Fíkn er heilasjúkdómur

Raunvísindi og náttúruuvísindi geta oft sagt okkur frá því hvernig eitthvað hefur gerst en þau eru ekki eins góð í að segja til um hversvegna. Það er mannlegt að vilja vita hversvegna eitthvað gerist og oft er erfitt að sætta sig við svarleysið gagnvart djúphugsuðum spurningum um lífið og tilveruna. Það er meira að segja vel hugsanlegt að ekkert hversvegna sé til? Vísindin draga a.m.k. ekki kanínur fyrirvarlaust upp úr hatti.

Læknisfræði eða patentlausnir

Á síðustu árum hefur margt breyst í áfengis- og vímuefnamálum. Tilgátan um að fíkn sé krónískur læknisfræðilegur sjúkdómur eins og hjartasjúkdómar og sykursýki hefur náð viðurkenningu. Fíkn á sér meinalífeðlisfræðilegar skýringar, hún er heilasjúkdómur sem stjórnast af erfðafræðilegum og umhverfistengdum áhrifavöldum, kemur fram hvenær sem er á ævinni, einkennist af verri og betri tímabilum, veldur verulegri sjúkdóma- og dánartíðni og hana er hægt að meðhöndla með góðum árangri.

Það er útaf fyrir sig skiljanlegt, að á meðan vísindasamfélagið var ekki einhuga í afstöðu sinni til fíknar sem læknsfræðilegs sjúkdóms, risu upp og hurfu ýmsar meðferðarstofnanir sem töldu sig hafa fundið snjalla lausn á flóknum heilbrigðisvanda. Margar misvelheppnaðar tilraunir á meðferðarformi voru gerðar. Kanínur voru fyrirvarlaust dregnar upp úr hatti og áttu að leysa hvers manns vanda. Sumar tilraunirnar skiluðu engu og aðrar enduðu sem alræmd sakamál og dómsmál.

Orsök og afleiðing

“Orsök hegðunar leiðir einfaldlega til hennar, óháð því hvort hægt sé að réttlæta hegðunina með orsökinni. Gerandi þekkir ekki alltaf orsakir hegðunar sinnar. “ segir í frjálsa alfræðiritinu Wikipedia.

Síðustu misseri hefur mikið verið rætt um fíknmeðferð fyrir konur og settar hafa verið fram hugmyndir um að fíknsjúkdómur kvenna sé afleiðing áfalla og ofbeldis sem konur hafa orðið fyrir og þess vegna eigi meðferð við áfallastreituröskun að koma í stað fíknlækninga.

Í frétt á visir.is var nýlega sagt frá því 80% kvenna á Íslandi upplifi sig óöruggar í miðborg Reykjavíkur og ennfremur að 95 prósent kvenna í Nýju Delí á Indlandi finnst þær ekki öruggar á götum úti. Fullyrt er að ofbeldi gegn konum og stúlkum sé heimsfaraldur. Ekki vil ég gera lítið úr því. Enda verður málið þeim mun alvarlegra ef í ljós kemur að allar þessar konur eigi eftir að þjást af krónískum læknisfræðilegum sjúkdómi ef marka má kenningar um að fíknsjúkdómur kvenna sé bein afleiðing áfalla og ofbeldis.

Kvennameðferð – 20 ára reynsla

Í umræðu um kvennameðferð hefur framkvæmd afeitrunar á sjúkrahúsinu Vogi verið gagnrýnd fyrir að vera ekki kynjaskipt en á sama tíma horft framhjá því að SÁÁ hefur rekið sérstaka kvennameðferð á Vík í bráðum 20 ár.

5% af öllum konum landsins komnar yfir þrítugt hafa komið til meðferðar á sjúkrahúsið Vog. 30% sjúklinganna á Vogi eru konur. Á 37 árum hafa um 7000 konur komið alls um 20.000 sinnum í afeitrun og meðferð til SÁÁ. Dæmi um eina konu, eða um tíu, eða um sextíu konur í meðferð, þarf ekki að vera hin dæmigerða kona í meðferð.

Allar konur sem fara í inniliggjandi framhaldsmeðferð fara í sérstaka kvennameðferð. Þær eru á aldrinum 14 til 80 ára. Bakgrunnur þeirra, neysla og afleiðingar neyslunnar eru mismunandi. Undirliggjandi sjúkdómar, félagsleg staða og aðsteðjandi vandamál eru mismunandi. Læknisfræðin telur mikilvægast að þessar konur fái góða áfengis- og vímuefnameðferð í upphafi. Án meðferðar verður erfitt að ná viðunandi jafnvægi – andlegum og líkamlegum styrk til að geta hafist handa við önnur verkefni.

Fordómar og hindranir

Konur í áfengismeðferð sæta miklum fordómum og fá að jafnaði mun minni stuðning að heiman en karlarnir. Hindranir sem koma í veg fyrir að þær telji rétt að leita sér læknisfræðilegrar aðstoðar eru alvarleg ógn við heilsu þeirra og lífsgæði.

Valgerður Rúnarsdóttir, sérfræðilæknir í fíknlækningum á Vogi, skrifaði pistil á vef SÁÁ og sagði:

“Ég vona að þessi umræða öll verði ekki til þess að draga kjarkinn úr þeim konum sem þurfa að koma í áfengis- og vímuefnameðferð, þar sem þær eru kannski heima, að missa af tækifærum í lífinu, fjarlægjast tilfinningalega börnin sín eða foreldra eða maka, einangrast og tapa kjarki, bæta við vandamálin með hverjum neysludegi, finna ekki kraftinn og sjálfstraustið, eða tapa heilsu.”

Á sama tíma og nauðsynlegt er að varðveita fagmennsku og þekkingu og reynslu sem hefur orðið til á löngum tíma er auðvitað jafnmikilvægt fyrir SÁÁ að stunda stöðuga sjálfsrannsókn svo þjónustan staðni ekki eða drabbist niður í doða og vanafestu. Best er að gera hvort tveggja jöfnum höndum.

Höfundur greinar