Núvitund/mindfulness

Núvitundarleiðsögnin fer fram á föstudögum í salnum á 1. hæð.
Hún hefst kl. 12.10 og stendur til kl.12.50.

asdis

SÁÁ býður upp á núvitundarleiðsögn með Ásdísi Olsen í hádeginu á föstudögum í Von, Efstaleiti 7, Reykjavík. Tímarnir eru öllum opnir og ókeypis og henta bæði þeim sem eru að byrja að hugleiða og lengra komnum.

Þjálfa hamingjusvæðin í heilanum!

Megintilgangurinn með núvitundarþjálfun er að þjálfa heilann (Brain Training) – þjálfa athyglina, sem hefur tilhneigingu til að elta hugsanir okkar út og suður. Með leiðsögn tekst okkur að stýra athyglinni frá huganum, að okkar innra lífi, að upplifun okkar á líðandi stund. Þar er margt í boðið sem við erum oft ekki meðvituð, eins og tilfinningar, innsæi, flæði, skynjun, líkamsvitund, náttúrutenging, samkennd og hamingjan. Með þessu erum við í raun að styrkja “hamingjusvæðin” í heilanum. Við fáum einnig fjarlægð á hugsanir okkar og áttum okkur á hugsanaskekkjum og óskynsamlegum hugsunum sem þjóna okkur ekki, áttum okkur á að hugarheimur okkar er mótaður af uppeldi, viðhorfum og félagsmótun sem samræmast ekki okkar eigin gildum. Það getur verið merkileg upplifun og opinberun að fá að fylgjast með huganum án þess að vera á valdi hans og fá skýra mynd af hugsunum og viðhorfum sem koma að litlu gagni og geta hreinlega verið skaðlegar og íþyngjandi.

Í hverjum tíma er eitt meginþema, sem dæmi að temja athyglina og auka hugarró, að staldra við þakklæti, að skoða viðhorf sem valda áhyggjum og streitu, að finna kærleikstilfinningar og samkennd o.s.frv.

Ásdís Olsen

Ásdís (BEd., MA) er með kennararéttindi í núvitund frá Bangor háskóla. Hún er reyndur háskólakennari og hefur það að aðalstarfi að kenna Íslendingum núvitund. Ásdís hefur sérhæft sig í aðferðum til að aukja hamingju, vellíðan og sátt í lífi og starfi. Hún starfrækir Mindfulness miðstöðina, mindful.is, þar sem hún veitir einstaklingum og fyrirtækjum ýmsa þjónustu sem tengd er kennslu í mindfulness ásamt samstarfsfólki sínu.