Valmynd
english

Endurkomufólkið hjá SÁÁ

Sjúklingar sem komu á Sjúkrahúsið Vog 2003 og höfðu verið 10 sinnum eða oftar í meðferð

Inngangur

  • Um 13.500 einstaklingar eða 80% sjúklingahóps SÁÁ hafa komið 3 sinnum eða sjaldnar til meðferðar
  • 550 núlifandi Íslendingar hafa komið 10 sinnum eða oftar til meðferðar eða rúm 3% sjúklingahópsins
  • 213 af þessum endurkomusjúklingum komu á Vog 2003. Upplýsingar um þá liggja nú fyrir

Þegar upplýsingar um þennan hóp eru skoðaðar kemur í ljós að hópurinn er í það mikilli og blandaðri vímuefnaneyslu að mikil þörf er á afeitrunarmeðferð sem ekki er hægt að framkvæma með fullu öryggi nema á sjúkrastofnun þar sem fyrir er stöðug hjúkrunarvakt og læknisþjónusta.

Geðheilsa hópsins er með þeim hætti að full þörf er á eftirliti af hálfu lækna meðan á afeitrun stendur og geðlæknisfræðilegu inngripi ef þörf er á. Stórum hluta hópsins getur stafað hætta af trúboði óupplýstra og ólærðra öfgatrúarmanna meðan á afeitrun stendur.

Meiri hluti hópsins eða um 70% þarf meiri þjónustu að afeitrun lokinni en núverandi meðferð SÁÁ getur boðið upp á. Ástæðan er mjög léleg félagsleg staða og færni fólksins ásamt lélegri líkamlegri og andlegri heilsu. Þetta gerir það að verkum að núverandi meðferð, sem hentar flestum sem á Vog koma, er of hröð og átakamikil fyrir þetta fólk. Þörf er á sérúrræðum fyrir þennan hóp sem eðlilegast er að SÁÁ veiti.

Fjöldi endurkomufólks
Allt frá árinu 1987 hafa sjúkrastofnanir SÁÁ boðið endurkomufólki upp á sérstök meðferðarúrræði sem henta vel stórum hluta endurkomufólks. Slík meðferð fer fram á endurhæfingarstofnun í fjórar vikur að afeitrun og greiningu lokinni. Eftir stofnanameðferðina fá sjúklingarnir eftirfylgni og meðferð í eitt ár.

Með árunum er þó að verða ljóst að meira þarf til og í þessari samantekt kemur fram að á Sjúkrahúsið Vog leita um 200 einstaklingar á árinu 2003 sem þurfa meiri þjónustu og meðferð en hægt er að veita þeim við núverandi aðstæður. Þörf er á úrbótum.

Úr gagnagrunninum á Vogi fást upplýsingar sem hrekja þær fullyrðingar sem oft hafa heyrst af hálfu embættismanna, heilbrigðisstarfsmanna og leikmanna sem fjallað hafa um áfengis- og vímuefnameðferð í gegnum árin að hjá SÁÁ sé alltaf sama fólkið og lítill árangur sé af meðferðinni þar.

Ef tölurnar eru skoðaðar sést að stór hluti sjúklinganna hefur komið 3 sinnum eða sjaldnar til meðferðar hjá SÁÁ frá árinu 1977 eða 13.492 einstaklingar, um 80% sjúklinganna.

Fjöldi einstaklinga sem hafa innritast á Sjúkrastofnanir SÁÁ frá því í desember 1977 og til loka ársins 2003 eru 16.965 einstaklingar, 12.282 karlar og 4.683 konur. 545 núlifandi Íslendingar hafa innritast 10 sinnum eða oftar á Sjúkrahúsið Vog, af þeim komu 213 til meðferðar árið 2003. 55 konur og 158 karlar. Þetta er sá hópur sjúklinga sem fjallað verður um í þessari samantekt eða 3,2% hópsins. Þeir mynduðu 12% sjúklingahópsins á Vogi árið 2003. Hér eftir verða þeir nefndir endurkomukarlar og -konur eða endurkomufólk.

Endurkomur á Sjúkrahúsið Vog á árunum 1977 til 2003
Komur Karlar % Konur % Alls %
1 6280 51% 2387 51% 8667 51%
2 til 5 4611 38% 1801 38% 6412 38%
6 til 10 922 8% 342 7% 1264 7%
Oftar en 10 469 4% 153 3% 622 4%
Alls 12.282   4.683   16.965

 

89% skjólstæðinga hafa komið 5 sinnum eða sjaldnar til SÁÁ á undanförnum 25 árum. 622 einstaklingar eða 3,6 % hafa komið 10 sinnum eða oftar og af þeim eru 77 nú látnir eða 12,4%. 12 konur og 65 karlar. 545 núlifandi Íslendingar hafa komið 10 sinnum eða oftar.

Endurkomufólkið árið 2003
213 einstaklingar komu á Sjúkrahúsið Vog árið 2003 og höfðu verið þar 10 sinnum áður. Þetta voru 158 karlar (58%) og 55 konur (26%) meðalaldur var 42,5 ár. Meðalaldur karlanna var 43,3 og kvennanna 40,1.

Endurkomur á Sjúkrahúsið Vog árið 2003 
Komur Karlar % Konur % Alls  %
Ekki verið áður 423 34% 222 41% 645 36%
1 til 5 497 39% 194 36% 691 38%
6 til 10 183 15% 71 13% 254 14%
Oftar en 10 158 13% 55 10% 213 12%
Alls 1262   542   1803

 

Af þessum 3,6% (622 einstaklingum af 16.965) sjúklinga sem komið hafa 10 sinnum eða oftar komu 213 á Sjúkrahúsið Vog 2003. Þeir voru 12% sjúklingahópsins það árið.

Vandi er langvinnur
Ár frá fyrstu komu Karlar Konur Alls
1-4 2 1 3
5-9 ár 15 6 21
10 til 14 ár 24 13 37
15-19 42 17 59
20 ár eða meira 75 18 93

 

10 ár eða lengri tími er liðinn frá fyrstu komu um 88% sjúklinganna. Meðalaldur við fyrstu komu var 25,3  ár (karlar 25,5 ár og konur 24,6  ár).

Geðheilsa og andlegt atgerfi

  • Einungis 27% af þessum hópi hefur næjganlega góða geðheilsu og andlegt atgervi til geta nýtt sér meðferð SÁÁ.
  • Að afeitrun lokinni þurfa rúmlega 70% meiri þjónustu en núverandi meðferð SÁÁ getur boðið upp á.

Við mat á geðheilsu og andlegu atgerfi sjúklinganna 213 var farin sú leið að flokka sjúklingana í hópa með sérstöku tilliti til þess hvers konar meðferð hentar þeim. Í sjúkraskýrslum um þetta fólk liggja fyrir miklar upplýsingar og sjúkdómsgreiningar sem gerðar hafa verið á Vogi og öðrum sjúkrastofnunum, bæði geðgreiningar og aðrar sjúkdómsgreiningar auk þess sem ferill þessa fólks er skráður yfir mörg ár.

Þeir sem sagðir eru hafa nógu góða heilastarfsemi fyrir SÁÁ meðferðina mundu eflaust flestir fá einhvers konar geðgreiningu ef stækkunargler geðlæknanna væri á þá sett. Áfengis- og vímuefnameðferð sem stenst faglegar kröfur getur vel annast fólk með ýmsar geðgreiningar svo sem  persónuraskanir, kvíðaraskanir, óyndi og þunglyndi og veitt slíku fólki nógu góða meðferð. Hjá SÁÁ fá þessir sjúklingar bæði lyfjameðferð og atferlismeðferð við sitt hæfi í meðferðinni.

Fólkið sem greint er með virkan og alvarlegan geðsjúkdóm eru sjúklingar sem greinst hafa með sveiflusjúkdóm eða geðklofa og geta þess vegna ekki nýtt sér meðferð SÁÁ nema að litlu leyti og þurfa jafnframt meiri geðmeðferð og eftirfylgni af hálfu geðlækna en SÁÁ getur veitt við núverandi aðstæður. Þessi hópur getur þurft á innlögn að halda á stundum á geðdeild þegar geðsjúkdómurinn versnar eða tekur sig upp að nýju og á sama hátt geta þeir þurft á afeitrun að halda þegar þeir hefja vímuefnaneyslu. Að afeitrun lokinni þurfa þessi sjúklingar á geðlæknisþjónustu að halda og oft einnig á félagslegri þjónustu í skyndi.

Einstaklingarnir sem flokkast með alvarlega persónuröskun hér hafa mun alvarlegri sjúkdóm en almenna persónuröskun samkvæmt almennum greiningarskilyrðum. Þessir einstaklingar hafa það alvarleg einkenni að þeir hafa verið algjörlega óvirkir á flestum sviðum frá ungum aldri og hafa ýmis einkenni um geðsjúkdóma. Þeir þurfa því svipaðri þjónustu og þeir sem greinst hafa með virka geðsjúkdóma.

Þeir sem flokkast hér með afbrotahneigð eru einstaklingar sem eiga að baki langan afbrotaferil og hafa setið endurtekið í varðhaldi og uppfylla því mun strangari skilyrði en almennt gilda um antisocial personality disorder.

Greindarskertu einstaklingarnir hér eru einstaklingar sem hafa greind á milli 70-90 . Einn þeirra hafði skaðast vegna höfuðáverka. Þeir geta í flestum tilfellum nýtt sér meðferð SÁÁ að einhverju leyti en þurfa mun meiri stuðning að meðferð lokinni og oft fylgja þeir ekki sjúklingahópnum í öllu og þurfa einstaklingsbundnari meðferð og tíma en hinir.

Þeir sem greindir eru hér verulega skaðaðir af áfengisneyslu bera augljós merki persónuleikabreytingar ef litið er til margra ára sem rekja má til framheilaskaða. Atferli þeirra einkennist fyrst og fremst af hömluleysi og verulega skertum úrlausnarhæfileikum. Þeir þurfa á að halda langri stofnanameðferð 3-6 mánuðir.

Heilastarfsemi og geðheilsa Karlar % Konur % Alls %
Nægilega  góð fyrir núverandi meðferð SÁÁ 43 28% 13 24% 56 27%
Verulegur skaði vegna mikillar og langvarandi vímuefnaneyslu 41 27% 12 22% 53 25%
Afbrotahneigð 19 12% 2 4% 21 10%
Verulega alvarleg persónuröskun 30 19% 20 36% 50 24%
Virkur og alvarlegur geðsjúkdómur 14 9% 8 14% 22 10%
Greindarskerðing 8 5% 8 4%
Alls 155 55 210

 

Líkamleg heilsa
Líkamleg heilsa hópsins er léleg. Flestir eru eldri en 35 ára eða 78% og farnir að láta á sjá vegna áratuga langrar óhóflegrar áfengis- og vímuefnaneyslu. 84 (61 karl og 21 kona) hafa fengið lifrarbólgu C. 24 eru óvinnufærir vegna líkamlegra veikinda. 133 hafa sprautað sig í æð og 67 gera það reglulega. 38 sprauta sig daglega og 45 eru líkamlega háðir morfínefnum.

Vímuefnaneysla
Segja má að 90% sjúklinganna sé í mikilli og stöðugri vímuefnaneyslu sem oft er mjög blönduð. 87% sjúklinganna eru í síneyslu eða túraneyslu án bata utan stofnanna. 133 einstaklingar hafa sprautað sig í æð og 67 gera það reglulega og 38 (16%) daglega. 45 eða 21% sjúklinganna eru háðir morfíni og þurfa því margir hverjir viðhaldsmeðferð að afeitrun lokinni.

Eðli vímuefnaneyslunnar Karlar % Konur % Alls %
Áfengi eingöngu 51 32% 11 20% 62 29%
Sprautað sig daglega með morfíni eða amfetamín 25 16% 13 24% 38 18%
Áfengi og lyf 16 10% 9 16% 25 12,5%
Áfengi og ólögleg vímuefni 24 15% 1 2% 25 12,5%
Blönduð vímufenafneysla (notað lyf, vín og ólögleg vímuefni) 38 24% 17 31% 55 26%
Annað 4 3% 4 7% 8 2%
Alls 158 55 213

 

Eðli vímuefnaneyslunnar  Karlar % Konur % Alls %
Síneysla utan stofnanna 79 51% 25 64% 114 54%
Túraneysla án bata 55 35% 14 26% 69 33%
Náð 6 mánaða bata á síðustu 2 árum 19 12% 4 7% 23 11%
Í bata í 2 ár eða lengur 2 1% 2 3% 4 2%
Alls 155 55 210

 

Félagsleg staða
156 eða 73% búa einir og áberandi er hversu félagslega einangraður hópurinn er og tekur lítinn þátt í eðlilegu fjölskyldulífi.

Atvinnuástand Karlar % Konur % Alls %
Nýtur örorkubóta frá TR 85 54% 40 73% 125 59%
Ellilífeyrisþegi 1 1% 0 0% 1 0%
Óvirkur á vinnumarkaði í 5 ár 22 14% 10 18% 32 15%
Atvinnulaus undanfarið ár 11 7% 0 0% 11 5%
Nýlega í vinnu 18 11% 1 2% 19 9%
Í fastri vinnu 21 13% 4 7% 25 12%
Alls 158 55 213

 

Um 80% hafa ekki verið í vinnu árum saman.

Húsnæði Karlar % Konur % Alls %
Húsnæðislaus 55 35% 12 22% 67 31%
Leiga á vegum sveitarfélaga eða ör.b 24 15% 23 42% 47 22%
Leiguhúsnæði 40 25% 6 11% 46 22%
Eigið húsnæði 20 13% 11 20% 31 15%
Býr hjá foreldrum eða fjölskyldu 14 9% 3 5% 17 8%
Býr í sambýli eða sambærilegu 5 3% 0 0% 5 2%
Alls 158 55 213

 

50% eru í húsnæðisvandamálum og 30% á götunni.

Menntun Karlar % Konur % Alls %
Verulegur þekkingarskortur 8 5% 2 4% 10 5%
Grunnskóli eða minna 86 55% 45 81% 131 61%
Sérþjálfun á vinnumarkaði 35 22% 6 11% 41 19%
Iðnréttindi eða sambærilegt 18 11% 0 0% 18 9%
Menntaskóli eða meira 9 6% 2 4% 11 5%
Háskólanám með réttindum 2 1% 0 0% 2 1%
Alls 158 55 213

 

66% eru ómenntaðir og hafa enga sérþjálfun sem nýtist þeim á vinnumarkaði. 84% kvenna og 60% karla.

Tillögur SÁÁ til úrbóta
Tillögurnar sem hér koma miðast bæði við úrbætur fyrir þann hóp sem fjallað er um í þessari samantekt og eru einnig hugsaðar til þess að hægt sé að grípa fyrr og með áhrifaríkari hætti inn í sjúkdómsþróun þeirra sjúklinga sem eru á sömu braut.

Leggja þarf fé til viðhaldsmeðferðarinnar á Vogi og byggja þá starfsemi upp með mun meiri samvinnu en nú er við Landlæknisembættið og í áframhaldandi samvinnu við geðdeild Landspítalans.

Koma þarf upp sambýli fyrir þennan sjúklingahóp í næsta nágrenni við Sjúkrahúsið Vog. Þar þarf að vera meira aðhald og félagslegur stuðningur en nú er veittur við sambýli SÁÁ. Vegna nálægðarinnar við Sjúkrahúsið Vog gæti starfsfólk þar veitt sambýlinu nauðsynlega þjónustu. Til að sinna sjúklingunum í þessu sambýli, þeim sem eru með geðraskanir og 18 ára og eldri á Sjúkrahúsinu Vogi þarf að ráða geðlækni í hálft starf við Sjúkrahúsið Vog. Félagsráðgjafa þarf einnig að ráða til starfa við sambýlið og Vog.

Nauðsynlegt er að veita veikustu sjúklingunum sem leita til SÁÁ langtíma inniliggjandi meðferð. Þó að vísir sé að slíku nú þegar þarf betri aðstöðu til að lengja inniliggjandi meðferðina upp í nokkra mánuði ef þörf er á. Góð aðstaða er fyrir konurnar á Vík og einungis þarf að fjölga ráðgjöfum þar um einn. Aðstöðuna fyrir karlana þarf að bæta á Staðarfelli svo hægt sé að fjölga sjúklingum um 10 og ráðgjöfum um tvo.

Óskað er eftir eftirfarandi stuðningi Heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins

  1. Stuðning við viðhaldsmeðferðina
  2. Stuðning við sambýlisrekstur við sjúkrahúsið Vog með aukinni þjónustu við skjólstæðingana frá því sem nú er
  3. Stuðning við langtímameðferð fyrir konur og karla