Ekki gefa ykkur tískusveiflum á vald

„Það er mjög óvenjulegt að sjá hvað SÁÁ hefur sterka stöðu og gott orðspor á Íslandi; þið hafið þjónustað um 10% af þjóðinni, sem er einstakt. Úti í samfélaginu er stór hópur sem hefur fengið bata með aðstoð SÁÁ og almenningur á auðvelt með að fá aðgang að meðferðinni, líka þeir sem voru lagðir inn á síðasta ári. Fáar stofnanir ná að halda svona sterkri stöðu eins og þið hafið gert í langan tíma. Það er ánægjulegt og líka það að SÁÁ er í góðum samskiptum við Landspítala, íslensku ríkisstjórnina og allt þekkingarsamfélagið á sínu sviði og fær til sín gesti eins og mig. Mín skilaboð eru þessi: Haldið áfram því sem þið eruð að gera án þess að taka krappar beygjur. Fylgist áfram með rannsóknum og nýjungum en ekki gefa ykkur tískusveiflum á vald.“

Þetta segir dr. R. Jeffrey Goldsmith, forseti ASAM, American Society of Addiction Medicine, félags um 4.000 sérfræðinga í fíknlækningum. Dr. Goldsmith, ræddi stuttlega við saa.is en hann sótti Ísland heim í byrjun júlí og kynnti sér stöðu fíknlækninga hér í boði SÁÁ, auk þess að halda fyrirlestra fyrir lækna og heilbrigðisstarfsfólk á Landspítalanum og SÁÁ.

„Fólk, sem er að vinna við rannsóknir, er oft mjög duglegt við að koma sér og sínum verkefnum og niðurstöðum á framfæri,“ heldur dr. Goldsmit áfram. „Það vantar meiri styrki til að halda starfi sínu áfram og þarf á athygli og umræðu að halda. En við sem erum að vinna með sjúklingum þurfum svo að bíða árum saman meðan það er að koma í ljós hvort nýjungar sem líta vel út á blaði bera raunverulega árangur í meðferð sjúklinga. Rannsakandinn getur valið þátttakendur í sinni rannsókn sjálfur en þegar við förum að beita aðferðunum hans á alla okkar sjúklinga sjáum við hvort þær henta líka þeim sem eru þunglyndir, sykursjúkir, með lifrarbólgu C og svo framvegis. Oft kemur þá í ljós að er ekki eins merkileg og margt benti til. Þess vegna er mikilvægt að vera varkár og fastur fyrir. Ég held að SÁÁ standi sig mjög vel í því, fylgist vel með nýjungum og bjóði upp á það sem hefur sannað sig í stað þess að hlaupa á eftir því sem ekki hefur fengið trúverðuga staðfestingu. Ég vona að þið haldið áfram því sem þið eruð að gera. Þið eruð að gera góða hluti og eigið að halda því áfram.“

„Annað sem ég tel að sé mjög gott í starfi SÁÁ er að það er eining innan SÁÁ um það hvernig eigi að vinna. Fólk er ekki að fara í mismunandi áttir í meðferðinni og sú skólun sem nýtt starfsfólk fær þegar það hefur störf hjá SÁÁ skiptir miklu máli varðandi það að halda starfseminni á réttri leið,“ segir dr. Goldsmith. „Það er líka mikilvægt að samfélagið í heild telur að SÁÁ sé á réttri leið. Það er mikilvægt fyrir sjúklinga að finna það í upphafi batans þegar hann er að takast á við það að honum hefur ekki gefist vel að treysta eigin dómgreind og að hún kom honum í vandræði að finna að hann er kominn inn í hóp sem er einhuga um það hvað á að gera.“

Pages: 1 2 3 4