Enginn trúði á þessa róna

Hendrik Berndsen, sem enginn þekkir undir öðru nafni en Binni (í blómabúðinni), er goðsögn í lifanda lífi innan SÁÁ. Hann er einn af frumherjunum; fyrsti varaformaður samtakanna og starfaði við hlið Hilmars Helgasonar, sem kústur að eigin sögn; við að sópa upp og framkvæma hugmyndirnar sem eldhuginn Hilmar fékk. Þetta er dauðans alvara. Fyrsti formaður SÁÁ, Hilmar, féll. Drakk og drukknaði langt fyrir aldur fram, skömmu áður en draumurinn um Vog varð að veruleika, en Binni lítur um öxl; aftur um 40 ár. Saga SÁÁ er merkileg – sigurganga en það gekk sannarlega á ýmsu á upphafsárunum, eins og Jakob Bjarnar Grétarsson fékk að heyra þegar hann hitti Binna. Viðtalið birtist fyrst í SÁÁ blaðinu, 4. tbl. 2012.

Með fleiri flugtíma en flugfreyja

Á þeim tíma kostaði það mikla peninga að fara í meðferð vestur yfir Atlantsála á Freeport. Hilmar Helgason gekk í það að tala við fjölskyldu Binna. Binni átti inni einhvern arf og fjölskyldan samþykkti, fyrir fortölur Hilmars, að setja þessa peninga sem Binni ekki hafði komist í til að eyða í svallið og koma honum þannig út í meðferð. Nokkrum dögum seinna, og þá hafði Binni náttúrlega steingleymt þessu samtali við Hilmar, var hann sóttur af vini sínum. Og ég fór út á Freeport. Var þar í þennan tíma sem var um hálfur mánuður. Meðan ég er í meðferðinni kom Hilmar með Lilla frænda (Ewald Berndsen), sem þá var konungur rónana í Reykjavík, út líka. Við erum þarna tveir frændurnir úti í Freeport saman.

Þegar ég kom heim aftur er Hilmar enn edrú. Ég bjóst ekki við því. Alls ekki. Lilli kom heim skömmu síðar og við allir edrú. Þar byrjar þetta eiginlega. Og nú bregður svo við að það stoppar ekki síminn, því við vorum þekktir drykkjumenn, fjölskyldur hringja og spyrja; hvað getum við gert fyrir þennan og hinn? Strax á næsta ári fórum við að flytja menn út.“

Eitt af mörgu sem gerði þessa vakningu magnaða, þarna fyrir um fjörutíu árum, er að fyrstu Freeport-ararnir voru mest megnis hvítflibbarónar. Blandaður hópur manna úr efri stéttum: Forstjórar, framkvæmdastjórar, alþingismenn, ráðuneytisstjórar… enda meðferðin dýr. Hilmar og Binni stóðu í ströngu við að fylgja mönnum út til New York þar sem Freeport-sjúkrahúsið og meðferðarstofnunin var staðsett. „Ég var á þessu eina og hálfa ári, eða þar um bil, með fleiri flugtíma en flugfreyja. Fór út, held ég, 60 sinnum. Við fylgdum mönnum út í stórum stíl, tveimur, þremur eða fjórum í senn.“

Pages: 1 2 3 4 5