"Enn einn áfanginn í merkilegu starfi SÁÁ"

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýrri meðferðarstöð SÁÁ við athöfn á landi samtakanna að Vík í Kjalarnesi.

Forseti ávarpaði viðstadda fáum orðum og sagði að framkvæmdirnar á Vík yrðu „enn einn áfanginn í því merkilega starfi sem SÁÁ hefur unnið og er enn að vinna í þágu heilbrigðis og betra mannlífs hjá okkur íslendingum.”

Síðan sagði Ólafur Ragnar: “Það hefur verið merkilegt að fá að kynnast því á undanförnum árum í viðræðum við ýmsa erlenda áhrifamenn og sérfræðinga hvernig staða SÁÁ hefur vakið athygli vítt og breitt í þessum alþjóðlega meðferðarheimi; hvernig sú aðferðarfræði og það sjálfboðastarf og sú félagsamtök sem standa á bak við SÁÁ eru öðrum fyrirmynd að því hvernig eigi að glíma við þennan vanda. Þess vegna hef ég lengi talið að við Íslendingar ættum að vera mjög stolt af ykkar frumkvöðlum og ykkar starfi og SÁÁ ætti að hafa og hefur á margan hátt heiðurssess í huga okkar Íslendinga. Það má segja að þegar við horfum til upphafsins þá var það félagskrafturinn þegar einstaklingar víða að úr samfélaginu – þrátt fyrir ágreining í öðrum málum – komu saman í þágu þessa góða málefnis. Það er satt að segja stórmerkilegt að þegar þessar byggingar verða orðnar að veruleika hér á þessum stað þá er allur húsakostur SÁÁ orðinn í húsnæði sem samtökin sjálf reistu. Það hefði þótt merkilegur árangur þegar þessum samtökum var ýtt úr vör. Mig langar líka að vekja athygli á því að SÁÁ hefur líka verið hvatning öðrum samtökum á öðrum sviðum. Saga ykkar er vitnisburður um hvað samtakamáttur fólksins getur sannarlega gert. “

Foretinn lét svo viðstadda hrópa ferfalt húrra fyrir SÁÁ, árangri samtakanna og gæfuríkri framtíð þeirra á komandi árum áður en hann tók fyrstu skóflustungu að nýbyggingunum.

Á þriðjudaginn 26. apríl munu starfsmenn Ístaks hefja jarðvinnu á byggingarsvæðinu. Tilboð í uppsteypu og utanhússfrágang nýbygginga verða opnuð föstudaginn 29. apríl en miðað er við að þeim framkvæmdum ljúki í síðasta lagi 17. janúar 2017. Enn er unnið að innanhússhönnun. Ætlunin er að nýja meðferðarstöðin verði tekin í notkun í október 2017 en þá verða 40 ár liðin frá stofnun SÁÁ. Framkvæmdirnar á Vík munu felast í því að reistar verða 2.730 fermetra nýbyggingar sem verða tengdar rúmlega 800 fermetra húsnæði sem fyrir er á meðferðarstöð SÁÁ á Vík. Um leið verða eldri húsin endurbætt og innréttingar þeirra og votrými endurnýjuð.

Að verkinu loknu verður risin fullkomin, nútímaleg meðferðarstöð þar sem í boði verður meðferð fyrir karla og konur í aðgreindum álmum með stórbættri og fullkominni aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk SÁÁ og er vonast til þess að með þessari uppfærslu og endurnýjun aðstöðunnar skapist forsendur fyrir því að enn betri árangur náist í meðferðinni.

Á nýrri Vík verður hægt að hýsa 61 sjúkling í meðferð í framhaldi af dvöl á sjúkrahúsinu Vogi. Í karlaálmu verða 40 einsmannsherbergi og 21 einsmannsherbergi í kvennaálmu. Einnig verða aðskildar byggingar fyrir matsali, setustofur, fyrirlestra og meðferðarhópa karla og kvenna. Átta herbergi verða sérstaklega útbúin með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða. Ekki er um það að ræða umfang meðferðar á vegum SÁÁ verði aukið með nýju meðferðarstöðinni á Vík. Um leið og hún verður tekin í notkun mun SÁÁ hætta starfsemi á Staðarfelli í Dölum.

„Þessar framkvæmdir eru liður í nauðsynlegri uppfærslu á helbrigðisþjónustu SÁÁ við áfengis- og vímuefnasjúklinga,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. „Við þurfum að hugsa langt fram í tímann og tryggja afkomendum okkar viðunandi aðstöðu fyrir áfengis- og vímuefnameðferð.“

Samningar um fjármögnun liggja fyrir en kostnaður er áætlaður um 920 milljónir króna, en er háður niðurstöðu útboða. THG arkitektar annast hönnun undir stjórn Halldórs Guðmundssonar. Hnit ehf verkfræðistofa annast burðarvirkishönnun og lagna- og loftræstihönnun og VSB verkfræðistofa sér um rafhönnun.

Til gamans má geta þess að næsta miðvikudag, 27. apríl, verða 25 ár liðin frá því fyrsta skóflustungan var tekin meðferðarstöðinni sem SÁÁ tók svo í notkun í desember 1991 á Vík og hefur rekið þar síðan.


Spessi tók meðfylgjandi ljósmyndir