Einkenni um vímuefnavanda

shutterstock_167694629

Nokkur einkenni sem gætu bent til vímuefnavanda

Hvernig gerir vímuefnavandi unglings vart við sig í augum okkar sem fullorðnir erum? Hvernig veit ég að barnið mitt er "komið út í vímuefni"? Hér verða raktar nokkrar vísbendingar sem ættu að gefa okkur tilefni til að ætla að unglingur stríði við áfengis- og vímuefnavanda. Áður en þessi einkennalisti er skoðaður og ályktanir dregnar er rétt að hafa nokkur atriði í huga:

Unglingsárin einkennast af breytingum. Þau einkenni sem hér er bent á geta sum verið dæmi um eðlilegar og tímabundnar breytingar sem eru unglingsárunum eðlilegar. Verði breytingar á mörgum sviðum eða róttækar og varanlegar er ástæða til að líta þær mjög alvarlegum augum.

Þær breytingar sem hér verða raktar þurfa ekki allar að vera dæmigerðar fyrir ungling í vímuefnavanda. Unglingar sem hafa áfengis- eða vímuefnavanda eru ekki allir eins. Margir þættir hafa áhrif á hvernig vandinn lýsir sér eins og persónueinkenni og ytri aðstæður, aldur unglingsins, gerð vímuefnanna sem neytt er og loks hve lengi unglingurinn hefur neytt áfengis/vímuefna.

Einkennalistinn samanstendur af nokkrum breytingum á ýmsum sviðum sem venjulegt fólk á að geta tekið eftir án þess að hafa sérstaka kunnáttu eða þjálfun. Hér er fyrst og fremst um hagnýtar vísbendingar að ræða en ekki greiningartæki. Það er lækna, sálfræðinga og ráðgjafa að greina hvort unglingur stríðir við vímuefnavanda. Sjúkdómsgreining er ekki hlutverk uppalendanna. Þeirra er að taka eftir vísbendingum um vandamál og leita eftir aðstoð.

Ástæða er til að brýna fyrir foreldrum og öðrum sem eiga samskipti við unglinginn að forðast fljótræði. Ekki er ráðlegt og því síður sanngjarnt að ákæra unglinginn fyrir drykkjuskap, vímuefnaneyslu og rugl á grundvelli óljósra grunsemda. Grunsemdir gefa okkur tilefni til frekari athugana-að fylgjast skipulega og vel með hegðun og ástandi unglingsins og spyrja hann spurninga. Þannig fáum við beinharðar upplýsingar sem við getum síðan byggt skynsamleg viðbrögð okkar á. Þó oftast sé fótur fyrir grunsemdum foreldra, geta vandamálin stundum verið önnur en vímuefni. Vanhugsaðar fullyrðingar eru óheppilegar við slíkar kringumstæður. Hafi unglingurinn vímuefnavanda í raun og sannleika er mikilvægt að við höfum skýra mynd af staðreyndunum en ekki aðeins óljósa og óttablandna tilfinningu fyrir vandanum. Unglingurinn er í vanda sem hann ræður ekki við og æskilegt er að hann finni að foreldrarnir búi yfir öryggi og dómgreind.

Daglegt háttalag

Fyrst ber að taka eftir daglegu háttalagi unglingsins. Þó unglingsárin færi með sér fjölþættar breytingar á börnunum eru þau söm við sig. Breytingarnar eru sjaldan svo róttækar að foreldrar og kennarar þekki viðkomandi ekki sem sama barn og flestar breytingarnar eru af því tagi að þær koma okkur yfirleitt ekki á óvart. Þessari tilfinningu okkar fyrir börnunum er okkur óhætt að taka mark á.

Við þekkjum vel barn sem við höfum alið upp. Breytingar sem okkur þykja óeðlilegar eða óvæntar ættu að vara okkur við. Dæmi:

 • Fáskiptinn og dvelur mikið einn í herberginu sínu.
 • Tekur lítinn þátt í samskiptum á heimilinu.
 • Óábyrgur og kærulaus um heimilisverk og almennar umgengnisvenjur.
 • Virðist ekki bera neina virðingu fyrir útvistareglum og tilkynningaskyldu.
 • Getur ekki gefið greinargóð svör við því hvar hann hefur dvalið og skýrt tímasetningar.
 • Hefur tilhneigingu til að vera óheiðarlegur, virðist standa í einhverju leynimakki, fer ítrekað á bak við foreldrana, skrökvar og á erfitt með að standa við loforð.
 • Breyttar svefn-og matarvenjur.

Geðslag og lundarfar

Þegar unglingur er farin að neyta vímuefna eða drekkur áfengi reglulega og mikið, hefur það áhrif á skapferli hans og tilfinningar. Eiturverkanir efnanna og eftirköst neyslunnar koma fram í miðtaugakerfinu og raska tilfinningalífinu. Einnig megum við ekki gleyma því að unglingar hafa samvisku eins og annað fólk og fá sektarkennd vegna hegðunar sinnar; finnst þeir vera að bregðast foreldrum sínum.

Þeir eru einnig að leggja út í óvissuna einir og óstuddir þegar þeir neyta vímuefna og það setur að þeim kvíða. Einkenni:

 • Skyndilegar persónuleikabreytingar sem foreldrar taka eftir.
 • Miklar skapsveiflur; gjarnan bráðlyndi. Dæmi um þetta er að unglingurinn æsir sig óvænt og yfirdrifið þegar rætt er við hann um eitthvað sem varðar hann sjálfan, skyldur hans eða framkomu við aðra.
 • Lundarfarið einkennist yfir lengri tímabil af depurð eða þunglyndi.

Breytt og trufluð hugsun

Sömu eiturverkanir og valda tilfinningatruflunum hafa áhrif á vitsmunalífið. Einnig verður hugur unglingsins mjög upptekinn af vímuefnum og öllu því sem þeim tilheyrir. Hugsanir hans eru oft uppteknar af því að jafna sig eftir síðasta fyllirí og undirbúa og skipuleggja það næsta með tilheyrandi eftirvæntingu. Eftirfarandi eru dæmi um hugsanatruflanir:

 • Minnisleysi.
 • Einbeitingarskortur.
 • Skilningssljór.
 • Brenglað tímaskyn.
 • Erfiðleikar að halda þræði í samræðum.
 • Glápir stundum út í loftið eða starir og virðist annars hugar og utangátta.
 • Viðbrögð unglingsins við þessum truflunum eru gjarnan áhugaleysi sem hann réttlætir (hann bregst við þverrandi námsgetu með því að bera við áhugaleysi á náminu og réttlæta það).

Breytingar í skólanum

Vímuefnavandi unglings kemur venjulega fram á námsárangri hans og hegðun í skóla. Samt eru dæmi um undraverða getu unglinga til ná góðum einkunum þrátt fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu og halda sig innan velsæmismarka í hegðun og framkomu.

Flestum unglingum tekst þó ekki að dylja vanda sinn fyrir glöggum kennurum sem þekkja þá vel og foreldrar ættu auðveldlega að taka eftir breyttri afstöðu til náms og skóla ef þeir fylgjast vísvitandi með unglingnum um eitthvert skeið. Dæmi:

 • Lækkandi einkunnir í skóla og stigversnandi frammistaða.
 • Kemur oft of seint, hverfur úr skólanum og skrópar.
 • Sýnir neikvætt viðhorf til náms og skóla.
 • Einangrast í bekknum.
 • Dregur sig út úr almennu félagslífi í skólanum.
 • Unglingurinn vinnur ekki heimaverkefnin sín og verður utanveltu í dagskrá skólans (hefur ekki réttu bækurnar meðferðis, vantar ritföng, fylgist illa með stundaskránni).
 • Kemur drukkinn eða vímaður á skólaskemmtanir þar sem þeirri stefnu hefur verið fylgt að skólastjórnendur bregðast jafnan við og hafa samband við foreldra.

Félagslegar vísbendingar

Töluverðar sviptingar geta orðið í félagslífi unglinga sem telja verður eðlilegar. Snemma á unglingsárunum fær jafningjahópurinn mikla þýðingu og unglingurinn verður mjög háður áliti hans og á erfitt með að skera sig úr. S

mám saman verður hann sjálfstæðari gagnvart hópnum um leið og hann tengist og finnur samstöðu með útvöldum vinum. Vísbendingar um að ekki er allt með felldu á þessum ferli gætu verið eftirfarandi:

  • Nýir vinir koma til sem eru mjög ólíkir þeim sem unglingurinn hefur hingað til hallað sér að.
  • Er í félagahópi þar sem áberandi eru krakkar sem almannarómur segir að eigi í vandamálum með áfengi eða vímuefni, gangi illa í skóla og komi frá "vandræðaheimilum".
  • Félagsskapurinn er breytilegur eða breytingar á kunningsskap virðast tíðar.
  • Eignast "ósýnilega vini" sem koma aldrei á heimilið, foreldrar hafa aldrei séð og unglingurinn forðast að veita um þá upplýsingar.
  • Hættir að sinna fyrri áhugamálum.
  • Undarleg áhugamál sem koma foreldrum á óvart. Dæmi um þetta er skyndilegur áhugi á myrkri dulspeki, grunn og andfélagsleg hugmyndafræði í anarkistaklæðum, Hitlers-aðdáun, alls konar merki og tákn sem bera vott um vímuefnadýrkun, aðdáun og drýkun popphetja sem farist hafa í vímuefnahremmingum.
  • Afskipti lögreglu.

Bein ummerki um vímuefnaheiminn

Hér eru nokkur ummerki um að unglingurinn neytir vímuefna reglulega og er virkur þátttakandi í samfélagi vímuefnaneytenda, kominn inn í vímuefnaheiminn ef svo má segja:

 • Vímuefni finnast í herbergi, hirslum eða fatnaði unglingsins.
 • Ílát, tæki og tól tengd áfengis- og vímuefnaneyslu finnast í fórum unglingsins.
 • Peningar, tékkhefti, skartgripir, seljanlegar bækur eða annað verðmæti hverfa af heimilinu.
 • Ýmsir hlutir í umsjá unglingsins án eðlilegra skýringa: Fatnaður, geisladiskar, hljómtæki, farsími og jafnvel hlutir sem hann hefur engin not fyrir (s.s. ljósmyndavélar eða verkfæri). Þetta eru vísbendingar um óeðlileg fjárráð og/eða stolna muni.

Líkamlegar vísbendingar

Við getum séð ýmis líkamleg einkenni á unglingi í vímuefnavanda ef við veitum honum sérstaka eftirtekt. Þessi einkenni geta farið framhjá foreldrum og þeim sem umgangast unglinginn daglega þó þau séu öðrum ef til vill augljós. Oft viljum við ekki trúa því versta og finnum okkur því aðrar skýringar á ástandi unglingsins. Við eigum líka erfitt með að fylgjast með því sem breytist smátt og smátt fyrir framan augu okkar. Hægara er að sjá breytingar hafi einstaklingurinn verið fjarverandi um nokkurt skeið. Af öllum þessum ástæðum kemur fyrir að þjálfaður fagmaður merkir vímuefnaneytanda í einni svipan þegar hann hittir ungling sem hefur sukkað án vitundar foreldranna mánuðum saman.

Mæður eru oft næmar fyrir heilsufari barna sinna og skynja stundum betur en þau sjálf þegar það breytist. Slíkri næmni eða tilfinningu eiga foreldrar að taka mark á. Þegar móðir hefur á tilfinningunni að drengurinn hennar sé

„eitthvað slappur og skrýtinn" er undantekningalítið fótur fyrir því hvort sem það er vímuefnavandi eða annað. Þjóðráð er að draga unglinginn á heilsugæslustöðina og láta skoða hann. Hver veit nema eitthvað komi í ljós.

Eftirfarandi eru vísbendingar sem allir taka eftir ef þeir veita unglingnum sérstaka athygli:

 • Fölt andlit.
 • Rauðeygður og voteygur.
 • Útþandir augasteinar.
 • Þvalur í lófunum.
 • Óskýr í máli.
 • Ýmsar hreyfingar sem virðast ósjálfráðar og benda til spennu.
 • Reikandi gangur.
 • Hirðuleysi um hreinlæti og næringu.
 • Tapar holdum og léttist.
 • Endurteknar og óljósar líkamlegar kvartanir, t.d. um höfuðverki, svefnleysi, slappleika, syfju, kviðarholsverki o.fl.