Forysta SÁÁ endurkjörin á aðalfundi

Arnþór Jónsson var endurkjörinn formaður SÁÁ með öllum greiddum atkvæðum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sem haldinn var strax að loknum aðalfundi samtakanna þann 1. júní síðastliðinn.

Aðeins urðu tvær breytingar á 48 manna aðalstjórn samtakanna frá síðasta starfsári. Starfsárið 2017-2018 er stjórnin skipuð 23 konum og 25 körlum, líkt og síðustu ár. Framkvæmdastjórn samtakanna er óbreytt frá síðasta starfsári.

Arnþór Jónsson, flutti skýrslu stjórnar þar sem miklar byggingaframkvæmdir á Vík á Kjalarnesi ber hæst, auk þeirra tímamóta sem urðu í sögu samtakanna þann 20. maí sl. þegar Þórarinn Tyrfingsson lét af störfum og Valgerður Rúnarsdóttir tók við sem forstjóri Sjúkrahússins Vogs. Arnþór rakti einnig meðal annars samskipti forystu samtakanna við stjórnvöld í því skyni að tryggja rekstrargrundvöllinn með gerð nýrra þjónustusamninga í stað þeirra sem eru útrunnir.

Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, gerði grein fyrir ársreikningi samtakanna fyrir árið 2016. Afkoma samstæðunnar var jákvæð um 21,5 milljónir króna en að teknu tilliti til fjármagnsliða var rekstrarafkoma neikvæð um 1,6 milljón króna. Talsverðar breytingar urðu á efnahagsreikningi milli ára í kjölfar þess að samningar náðust við fjármálaráðuneytið um að það yfirtæki þorra þeirra lífeyrisskuldbindinga sem verið hafa bókfærðar hjá samtökunum frá því breytingar urðu á lífeyriskerfi opinberra starsfmanna og heilbrigðisstétta fyrir rúmum 20 árum. Við það batnar eiginfjárstaða samtakanna umtalsvert og er eigið fé SÁÁ samstæðunnar nú 579,6 milljónir króna.

Eftir umræður voru skýrsla stjórnar og ársreikningar samþykkt samhljóða af fundarmönnum.

Dagskrá aðalfundarins var eins og kveðið er á um í lögum samtakanna; auk ofangreinds voru til umfjöllunar lagabreytingar og önnur mál.