má betrumbæta, það er aldrei svo að það sé ekki hægt.

Ég veit ekki hvort eitthvað hefur breyst en á þessum tíma var ekkert mál að vera í morgunmat eða í hléum innan um einhverja karla. Þeir voru ekki og eru ekki í sjálfri meðferðinni og því sem máli skiptir.

Einfaldara og auðveldara

Ég mundi ekki vilja þurfa vera í karlagrúppu í meðferð. Mórallinn breytist svo þegar karlarnir eru með, það kemur einhver spenna eða tilgerð í hópinn. Ég sæki hins vegar blandaða fundi í dag, þar sem eru mest karlar og mér finnst þeir yndislegir og gott að heyra hvernig þeir eru að upplifa og takast á við þennan sjúkdóm.En í sjálfri meðferðinni er best að grúppurnar séu kynjaskiptar.
Mér finnst afskaplega gott að vera án áfengis; það er alveg frábært. Það verður svo margt einfaldara og auðveldara, til dæmis bara það að fara í boð og vera á bílnum. Ég finn hvenær ég vil fara og þá fer ég, er pottþétt og veit hvað ég sagði og gerði. Ég fyllist oft svo miklu öryggi og þakklæti fyrir þessa litlu og einföldu hluti sem eru afleiðing þess að vera án áfengis.


Viðtalið við Sigrúnu birtist fyrst í SÁÁ blaðinu sem kom út 30. desember sl. Smellið hér til að lesa SÁÁ-blaðið 3. tbl. 2014 í heild sinni