Forseti Íslands tekur fyrstu skóflustungu að Vík í dag

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, mun taka fyrstu skóflustunguna að nýrri meðferðarstöð SÁÁ við athöfn sem fram fer á landi samtakanna að Vík í Kjalarnesi kl. 14 í dag, föstudaginn 22. apríl.

Í framhaldi af því mun jarðvinna hefjast við verkið, tilboð í uppsteypu og utanhússfrágang nýbygginga verða opnuð föstudaginn 29. apríl en miðað er við að þeim framkvæmdum ljúki í síðasta lagi 17. janúar 2017. Unnið er að innanhússhönnun.

Framkvæmdirnar á Vík munu felast í því að reistar verða 2.730 fermetra nýbyggingar sem verða tengdar rúmlega 800 fermetra húsnæði sem fyrir er á meðferðarstöð SÁÁ á Vík. Um leið verða eldri húsin endurbætt og innréttingar þeirra og votrými endurnýjuð.

Að verkinu loknu verður risin fullkomin, nútímaleg meðferðarstöð þar sem í boði verður meðferð fyrir karla og konur í aðgreindum álmum með stórbættri og fullkominni aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk SÁÁ og er vonast til þess að með þessari uppfærslu og endurnýjun aðstöðunnar skapist forsendur fyrir því að enn betri árangur náist í meðferðinni.

Á nýrri Vík verður hægt að hýsa 61 sjúkling í meðferð í framhaldi af dvöl á sjúkrahúsinu Vogi. Í karlaálmu verða 40 einsmannsherbergi og 21 einsmannsherbergi í kvennaálmu. Einnig verða aðskildar byggingar fyrir matsali, setustofur, fyrirlestra og meðferðarhópa karla og kvenna. Átta herbergi verða sérstaklega útbúin með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða. Ekki er um það að ræða umfang meðferðar á vegum SÁÁ verði aukið með nýju meðferðarstöðinni á Vík. Um leið og hún verður tekin í notkun mun SÁÁ hætta starfsemi á Staðarfelli í Dölum en þar hefur verið starfrækt meðferðarstöð í húsnæði gamla húsmæðraskólans frá árinu 1980.

„Þessar framkvæmdir eru liður í nauðsynlegri uppfærslu á helbrigðisþjónustu SÁÁ við áfengis- og vímuefnasjúklinga,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. „Við þurfum að hugsa langt fram í tímann og tryggja afkomendum okkar viðunandi aðstöðu fyrir áfengis- og vímuefnameðferð.“

Theodór S. Halldórsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri SÁÁ er formaður bygginganefndar framkvæmdastjórnar SÁÁ. Áætlaður byggingakostnaður við framkvæmdirnar er um 920 milljónir króna en endanlegt kostnaðarverð er háð útboðum. Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, hefur stýrt undirbúningi að fjármögnun í samstarfi við fjármálastofnanir og liggja samningar um fjármögnun fyrir.

Hér með fréttinni er loftmynd af Vík með Esjuna í baksýn, handan Vesturlandsvegar. Einnig fylgja útlitsteikniningar THG arkitekta en þar leiðir Halldór Guðmundsson leiðir hóp arkitekta sem unnið hafa við hönnun húsanna. Hnit ehf verkfræðistofa annast burðarvirkishönnun og lagna- og loftræstihönnun og VSB verkfræðistofa sér um rafhönnun. Myndirnar sjást stærri ef smellt er á þær.