Forysta SÁÁ einróma endurkjörin á aðalfundi

Arnþór Jónsson var einróma endurkjörinn formaður SÁÁ, á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sem haldinn var í framhaldi af aðalfundi samtakanna þann 2. júní. Um sextíu manns sóttu fundinn.

48 manna stjórn samtakanna starfsárið 2016-2017 er skipuð 25 körlum og 23 konum sem eru óbreytt kynjahlutföll frá því í fyrra en einungis urðu tvær breytingar á stjórninni milli ára. Á hverjum aðalfundi eru sextán stjórnarmenn kosnir til þriggja ára í senn. Tillögur um sextán stjórnarmenn til næstu þriggja ára voru samþykktar án mótframboðs. Ein breyting varð á níu manna framkvæmdastjórn samtakanna, sem kosin var á fyrsta stjórnarfundi, strax að loknum aðalfundi; Einar Hermannsson tekur sæti Maríusar H. Óskarssonar.

Störf aðalfundarins voru eins og kveðið er á um í lögum SÁÁ. Arnþór Jónsson, flutti skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár og rakti meðal annars viðamiklar framkvæmdir sem nú eru farnar af stað við Vík á Kjalarnesi, ágreining samtakanna við Sjúkratrygginga Íslands vegna rekstrar göngudeildar, sem nú er til meðferðar fyrir héraðsdómi, viðamikil samskipti við stjórnvöld fyrir hönd SÁÁ og þátttöku samtakanna í lifrarbólguverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead , auk viðburðaríks félagsstarfs.

Þórarinn Tyrfingsson flutti ársskýrslu meðferðarsviðs og ræddi meðal annars umræðu sem orðið hafa um lyfið suboxone í íslenskum fangelsum. Þórarinn sagði að suboxone, sem er lyf notað við viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn væri blanda buprenorphine og naloxone, en sú blanda kemur í veg fyrir að hægt sé að sprauta lyfinu í æð. Þetta sé ekki venjulegt morfínlyf, því ekki sé hægt að sprauta því í æð og buprenorphine hafi minni virkni og sé hættuminna en t.d. methodone og oxycontin, sem eru morfínskyld lyf, sem hafa fulla virkni en það hafi buprenorphine ekki. Dauðaskammtar af buprenorhine séu varla þekktir ef lyfið er notað eitt og sér. Þórarinn sagði að Bandaríkjamenn reyni nú að koma sem flestum ópíóðafíklum á buprenorphine og hann sagðist telja það gott en ekki slæmt ef þetta lyf finnist í þvagi fanga á Litla Hrauni. „Það er góðs viti, mundu einhverjir segja,“ sagði Þórarinn.

Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, fjallaði um ársreikninga samtakanna sem lágu frammi á fundinum, endurskoðaðir af Deloitte. Hún fjallaði meðal annars um yfir 700 milljóna króna lífeyrisskuldbindingar sem eru um 56% af skuldum og eiga rætur að rekja til eldra skipulags lífeyrismála og A og B sjóða ríkisstarfsmanna. Ekki hefur enn verið staðið við fyrirheit ríkisins að færa þessar skuldbindingar yfir í bækur ríkissjóðs og er SÁÁ þar í hópi með nokkrum öðrum félagasamtökum í heilbrigðisrekstri sem ríkið hefur ekki uppfyllt slík vilyrði við.

Skuldbindingin er skuldfærð í efnahagsreikningi SÁÁ og hækkaði um 65 milljónir króna á síðasta ári. „Rétt er að taka fram að þrátt fyrir þessa framsetningu, þ.e. að færa lífeyrisskuldbindinguna í samstæðuársreikning SÁÁ, fellst ekki á neinn hátt viðurkenning á því að skuldbindingin tilheyri SÁÁ, en að áliti stjórnenda SÁÁ tilheyrir skuldbindingin íslenska ríkinu en ekki SÁÁ,“ segir í skýrslum endurskoðenda Deloitte í ársreikningnum.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar varð 94 milljónir króna en tap ársins 12,4 milljónir eftir að tekið hafði verið tillit til áfallinna um 65 m.kr. lífeyrisskuldbindinga ársins, um 20 m.kr. afskrifta útistandandi sjúklingagjalda og fjármagnskostnaðar. Styrkur frá SÁÁ Samtök til SÁÁ sjúkrastofnana nam 157,5 milljónum króna á árinu en alls eiga 180 milljóna króna rekstrartapsins rætur að rekja til sjúkrareksturins.

Eignir samstæðunnar námu 1.284 milljónum króna um síðustu áramót og eigið fé var neikvætt um 29,3 milljónir króna í árslok að teknu tilliti til 736,6 milljóna króna lífeyrisskuldbindinga, eins og fyrr sagði. Í upphafi ársins var eigið fé jákvætt um 12 milljónir króna.

Eftir umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga voru þeir samþykktir samhljóða af fundarmönnum.

Hér að neðan eru glærur úr kynningu Ásgerðar Th. Björnsdóttur á aðalfundinum vegna reikningsskila SÁÁ fyrir árið 2015. Hægt er að sjá þær í fullri stærð með því að smella á þær. Endurskoðaður samstæðureikningur SÁÁ fyrir 2015 er aðgengilegur hér.