Forsætisráðherra heimsækir Vík á Kjalarnesi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður hennar, heimsóttu nýja meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi síðastliðinn föstudag. Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs, kynnti fyrir þeim umfangsmikla starfsemi SÁÁ og greindi frá framtíðarsýn samtakanna.

Að sögn Arnþórs Jónssonar, formanns SÁÁ, er þörf fyrir miklu meiri heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm en veitt er með núverandi framlögum ríkisins og SÁÁ. Fíknsjúkdómurinn er alvarlegur og dýr og krefst miklu meira opinbers fjármagns til heilbrigðisþjónustu og samþættrar félags- og heilbrigðisþjónustu. SÁÁ óskar eftir samtali við stjórnvöld um stefnumótun til framtíðar í þessum málaflokki áður en fjármálaáætlun næstu ára lokar okkur endanlega inni í fjársvelti og varanlegum niðurskurði.

Efsta röð, talið frá vinstri: Ingunn Hansdóttir, Ásgrímur G. Jörundsson, Ásgerður Björnsdóttir, Páll Geir Bjarnason, Kolbrún Ósk Svansdóttir, Lísa Kristjánsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir og Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir.