Elskar þú einstakling með fíknsjúkdóm?

Fíknsjúkdómurinn er fjölskyldusjúkdómur sem hægt er að meðhöndla. Hjá SÁÁ býðst þér fagleg þjónusta á göngudeild ef þú ert aðstandandi einstaklings með fíknsjúkdóm. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar, sem eru sérhæfðir í að ráðleggja aðstandendum, taka vel á móti þér. Í boði eru einkaviðtöl og fjölskyldumeðferð á göngudeild í fjórar vikur, tvisvar sinnum í viku á mánudögum og fimmtudögum frá klukkan 16.00–18.00.

Þú hefur e.t.v. reynt að hafa stjórn á neyslu ástvinar þíns með alls konar ráðleggingum. Kannski eru mörg ár síðan neysla á heimilinu fór að hafa áhrif á þig. Það skiptir eiginlega engu máli hvernig þetta hefur þróast. Það er alltaf til leið til lausnar fyrir þig. Í fjölskyldumeðferð SÁÁ verður þér ljóst að þú getur ekki stjórnað því hvernig ástvinur þinn notar áfengi eða önnur vímuefni. Þú getur aðeins haft stjórn á þér, með stuðningi fagaðila til að byrja með.

Fíknsjúkdómurinn er þannig að sá sem er haldinn honum verður að axla ábyrgð sjálfur. Það sem þú getur gert er að lýsa áhyggjum þínum og veita stuðning þegar ástvinur þinn er tilbúinn til að leita sér hjálpar.

Í fjölskyldumeðferð hittir þú aðra sem hafa svipaða reynslu og þú. Hvort sem þú ert maki, foreldri, uppkomið barn eða annar náinn ástvinur einstaklings með fíknsjúkdóm.

Hægt er að líkja aðstandendum fólks með fíknsjúkdóm við ofurstjórnsama einstaklinga sem hafa reynt allt til að hafa áhrif á það hvernig ástvinurinn notar áfengi eða önnur vímuefni. Árangurinn hefur þó oft látið á sér standa. Þetta er svipað og reyna að hafa áhrif á það hvort það sé flóð eða fjara. Eins er hægt að nefna það til gamans að íhlutun aðstandenda er oft þannig að það minnir á makann sem hékk utan í golfaranum meðan hann var að spila golf. Makinn var oft alltof nálægt, truflaði golfarann og fékk kylfuna í sig aftur og aftur. Passaðu þig á að vera ekki með nefið ofan í öllu í lífi þess sem er að nota áfengi eða önnur vímuefni. Þá fer eins fyrir þér og maka golfarans.

Fíknsjúkdómurinn lagast ekki af sjálfu sér. Það er til fagleg og fjölbreytt áfengis- og vímuefnameðferð sem krefst sérþekkingar heilbrigðisstarfsfólks. SÁÁ hefur í 40 ár sinnt þeirri þjónustu.

Þóra Björnsdóttir,
framkvæmdastjóri hjúkrunar SÁÁ