Tækifæri til að útrýma skæðum smitsjúkdómi

SÁÁ tekur þátt í meðferðar­ átaki heilbrigðisyfirvalda við lifrarbólgu C þar sem markmiðið er að útrýma þessum skæða sjúkdómi sem leggst einkum á fólk sem sprautar sig með vímuefnum. Framlag lyfjafyrirtækisins Gilead sem gefur lyf að andvirði 10 milljarða króna gerir verkefnið mögulegt en ein helsta forsenda þess er skráning heilbrigðisupplýsinga í gagnagrunninn á Vogi og skimun á sjúkrahúsinu Vogi fyrir lifrarbólgu C síðustu áratugi.

Stærstu tíðindi síðasta árs í heilbrigðismálum Íslendinga eru um fréttir af því átaki sem nú stendur yfir og hefur að markmiði að útrýma lifrarbólgu C úr íslensku samfélagi með nýju lyfi, sem nefnist Harvoni. Tíu milljarðar króna er andvirði þeirra lyfja sem lyfjafyrirtækið Gilead leggur fram endurgjaldslaust til þessa verkefnis og eru lyfin ætluð öllum Íslendinga sem greinst hafa með lifrarbólgu C-veiruna í blóði sínu.

900 lifrarbólgutilfelli greindust á Vogi

Á Íslandi er lifrarbólga C umfram allt sjúkdómur þeirra sem sprauta sig með vímuefnum. Veiran breiðist út vegna þess að margir vímuefnaneytendur nota sömu nálina. Um 70% allra, sem sprauta sig reglulega í æð hér á landi, smitast af lifrarbólgu C innan árs frá því að þeir sprautuðu sig í fyrsta skipti.

Þetta er vitað vegna þess að á Sjúkrahúsinu Vogi hefur áratugum saman verið skimað fyrir lifrarbólgu C hjá öllum sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahúsið og segjast í skýrslutöku við innlögn hafa sprautað sig með vímuefnum í æð einu sinni eða oftar. Frá því skimunin hófst hefur orðið til gagnagrunnur á Vogi um ca. 900 lifrarbólgu C smitaða einstaklinga. Það er allur þorri þeirra tilfella af lifrarbólgu C sem greinst hefur hér á landi. Það eru þessir einstaklingar sem nú eiga í fyrsta skipti kost á lækningu við þessum skæða sjúkdómi, sem var talinn ólæknandi þar til nýlega og hefur iðulega reynst banvænn þar sem hann getur með tímanum leitt til þess að sjúklingar veikjast af skorpulifur og lifrarkrabbameini.

Eftir smit getur Lifrarbólga C verið einkennalaus árum saman. Það skiptir miklu máli að greina smitið eins fljótt og kostur er vegna þess að reynslan sýnir að nánast allir vímuefnaneytendur breyta neysluhegðun sinni um leið og þeir vita að þeir eru smitaðir. Eftir það hættir fólk að deila nál með neyslufélögum sem ekki eru smitaðir.

Sjúklingar fengu ekki bestu meðferð

Fólk sem sprautar sig í æð með vímuefnum, er jaðarhópur í samfélaginu og á fáa formælendur í opinberri umræðu. Tíðindin um Gilead-verkefnið eru fyrst og fremst gleðileg fyrir þau og þeirra nánustu. Til þessa hefur ekki fengist leyfi hjá heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi til að veita sjúklingum með lifrarbólgu C bestu fáanlegu meðferð. Lyfjameðferðin, sem er tilkomin á síðustu árum, hefur verið dýrari en svo að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hafi verið tilbúin til að leggja í þann kostnað. Slík vandamál eru nú úr sögunni eftir að Gilead-verkefnið er orðið að veruleika og lyfin eru nú til reiðu án nokkurs kostnaðar fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi eða sjúklingana sjálfa.

En Gilead-verkefnið er líka fagnaðarefni fyrir velunnara og starfsfólk SÁÁ enda er skimunin á Vogi, sem gerð var að frumkvæði og á kostnað samtakanna, að mörgu leyti forsenda þess. SÁÁ eru samtök áfengis- og vímuefnasjúklinga á Íslandi og ekki síst stofnuð til að tryggja þeim hópi bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu. Það var í anda þeirra markmiða sem Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri sjúkrahússins Vogs, ákvað á sínum tíma að

láta skima fyrir lifrarbólgu C og HIV veirunni meðal allra sem sögðust við komu á Vog hafa sprautað sig með vímuefnum í æð einu sinni eða oftar. Þetta var gert þrátt fyrir ríkissjóður fengist ekki til að greiða kostnað við skimanirnar. SÁÁ hefur greitt kostnað við blóðrannsóknir á rannsóknarstofum Landspítalans, af því fé sem samtökin safna hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Vonir standa til að afstaða ríkisins breytist nú þegar Gilead-verkefnið er komið til sögunnar. Það er einsdæmi meðal þjóða heims að næstum allir smitaðir einstaklingar í heilu samfélagi hafi fengið skimun og jafn nákvæma greiningu og raunin er hér á landi vegna þessara skimana.

Í Gilead-verkefninu er fólgin viðurkenning á þeim árangri sem þetta lýðheilsu- og forvarnarverkefni SÁÁ hefur skilað. Samtökin fagna því að vinnan sem starfsfólk SÁÁ hefur lagt fram við nákvæmnisskráningu og læknisþjónustu til að greina lifrarbólgu meðal íslenskra vímuefnaneytenda hefur skilað sér með þessum tengslum Gileadverkefnisins við þá séríslensku leið í heilbrigðismálum sem farin hefur verið í meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Farsæl, séríslensk leið

Með rekstri sjúkrahússins Vogs, samkvæmt starfsleyfi frá 1984, og með tilkomu og rekstri meðferðarstofnana SÁÁ og skipuðu Íslendingar meðferðarmálum áfengis- og vímuefnasjúklinga með öðrum hætti en aðrar þjóðir á Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu. Áður en Sjúkrahúsið Vogur kom til sögunnar höfðu áfengis- og vímuefnasjúklingarnir fyrst þurft að leita sér heilbrigðisþjónustu inn á geðdeildir eða almennar deildir sjúkrahúsa vegna líkamlegra fylgikvilla og geðrænna orsaka stjórnlausrar neyslu. Þannig standa flestar aðrar þjóðir enn að málum. En frá tilkomu sjúkrahússins Vogs hefur íslenska ríkið greitt kostnað við sérhæfða meðferð SÁÁ fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga að ákveðnu marki. SÁÁ hefur að aflað fjár til að leggja inn í meðferðina svo að hægt sé að bjóða þessum hópi sjúklinga betri þjónustu en þá grunn þjónustu sem ríkið hefur viljað tryggja.

Skimarnir við lifrarbólgu C og HIV eru gott dæmi um þá áherslu samtakanna, eins og fyrr sagði. Frá árinu 1996 hefur SÁÁ safnað og lagt fram þrjá milljarða króna að núvirði af söfnunarfé til þess að kosta meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga á sjúkrahúsinu Vogi og öðrum meðferðarstofnunum samtakanna. Sú tala sést í reikningshaldi sjúkrareksturs samtakanna sem hefur verið endurskoðað af Ríkisendurskoðun.

Þegar litið er yfir farinn veg blasir við að þessi séríslenska í heilbrigðisþjónustu við áfengis- og vímuefnaneytendur hefur reynst farsæl þótt auðvitað teljum við hjá SÁÁ að ríkið ætti að gera betur og greiða þjónustuna að fullu. En meginmálið er að þegar ákveðið var að fara þessa leið hér á landi voru áfengis- og vímuefnasjúklingum opnaðar sérstakar dyr inn í stofnun sem er hluti af heilbrigðiskerfinu og þar sem vanda þeirra er sinnt sérstaklega og reynt að stöðva vímuefnaneysluna. Sú stefnumörkun er að vissu leyti að bera árangur nú þegar menn gera sér raunhæfar vonir um að íslenskt samfélag verði laust við lifrarbólgu C innan fárra ára.

Samstarfssamningur við Landspítala Meginhlutverk SÁÁ í Gilead-verkefninu, samkvæmt samstarfssamningi við Landspítalann, verður að setja upp sérstaka að- stöðu á sjúkrahúsinu Vogi til að meðhöndla í samvinnu við Landspítalann þá sjúklinga sem greinast hjá SÁÁ á meðan á verkefninu stendur. Einnig mun SÁÁ, samkvæmt nánara samkomulagi, afhenda Landspítalanum upplýsingar um alla þá sjúklinga sem kunnugt er um í skrám SÁÁ og greinst hafa með lifrarbólgu C.

Miðað er við að allt að 200 sjúklingar verði meðhöndlaðir ár hvert á sjúkrahúsinu Vogi. Þátttaka í verkefninu kallar á talsverðan viðbúnað af hálfu SÁÁ og að því verði meðal annars sinnt af hjúkrunarfræðingi sem ráðinn verður sérstaklega í fullt starfi til að sinna verkefninu, auk sérfræðilæknis og læknaritara í hálfu starfi. Áætlað er að meðferðarátakið, sem nú er komið vel á veg, standi í allt að þrjú ár. Fyrstu tvö árin er stefnt að því að meðhöndla alla einstaklinga sem greinst hafa með lifrarbólgu C-veiruna en þriðja og síðasta árið verði unnið að því að ná til þeirra einstaklinga sem ekki hefur náðst til fyrri árin.

Umsjón með framkvæmd meðferðarátaksins og ábyrgð á að það fari fram í samræmi við sérstaka rannsóknaráætlun, leyfi Vísindasiðanefndar eða kröfur Persónuverndar ef við á, er á höndum Landspítalans. Sigurður Ólafsson, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum á Landspítalanum er ábyrgðarmaður og frumkvöðull verkefnisins en verkefnastjóri er Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur. Af hálfu SÁÁ eru það Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri sjúkrahússins Vogs, Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, og Þóra Björnsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Vogi, sem hafa umsjón með verkefninu.


Þessi samantekt birtist í SÁÁ blaðinu, 1. tbl. 2016, sem kom út 22. mars 2016.

Höfundur greinar