Forysta SÁÁ endurkjörin á aðalfundi

Arnþór Jónsson var endurkjörinn formaður SÁÁ með öllum greiddum atkvæðum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sem haldinn var strax að loknum aðalfundi samtakanna í gær. Framkvæmdastjórn samtakanna er óbreytt frá síðasta starfsári og aðeins urðu fimm breytingar á 48 manna aðalstjórn. Starfsárið 2018-2019 er stjórnin skipuð 21 konu og 27 körlum.

Á fundinum fór Arnþór Jónsson yfir starfsárið 2017-2018 sem var fertugasta afmælisár samtakanna og afar viðburðarríkt. Samtökin stóðu fyrir alþjóðlegri og faglegri ráðstefnu um fíkn á Hilton sem heppnaðist mjög vel. Ráðstefnuna sóttu bæði íslenskir og erlendir fyrirlesarar, úr mörgum fagstéttum, en gestir voru alls um 350 frá 10 löndum. Annar stór viðburður á árinu var flutningur eftirmeðferðar SÁÁ í nýja og glæsilega meðferðarstöð á Vík á Kjalarnesi.

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga SÁÁ, fór yfir starfsárið á meðferðarsviði. Í máli Valgerðar kom fram að nokkrir fundir hafa verið haldnir um stöðuna á vímuefnameðferð fyrir ólögráða börn með heilbrigðisráðherra og landlækni. Vinnustofa var á Kleppspítala sl. þriðjudag, þar sem komu saman u.þ.b. 50 manns úr ólíkum fagstéttum. Þá fór Valgerður yfir það helsta í meðferðarstarfi samtakanna; aukningu hjá þeim sem sprauta í æð, aukningu á greiningu á fíkn í sterk verkjalyf, aukningu á greiningu á kókaínfíkn og lengri biðlista. Loks fjallaði Valgerður um lifrarbólgu C verkefnið sem samtökin eru þátttakandi að. Ísland er komið langt í því að meðhöndla þá sem voru með lifrarbólgu C sýkingu og ekki hafa margir bæst í hópinn. Þrátt fyrir aukningu hjá þeim sem sprauta í æð hefur nýjum tilfellum með lifrarbólgu C ekki fjölgað.

Ásgerður Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálsviðs SÁÁ, kynnti reikninga samtakanna. Rekstrarreikningur samstæðunnar sýnir 30,7 mkr. í rekstrarafkomu. Eigið fé og skuldir eru samtals 2.373,8 mkr. Þar af er eigið fé 610,2 mkr. Eftir umræður voru skýrsla stjórnar og ársreikningar samþykkt samhljóða af fundarmönnum.

Dagskrá aðalfundarins var eins og kveðið er á um í lögum samtakanna; auk ofangreinds voru til umfjöllunar lagabreytingar og önnur mál.