Fólk deyr á biðlista

Heilbrigðisráðuneytið hefur fækkað sjúkrarúmum sem ætluð eru áfengis- og vímuefnasjúklingum til meðferðar úr 265 þegar mest var í lok árs 1985, niður í 62 rúm. Enginn virðist skilja af hverju það var gert eða muna hver bað um niðurskurðinn. Samt var það gert vitandi vits.

Frá árinu 1984 hefur geðdeild Landspítalans stöðugt fækkað meðferðarrúmum fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Víðines hætti hlutverki sínu sem áfengismeðferðarstofnun um og eftir 1985. Vífilsstaðir lokuðu 1995, Teigur lokaði 2000 og Gunnarsholti var lokað 2003.

Eftir hrun hætti Heilbrigðisráðuneytið að greiða fyrir húsnæðis- og fæðiskostnað í eftirmeðferð SÁÁ og breytti meðferðinni þar í göngudeild eða dagdeild. Þannig fækkaði sjúkrarúmum sem heilbrigðisyfirvöld greiða fyrir hjá SÁÁ um 60. Með þjónustusamningi í desember 2014 um sjúkrahúsið Vog var sjúkrarúmum þar fækkað um 18. Frá hruni hefur leguplássum sem heilbrigðisyfirvöld greiða fyrir hjá SÁÁ fækkað um 78.

Samningur um sjúkrahúsið Vog er svo naumt skammtaður frá hendi ríkisins að segja má að SÁÁ hafi afhent allan sinn hluta samningsins fyrir miðjan september ár hvert. Það sem eftir lifir almanaksársins er lífsbjargandi þjónustan á Vogi í boði SÁÁ, álfasölufólks og annarra velunnara samtakanna. Ekki vantar háa peningaupphæð svo hægt sé að klára árið. Örfáir aðstoðarmenn ráðherra í núverandi ríkisstjórn taka til sín hærri upphæð svo dæmi sé nefnt.

Allur þessi niðurskurður er í hróplegri mótsögn við þjónustuþörfina. Áfengis- og vímuefnaneysla fer vaxandi og biðlistar inn á sjúkrahúsið Vog eru lengri en nokkru sinni áður. Meðalaldur þeirra sem leita sér meðferðar er 35 ár! Í dag bíða 5-600 manns eftir meðferð.

Biðlisti inn á Vog er í eðli sínu mjög líkur biðlista inn á bráðamóttöku. Fólk deyr á þessum biðlista. Aðstandendur og fjölskyldur eru eins og föst í álögum og bíða líka. Vinnustundir tapast með tilheyrandi afkomukvíða, áföllum og félagslegum afleiðingum. Álag og kostnaður í öðrum miklu dýrari kerfum heilbrigðis- og félagsþjónustu eykst. Hér er verið að kasta krónunum og hirða aurana. Hver vill bera ábyrgð á þessu?

Sjúkdómur fíknar einkennist af stjórnleysi. Hann er án efa hættulegasti sjúkdómur ungs fólks á Íslandi í dag. Sú staðreynd blasir við okkur í endurteknum hörmungarfréttum af ótímabærum dauða fjölda vímuefnasjúklinga. Það er kominn tími til að tengja. Hér vantar meiri og betri þjónustu. Það sjá það allir.

AJ

Sjá einnig pistil eftir Þórarin Tyrfingsson frá 2015