Er stjórnsýslan í pólitískum skollaleik?

Framlög hins opinbera til sjúkrahússins Vogs hafa lækkað um 6% á milli áranna 2018 og 2019 eða um rúmlega 40 mkr. á verðlagi ársins 2019.

Framkvæmdastjórn SÁÁ samþykkti á stjórnarfundi 9. janúar sl. að dregið yrði saman í rekstri meðferðarsviðs SÁÁ með því að fækka innritunum á sjúkrahúsið úr 2200 í 1800, eða um 400 innritanir á ársgrunni.

Þá hefur ekki tekist að fá fjármagn til reksturs göngudeilda SÁÁ og því var göngudeildinni á Akureyri lokað 1. mars.

Þetta gerist þrátt fyrir samþykkt Alþingis um tímabundna viðbótarfjárveitingu á fjárlögum svo hægt yrði að fara í aðgerðir til að stytta biðlista inn á sjúkrahúsið Vog. Engu er líkara en að starfseindir stjórnsýslunnar séu ósamtengdar og stefni í gagnstæðar áttir – séu í raun stjórnlausar. Tregða yfirvalda bitnar svo á fólki með fíknsjúkdóm og aðstandendum þeirra.

Fíkn er sjúkdómur unga fólksins. Meðalaldur sjúklinga á sjúkrahúsinu Vogi er 35 ár og meirihluti þeirra sem þiggur þjónustu frá SÁÁ er ungt fólk. Flestir eiga börn og þeir sem eldri eru eiga barnabörn.

Starf SÁÁ er lykillinn að því að fjölskyldur sem glíma við fíknsjúkdóm hafi greiðan aðgang að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Ef heilbrigðisyfirvöld stefna markvisst að því að draga úr þjónustu SÁÁ þá þarf að segja það upphátt.

Höfundur greinar