Fjölmenni á fundi SÁÁ í Fjallabyggð

Um 100 manns mættu á velheppnaðan borgarafund SÁÁ sem haldinn var í menningarhúsinu Tjarnarborg á Ólafsfirði 2. febrúar.

Fundurinn var liður í fundaherferð SÁÁ um landið en markmið hennar er að kynna fólki um land allt þjónustu samtakanna og efla um leið tengsl SÁÁ við landsbyggðina.

Áður hafa fimm fundir verið haldnir víða um land og næsti fundur verður í Árborg á næstu vikum.

Dagskrá fundarins var þannig að Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, flutti fyrirlestur og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, las úr verkum sínum kafla sem tengjast alkóhólisma. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, hélt ræðu og spilaði síðan nokkur lög á selló við undirleik Ave Kara Tonisson, píanóleikara. Kristín Sigurjónsdóttir á Siglufirði tók líka til máls og sagði frá reynslu sinni af sjúkdómnum og þjónustu SÁÁ.

Rúnar Freyr Gíslason, leikari og verkefnisstjóri hjá SÁÁ, var fundarstjóri og tók líka lagið í lok fundar.

Mikil gleði og ánægja einkenndi fundinn og sköpuðust líflegar umræður eftir að fulltrúar SÁÁ höfðu flutt sín atriði í tali og tónum.

Næsti fundur SÁÁ á landsbyggðinni verður haldinn í Árborg á næstu vikum.

Áður hafa fundir verið haldnir á Ísafirði, Vestmannaeyjum, Eskifirði, Egilsstöðum og Akureyri.