Farsæl stefna í meðferðarmálum ber ávöxt

Stærstu tíðindi þessa árs í heilbrigðismálum þjóðarinnar eru fréttirnar af átaki sem gert verður til að útrýma lifrarbólgu C úr íslensku samfélagi. Lyfjafyrirtækið Gilead leggur fram lyf endurgjaldslaust að verðmæti um 10 milljarða króna fyrir alla Íslendinga sem smitaðir eru af lifrarbólgu C-veirunni.

900 lifrarbólgutilfelli greindust á Vogi

Fyrir starfsfólk SÁÁ, sérstaklega læknana á Sjúkrahúsinu Vogi og sjúklinga þeirra, eru þessi tíðindi einkar ánægjuleg. Á Sjúkrahúsinu Vogi hefur í meira en tuttugu ár verið skimað fyrir lifrarbólgu C hjá öllum sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahúsið og hafa sprautað sig með vímuefnum í æð. Frá því þetta verkefni hófst hefur orðið til gagnagrunnur á Vogi um ca. 900 lifrarbólgu C-smitaða einstaklinga. Það er allur þorri þeirra tilfella af lifrarbólgu C sem greinst hefur hér á landi.

Það er einsdæmi í heiminum að næstum allir smitaðir einstaklingar í heilu samfélagi hafi fengið skimun og jafn nákvæma greiningu og raunin er hér. Sú forvarnarþjónusta að skima fyrir lifrarbólgusmiti meðal sprautufíkla hófst hjá SÁÁ að frumkvæði Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi. Þjónustan hefur ávallt verið rekin fyrir eigin reikning SÁÁ og kostuð með sjálfsaflafé samtakanna, þar á meðal greining blóðsýna á rannsóknarstofu Landspítalans.

Skimun SÁÁ í 20 ár forsenda Gilead-verkefnisins

Það er þess vegna ánægjulegt fyrir velunnara SÁÁ að öll sú vinna sem Þórarinn Tyrfingsson og samstarfsfólk hans hefur lagt fram við nákvæmnisskráningu og læknisþjónustu í þágu þessa verkefnis er í dag orðin forsenda þeirrar rausnarlegu aðkomu lyfjafyrirtækisins Gilead að íslenskum heilbrigðismálum, sem nefnd var að ofan. Greining og skráning upplýsinga um þennan sjúklingahóp í gagnagrunninn á Vogi hefur búið til þá þekkingu og lagt til þær upplýsingar sem leggja grundvöll að rannsóknunum sem unnar verða af meltingarlæknum Landspítalans í tengslum við Gilead-verkefnið.

Lifrarbólga C er umfram allt sjúkdómur þeirra sem sprauta sig með vímuefnum. Veiran breiðist út vegna þess að margir vímuefnaneytendur nota sömu nálina. Um 70% allra, sem sprauta sig reglulega í æð hérlendis, smitast af lifrarbólgu C innan árs frá því að þeir hófu neyslu sína. Sjúkdómurinn getur verið einkennalaus árum saman og það skiptir miklu að greina hann sem fyrst því að við vitneskju um smit breyta nánast allir virkir vímuefnaneytendur neysluhegðun sinni og hætta að deila nál með neyslufélögum sem ekki eru smitaðir. Þessi hópur sjúklinga er jaðarhópur í samfélaginu. Hópurinn á sér fáa formælendur í opinberri umræðu og fulltrúum hans hefur ekki verið boðið í fjölmiðlaviðtöl til að ræða um Gilead-verkefnið.

Órjúfanleg tengsl við starf SÁÁ frá 1984

Í ljósi alls þessa finnst mér rétt að halda því til haga að þetta merkasta framfaramál í íslenskum heilbrigðismálum á árinu 2015 er með órjúfanlegum hætti tengt þeirri séríslensku leið í heilbrigðismálum sem farin hefur verið við meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga. Sú vegferð hófst árið 1984 þegar SÁÁ var veitt rekstrarleyfi fyrir Sjúkrahúsinu Vogi. Með því starfsleyfi var mörkuð ný stefna í áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi og vísindaviðmiðin í meðferðinni breyttust frá því sem áður var. Þarna varð til ný heilbrigðisstofnun á Íslandi sem uppfyllti gæða- og öryggiskröfur heilbrigðisráðuneytis og landlæknisembættis og gat sinnt mismunagreiningum og fylgikvillum áfengis- og vímuefnasjúklinganna á ásættanlegan hátt að mati heilbrigðisyfirvalda.
Með tilkomu Sjúkrahússins Vogs og annarra meðferðarstofnana SÁÁ og rekstri þeirra skipuðu Íslendingar meðferðarmálum áfengis- og vímuefnasjúklinga með öðrum hætti en aðrar þjóðir á Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu.

2,6 milljarðar til að greiða niður meðferð frá 1996

Áður en Sjúkrahúsið Vogur kom til sögunnar höfðu áfengis- og vímuefnasjúklingarnir fyrst þurft að leita sér heilbrigðisþjónustu inn á geðdeildir eða almennar deildir sjúkrahúsa vegna líkamlegra fylgikvilla og geðrænna orsaka stjórnlausrar neyslu. Frá tilkomu Sjúkrahússins Vogs hefur íslenska ríkið greitt kostnað við sérhæfða meðferð SÁÁ fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga að ákveðnu marki. SÁÁ hefur aflað fjár til að leggja inn í meðferðina svo að hægt sé að bjóða þessum hópi sjúklinga betri þjónustu en þá grunnþjónustu sem ríkið hefur viljað tryggja. Samtökin taka ekki fé út úr rekstrinum heldur snýst starf þeirra um að afla fjár til að niðurgreiða meðferð og heilbrigðisþjónustu fyrir sjúklingahópinn. Frá árinu 1996 hefur SÁÁ safnað og lagt 2,6 milljarða króna að núvirði af söfnunarfé af mörkum til þess að kosta meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga á stofnunum samtakanna. Sú tala sést í reikningshaldi sjúkrareksturs samtakanna sem er endurskoðað af Ríkisendurskoðun.

Farsæl, séríslensk leið

Þegar litið er yfir farinn veg blasir við að sú leið sem farin hefur verið í heilbrigðisþjónustu við áfengis- og vímuefnaneytendur hér á landi og er frábrugðin því sem tíðkast í okkar helstu samanburðarlöndum hefur reynst ákaflega farsæl fyrir íslensku þjóðina. Með henni voru áfengis- og vímuefnasjúklingum opnaðar stórar dyr inn í íslenska heilbrigðiskerfið þar sem vanda þeirra er sinnt sérstaklega og reynt að stöðva vímuefnaneysluna. Með þeirri stefnu og með óeigingjörnu hugsjónastarfi Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi, hefur meðal annars verið lagður grundvöllur að því að nú gera menn sér raunhæfar vonir um að íslenskt samfélag verði orðið laust við þennan skæða smitsjúkdóm, lifrarbólgu C, innan tveggja til þriggja ára.


Þessi grein Arnþórs Jónssonar, formanns SÁÁ, birtist fyrst í Morgunblaðinu, 28. desember 2015.

Höfundur greinar