Fjölmenn og velheppnuð Nágrannaheimsókn Velferðarsviðs

Fjölmennur hópur starfsfólks frá Velferðarsviði Reykjavíkur, með Stefán Eiríksson sviðsstjóra í broddi fylkingar, heimsótti SÁÁ í dag, kynnti sér starfsemi samtakanna, snæddi hádegisverð í boði SÁÁ og ræddi málin.

Velferðarsviðið hefur nýlega opnað Þjónustumiðstöð Laugardals- og Háaleitis í Efstaleiti 1, sem er svo að segja í næsta húsi við Von, hús SÁÁ, Efstaleiti 7 en þar eru göngudeild SÁÁ í Reykjavík og skrifstofa samtakanna til húsa. Í tilefni af þessu og vegna þess að starfsfólk SÁÁ og velferðarsviðs á samstarf og samskipti á ýmsum sviðum bauð SÁÁ til þessarar Nágrannaheimsóknar.

Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri meðferðarsviðs SÁÁ, kynnti gestunum afeitrun og aðra heilbrigðisþjónustu sem veitt er á Sjúkrahúsinu Vogi, Valgerður Rúnarsdóttir, sérfræðilæknir í fíknilækningum, fjallaði um eftirmeðferð á vegum SÁÁ á Vík og Staðarfelli, Hjalti Björnsson, dagskrárstjóri á Sjúkrahúsinu Vogi, gerði grein fyrir göngudeildarþjónustu og sambýlisrekstri samtakanna og Ása Margrét Sigurjónsdóttir, sálfræðingur SÁÁ, fjallaði um fjölskyldu- og sálfræðiþjónusta SÁÁ fyrir börn alkóhólista.

„Þetta var ánægjuleg heimsókn og heppnaðist ákaflega vel að mínu mati. Það er mikilvægt fyrir okkur að fá að hitta svo margt af starfsfólki Velferðarsviðs Reykjavíkur,“ segir Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, sem var gestgjafi. „Margt af okkar starfsfólki sinnir verkefnum sem tengjast starfsemi Velferðarsviðsins beint eða óbeint. Það skiptir okkur máli að styrkja og efla tengsl og samskipti við alla okkar samstarfsaðila.“