Einkasala ríkisins dregur úr neyslu og tjóni af áfengisneyslu

Aldurstakmarkanir við áfengiskaup, ríkiseinkasala áfengis, takmarkanir á söludögum og takmarkaður fjöldi sölustaða eru meðal þeirra úrræða sem brýnast er að beita þegar stjórnvöld móta árangursríka stefnu í áfengismálum.

Einkasala ríkisins á áfengi er dæmi um víðtæka leið til að stýra aðgengi að áfengi. Miklar líkur eru á að einkasala á áfengissölu dragi úr neyslu og tjóni sem af neyslunni getur hlotist. Þá benda niðurstöður til þess að heildarneysla áfengis aukist verði einkasölunni aflétt.

Þetta er staðhæft í ritinu Áfengi – engin venjuleg verslunarvara, sem Lýðheilsustöð lét þýða fyrir fáum árum. Ritið er aðgengilegt á vef Landlæknis og er hægt að lesa það með því að smella hér.

Í framhaldi af þeirri umræðu sem orðið hefur í þjóðfélaginu síðustu daga og vikur um hugmyndir alþingismanns um að leyfa eigi sölu áfengis í matvöruverslunum birtum við hér tvo stutta kafla úr ritinu, sá fyrri er upptalning á þeim tíu atriðum sem mestu skipta þegar áfengisstefna er mótuð en hinn síðari er umfjöllun ritsins um hvernig nálgast skuli stefnumótun varðandi verð, skattlagningu og stýringu á aðgengi að áfengi.

Tíu atriði standa upp úr

Eftirfarandi tíu atriði standa upp úr þegar móta skal áfengisstefnu:
• aldurstakmarkanir við áfengiskaup
• ríkiseinkasala áfengis
• takmarkanir á sölutímum og söludögum
• takmarkaður fjöldi sölustaða
• áfengisskattar
• lög um leyfilegt magn áfengis í blóði ökumanna
• eftirlit með ölvunarakstri
• ökuleyfissvipting við ölvunarakstri
• ökuleyfi með skertum réttindum handa nýjum ökumönnum
• stutt úrræði handa fólki sem drekkur mikið (áhættuhópi).

Verð og skattlagning

Ljóst þykir að verð á áfengi hafi áhrif á neysluna. Neytendur kaupa meira þegar verð lækkar og minna þegar það hækkar. Ofdrykkjumenn, og aðrir sem eiga við áfengisvanda að stríða, eru engin undatekning á þeirri reglu. Enn fremur sýna hagtölur að samhengi er á milli hækkunar á áfengissköttum og verði og fækkunar vandamála sem rekja má til áfengisdrykkju.

Raunverð á áfengum drykkjum hefur lækkað í mörgum löndum síðustu fimmtíu ár auk þess sem slakað hefur verið á mörgum höftum til að hafa stjórn á neyslunni eða þau hreinlega afnumin. Ein meginorsök verðlækkunar er að yfirvöld hafa ekki haldið álögum í samræmi við verðbólgu. Áfengisgjald er góð leið til að stýra áfengisstefnu þar sem gjaldið aflar beinna tekna og dregur úr tjóni af völdum áfengis. Mesti annmarkinn við hækkun áfengisgjalda er hættan á áfengissmygli eða ólöglegri heimabruggun. Heildaráhrif álagningar og verðhækkunar er tímabundin minnkun áfengisneyslu og minna tjón af völdum neyslunnar.

Stýring á aðgengi að áfengi

Þegar rætt er um beint aðgengi að áfengi er átt við hversu auðvelt sé að verða sér úti um það og að neyta þess. Í flestum löndum eru takmarkanir á því hver má kaupa og hver má selja áfengi. Slíkar takmarkanir byggjast á samfélagssýn sem lýtur að heilsu, öryggi og almennri reglu. Reynslan sýnir enn fremur að miklar takmarkanir á aðgengi að áfengi, t.d. sölubann á áfengi, geta dregið úr drykkju og vandamálum tengdum áfengi. Jafnframt geta slíkar hömlur haft neikvæðar afleiðingar eða óæskilegar hliðarverkanir, s.s. afbrot sem tengjast ólöglegri sölu.

Kannanir á höftum og aðgengi að áfengi hafa sýnt að stytting afgreiðslutíma, fækkun söludaga og útsölustaða helst í hendur við minni neyslu og tjón af völdum hennar. Löggjöf um hækkun áfengiskaupaaldurs leiðir til minni sölu og færri vandamála hjá ungmennum sem neyta áfengis. Reglur sem beinast að þeim sem selja fólki undir lögaldri áfengi, eða brjóta önnur lög er varða sölu áfengis, hafa einnig áhrif svo lengi sem hægt er að beita sektum eða öðrum refsingum við þeim brotum, t.d. afturkalla vínveitingaleyfi. Rannsóknaniðurstöður benda enn fremur til að markaðssetning og tilboð á drykkjum með litlu áfengismagni geti verið áhrifarík aðferð. Sú leið geti dregið úr áfengisneyslu og vímuáhrifum og við það minnkar hættan á tjóni.

Einkasala ríkisins á áfengi er dæmi um víðtæka leið til að stýra aðgengi að áfengi. Miklar líkur eru á að einkasala á áfengissölu dragi úr neyslu og tjóni sem af neyslunni getur hlotist. Þá benda niðurstöður til þess að heildarneysla áfengis aukist verði einkasölunni aflétt.

Almennt séð geta breytingar á aðgengi að áfengi haft mikil áhrif í þeim löndum eða samfélögum þar sem stuðningur við breytingar er mikill. Kostnaðurinn við að hefta aðgang að áfengi er lítill miðað við þann kostnað sem getur hlotist af neyslu áfengis, sérstaklega ef neyslan er mikil. Mesti vandinn við heftan aðgang að áfengi snýr að aukningu á ólöglega markaðnum, (landabrugg og smygl). Á hinn bóginn virðist sem aukningin á þeim vettvangi nái ekki að vega á móti þeim samdrætti sem verður á löglegri neyslu og þar með þeirri skaðsemi sem af henni hefði hlotist.