Fékk vængi arnarins

Spessi Hallbjörnsson ljósmyndari, sem tók flestar myndirnar í síðasta SÁÁ-blaðinu og raunar einnig flestar myndirnar hér á saa.is, var næstyngstur í fyrstu með­ferðinni sem hann fór í árið 1981. Nú er hann orðinn sextugur, búinn að vera edrú í þrjátíu ár og stefnir á að fá svart belti í Tae Kwan Do á næstu árum. Hann sagði okkur söguna sína í eftirfarandi viðtali sem var birt í SÁÁ blaðinu 1. tbl. 2016.

„Ég ólst upp á Ísafirði hjá afa mínum og ömmu sem voru fátækt fólk. Þau hugsuðu eins vel um mig og þau gátu. Þau unnu láglaunastörf og bjuggu í bæjarhúsum. Ég var í tossabekk sem var kallaður Ljónagryfjan. Sumir þar voru 1-2 árum eldri og voru sendir í sama bekkinn aftur og aftur þangað til þeir hættu og fóru á sjóinn. Þeir voru örugglega með lesblindu og mundu fá aðstoð í dag. Ég var áreiðanlega ofvirkur.

Ég var 13 ára þegar ég drakk fyrst og ég upplifði þvílíka hamingju. Ég hef heyrt mann lýsa því að þegar hann fann á sér í fyrsta skipti hafi hann breyst úr því að vera önd í það að vera örn sem tók flugið. Mér leið þannig. Ég ákvað að þetta vildi ég gera aftur eins fljótt og hægt var og það gerði ég.

Vinir mínir vildu ekki drekka eins mikið og ég og þá drakk ég með eldri félögum. Ég var 13 ára en þeir 15, höfðu verið í Ljónagryfjunni en voru farnir á sjóinn. Eitt vorið þegar ég var í fjórða bekk í Gaggó komu þeir af vertíð og buðu mér á fyllerí og ég fór með þeim til Færeyja. Það var í fyrsta skipti sem ég klúðraði einhverju í lífinu beinlínis vegna drykkjunnar, ég hætti í skólanum í miðjum prófunum. Þar með var ég búinn að slíta barnsskónum og alvara lífsins tók við. Í á annað ár þvældist ég um landið, vann til dæmis á Keflavíkurflugvelli og var á sjó í Keflavík, en flutti fljótlega til Reykjavíkur og hef ekki búið á Ísafirði síðan ég var tvítugur.

Drykkjan hafði komið mér í alls konar vandræði en þegar ég byrjaði að reykja hass um tvítugt slaknaði á mér og ég hætti að lenda í veseni. Fljótlega var allt lífið litað af vímuefnaneyslunni og ég lenti aftur í veseni og fíkniefnalögreglunni. Það voru alltaf einhverjir erfiðleikar og eini framtíðardraumurinn var kannski að flytja á strönd á Indlandi og lifa þar sjálfbæru, „stónd“ lífi. En ég komst aldrei þangað. Einn daginn eftir mikið sukk og niðurbrot í kjölfar þess sagði vinur minn mér frá því að pabbi sinn hefði farið í meðferð. Ég hafði ekki heyrt um það áður og þekkti engan sem hafði farið í meðferð svo ég fór og talaði við þennan pabba vinar míns. Hann benti mér á að ég skyldi fara í meðferð og stunda svo fundi. Og ég gerði það, fór fyrst á Silungapoll og svo á Staðarfell.“

Fékk vængi arnarins

„Þetta var 1981 og það fóru fáir í meðferð 25 ára gamlir á þeim tíma. Þarna var einn aðeins yngri en ég og svo eldri menn. Eftir meðferðina gekk mér ekki vel að fóta mig. Mér fannst ömurlegt að vera edrú og sá enga framtíð í því. Ég datt nokkrum sinnum í það aftur, var mikið í viðtölum hjá SÁÁ og fór í aðra heila meðferð á Vogi og Sogni. Þannig gekk þetta í fimm ár. Ég varð ekki edrú fyrr en ég fékk augnabliksuppljómun eða það sem kallað er „moment of clarity“, 1. júní 1986 þegar ég sá þetta líf ljóslifandi fyrir mér eins og það var í öllum sínum ömurleika. Það fannst mér skelfileg tilhugsun og ég gat ekki lifað svona lengur og gafst upp.

Þarna urðu kaflaskipti og lífið fór allt að gerast. Ég fór ekki aftur í meðferð heldur fór ég að vinna prógrammið. Sjóndeildarhringurinn opnaðist og það fór að birta til framundan. Ég fór að trúa því að kannski gæti lífið orðið fínt edrú. Ég fékk vængi arnarins án þess að þurfa hjálp frá efnum til þess.“

[learn_more caption=“Í Ameríku“]Áróra Gústafsdóttir, Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson) og Saga Sigurþórsdóttir í borginni í New Orleans í Bandaríkjunum fáum árum eftir að fellibylurinn Katrína lagði borgina í rúst. Á myndinni til hægri er Spessi í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna á Chopper-hólinu sem hann lét sérsmíða fyrir sig í Las Vegas.

„Ég kynntist Áróru, konunni minni, 1999. Um það leyti ætluðum við þrír félagarnir að kaupa saman gamalt frystihús í Kópavog en einn hætti við og hún ákvað að kaupa hans hlut. Þannig að við ákváðum að kaupa saman frystihús þegar við vorum búin að þekkjast í þrjá mánuði. Hún átti þrjú börn og hana vantaði íbúð og við ætluðum að gera tvær íbúðir í frystihúsinu og búa þar í sitthvoru lagi. En svo sáum við að við hefðum ekki efni á að búa til nema eina íbúð og ákváðum þá að gera þetta saman. Ég var búinn að lifa bóhemlífi alla mína ævi en þarna bankaði ábyrgðin upp á. Við eignuðumst dóttur saman 2002. Lífið og edrúmennskan hefur fært mér svo miklu meira en ég átti von á. Gjafir lífsins hafa verið alveg ótrúlegar.“[/learn_more]

Ljósmyndunin var fyrst áhugamál

„Ég hafði byrjað að taka ljósmyndir þegar ég var 10 ára, átti þá 6×6 format-A kassamyndavél. Ég nálgaðist myndatökur strax eins og ljósmyndari, kláraði filmuna í einni töku og beið spenntur eftir að hún kæmi úr framköllun að sunnan eftir þrjár vikur. 1980- 1981 bjó ég í Kaupmannahöfn og þá keypti ég mér notaða, vandaða myndavél fyrir atvinnumenn. Vinur minn kenndi mér á hana og ég var fljótur að skilja hvernig myndavél virkaði og tók strax fínar myndir. Þegar ég kom heim til Íslands fór ég í ljósmyndaklúbb og fór að framkalla filmur og stækka myndir og ljósmyndun varð hobbí en ég hafði ekki nógu mikið sjálfstraust til að ákveða að verða ljósmyndari og fara til útlanda að læra. En ég fór í Iðnskólann og lærði offsetljósmyndun, sem er prentiðn en byggist á sömu lógík og ljósmyndun. Strax eftir sveinsprófið fór ég í skóla til Hollands að læra ljósmyndun. Þar gekk mér mjög vel, var edrú og stundaði prógrammið stíft þótt ég væri innan um mikið sukk og hægt væri að kaupa jónur í sjoppunni á næsta horni.“

Gerði ljósmyndunina að myndlist

„Sumarið eftir að skólanum lauk kom ég heim og þá var Pressan að leita að ljósmyndara. Ég fékk starfið þótt ég væri óreyndur. Mér gekk vel á Pressunni, var eini ljósmyndarinn, hafði heilt blað fyrir mig og vann verðlaun á sýningu Blaðaljósmyndara tvö ár í röð. Ég var hluti af nýrri ritstjórn með Gunnari Smára og fleirum sem breyttu Pressunni mikið þannig að hún fór að seljast í bílförmum. Ég tók líka myndir á plötuumslög  fyrir Rabba Jóns heitinn og fyrir Ný dönsk og Sálina hans Jóns míns og fleiri hljómsveitir.

En þrátt fyrir velgengni í ljósmynduninni var ég ekki ánægður og langaði að gera mína ljósmyndun að meiri myndlist í stað þess að taka bara myndir fyrir aðra. Þess vegna ákvað ég að fara aftur í nám til Hollands og komst inn í skóla sem heitir AKI í Enschede og er listaháskóli en ekki ljósmyndaskóli. Eftir tvo mánuði í skólanum hélt ég stóra einkasýningu í leikfimisal og þá sáu menn að ég þyrfti ekki að vera þarna lengur en í eitt ár og fór beint á lokaárið, gerði útskriftarverkefni og kom heim með BFA gráðu, búinn að fá betri grunn í myndlist en ég hafði áður eins og ég ætlaði mér.

Fyrsta concept-verkið sem ég gerði hét Hetjur. Þá tók ég ljósmyndir af sjómönnum og verkafólki frá Ísafirði. Bærinn lánaði mér gamla sjúkrahúsið fyrir stúdíó og ég hélt svo sýningu í Tjöruhúsinu sem fékk góðar undirtektir og mikla aðsókn. Mesta velgengnin fylgdi verkefni sem ég vann 1997-1998 og heitir Bensín. Þá myndaði ég allar bensínstöðvar á landinu og skrásetti þannig tímabil sem spannar mannlíf og arkitektúr í 50 ár. Ég fór með Bensín til New York og hélt sýningu í galleríi sem fékk fína umfjöllun í New York Times. Ég hef alltaf verið leitandi sem ljósmyndari og vinn mest í þeim verkefnum sem mig langar til að vinna en ég vinn líka fyrir aðra, til dæmis tek ég oft myndir fyrir SÁÁ. Ég hef alltaf verið þakklátur fyrir SÁÁ, sem var til staðar fyrir mig á sínum tíma og mér finnst gott að að vita af því starfi í þjóðfélaginu.“

Spessi_February 03, 2016168B9961-00008[learn_more caption=“Hrikti í réttlætiskenndinni“] Spessi nýtir lyftu í húsinu á Köllunarklettsvegi þar sem hann er með aðstöðu fyrir stúdíó og smellti þar af sjálfsmynd enda tekur hann flestar myndir í þessu blaði eins og oft áður í SÁÁ blaðinu. Hann varð sextugur 17. febrúar og hélt upp á afmælið með því að fara í skíðaferð með fjölskyldunni til Austurríkis. Næsta markmið er að fara úr brúnu belti í svart í Tae Kwan Do sem Spessi hefur stundað síðustu ár til að halda sér í formi. Spessi komst nýlega í fréttirnar þegar hann var fremstur í flokki þeirra sem mótmæltu Borgunarmálinu í anddyri Landsbankans í Austurstræti: „Mér svíður undan þessu óréttlæti – ég var að fylgjast með fréttum af þessu Borgunarmáli og ég upplifði að það væri verið að ræna okkur um miðjan dag fyrir opnum tjöldum,“ segir hann um það mál. „Ég var svolítið aktífur í búsáhaldabyltingunni og mér svíður svo undan þessari spillingu. Það hriktir bara í réttlætiskenndinni og ég get ekki setið kyrr.“ [/learn_more]

Höfundur greinar